Vel heppnuð Landssýning kynbótahrossa – ekki missa af streyminu!

  • 30. júní 2020
  • Fréttir

Skýr frá Skálakoti hlaut Sleipnisbikarinn mynd: Louisa Hackl fyrir Horses of Iceland

Landssýning kynbótahrossa fór fram á Gaddstaðaflötum við Hellu í blíðskaparveðri á laugardaginn 27. júní. Viðburðurinn var vel sóttur, en rúmlega 1200 manns komu á staðinn og góð stemmning myndaðist í brekkunni. Einnig var boðið upp á beint streymi með lýsingum á íslensku, ensku og þýsku frá vefsíðu Eiðfaxa, sem fjöldi hestaáhugamanna frá 20 mismunandi löndum nýttu sér. Fram til 6. júlí verður hægt að kaupa aðgang að streyminu og njóta þess besta sem íslensk hestamennska hefur upp á að bjóða (smellið hér). Félag hrossabænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Horses of Iceland, í samstarfi við Rangárbakka, þjóðaleikvang íslenska hestsins, stóðu fyrir viðburðinum.

Á sýningunni komu 80 bestu hross landsins fram, eða tíu hæst dæmdu kynbótahrossin úr öllum aldursflokkum hryssna og stóðhesta. Einnig voru stóðhestar með afkvæmaverðlaun heiðraðir og hlaut Skýr frá Skálakoti Sleipnisbikarinn eftirsótta, sem er hæsta viðurkenning sem hægt er að hljóta í íslenskri hrossarækt.

„Sýningin tókst mjög vel og það var mjög góð mæting. Rangárvellir skörtuðu sínu fegursta. Það var gott veður og hlýtt og þægilegt að vera þar. Hrossin voru frábær, enda ekki við neinu öðru að búast. Þetta voru gæðingar í röðum,“ segir Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur í hrossarækt, kynbótadómari og einn skipuleggjanda Landssýningarinnar. „Það var lagt upp með að heiðra og kynna vel tíu efstu hross í hverjum flokki og það var flott mæting, rúmlega 90% hrossa kom. Ég vil þakka eigendum þeirra fyrir komuna því svona sýning stendur auðvitað og fellur með þeim.“

Landssýningin var að hluta til haldin vegna þess að Landsmóti, sem átti að halda á Hellu í sumar, var frestað til ársins 2022. Reynslan af sýningunni á laugardaginn sýnir að það sé grundvöllur fyrir því að halda svona viðburð aftur. „Dagurinn gekk upp. Það var vel mætt og mikið horft á netinu,“ segir Þorvaldur. „Það er klárt mál að það er hægt að setja svona sýningu upp á milli Landsmóta þannig að eigendur með afkvæmahesta eigi meiri möguleika með sína hópa. Það má þróa þennan dag til framtíðar með fleiri atriði.“

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar