Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum „Við byggjum á góðum grunni og ætlum að nýta okkur það áfram.“

  • 9. nóvember 2023
  • Fréttir
viðtal við Sóleyju Margeirsdóttur

Sóley Margeirsdóttir er nýr formaður Meistaradeildarinnar. Hún er þaulvön í félagsmálum fyrir hestamenn og hefur starfað í þeirra þágu í áratugi.

„Ég hef setið í stjórn Meistaradeildarinnar síðustu þrjú keppnistímabil og framundan er því fjórði veturinn sem ég starfa þar. Eiginlegur formaður er ekki kosinn á aðalfundi heldur er kosið í stjórn og hún skiptir með sér verkum. Á fyrsta haustfundi skiptist það svo upp að ég verð formaður, Ragnhildur Loftsdóttir gjaldkeri, Johannes Amplatz ritari, Marta Gunnarsdóttir og Svanhvít Kristjánsdóttir meðstjórnendur og svo þeir Reynir Örn Pálmason, fulltrúi liðseigenda og Teitur Árnason fulltrúi knapa.“ Segir Sóley spurð að því hvernig það hefði komið til að hún yrði formaður.

Þrír nýjir einstaklingar taka sæti í stjórn þetta tímabil en það eru þau Ragnhildur Loftsdóttir, Johannes Amplatz og Svanhvít Kristjánsdóttir. Úr stjórn fara þeir Sigurbjörn Eiríksson, fráfarandi formaður, Agnes Hekla Árnadóttir og Björn Björnsson. „Ég vil nýta tækifærið og  þakka þeim fyrir kærlega fyrir samstarfið síðustu ár“ Segir Sóley. „Við byggjum á góðum grunni og ætlum að nýta okkur það áfram.“

Mörg járn í eldinum

„Við erum nú þegar farin að vinna í mörgum málum er lúta að Meistaradeildinni. Við höfum sent mótadagsetningar á forsvarsaðila þriggja reiðhalla og með því athugað vilja þeirra til að taka á móti okkur, þá erum við að vinna að útsendingarmálum og stefnum á að komast í samningaviðræður við aðila þeim tengdum. Samningarviðræður við styrktaraðila og svo mætti lengi telja við erum því með mörg járn í eldinum og hugum að því að klára þetta allt saman núna í nóvember.“ Eins og fram kemur á vefsíðu Meistaradeildarinnar hafa dagsetningara móta verið birtar með fyrirvara um breytingar. 

Sóley er bjartsýn á veturinn. „Ég vona að við getum haldið áfram með sama hætti og í fyrra og tekið vel á móti fólki á mótsdag með góðri umgjörð, vonir okkar standa til þess að hægt verði að selja styrktaraðilum mótin í heild sinni og bjóða áhorfendum til okkar. Við hefjum leika 25. janúar og lokakvöldið verður svo 12.apríl vonandi með sama sniði og í fyrra, lokamót á föstudegi og stóðhestaveislan á laugardegi, sannkölluð hestaveisla. Ég er því full bjartsýni“

Eiðfaxi þakkar henni spjallið og óskar stjórn Meistaradeildar heillaríks keppnistímabils.

 

Sóley Margeirsdóttir nýr formaður Meistaradeildarinnar

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar