Suðurlandsdeildin “Við stefnum auðvitað bara á eitt sæti”

  • 6. mars 2023
  • Fréttir

Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sigraði liðakeppnina í Suðurlandsdeildinni í fyrra.

Viðtal við Heklu Katharínu Kristinsdóttur, liðstjóra liðs Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns í Suðurlandsdeild Cintamani.

Suðurlandsdeildin hefst á morgun en fyrsta mótið er parafimi. Parafimi er sérgrein deildarinnar en þá keppa liðin í pörum, einn áhugamaður og einn atvinnumaður og hvert lið teflir fram tveimur pörum. Greinin reynir á ganghæfileika, fegurð, kraft og glæsileika hestsins.

Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns vann deildina í fyrra en deildin er einungis liðakeppni. Liðið er búið að vera á æfingum fyrir parafimina og ákvað blaðamaður Eiðfaxa að taka púlsinn á Heklu Katharínu Kristinsdóttur sem er liðsstjóri liðsins.

“Það er búið að vera mikil spenna fyrir deildinni. Hún byrjar aðeins seinna en hinar þannig að það er mikill spenningur sérstaklega hjá þeim sem eru ekki að keppa í öðrum deildum eins og t.d. ég. Það er líka svaka stemning í höllinni sérstaklega þegar verið er að undirbúa parafimina. Það myndast skemmtilegur liðsand en pörin hittast og horfa á hvort annað, svo er verið að velja lög, búninga og fleira,” segir Hekla Katharína en pörin geta fengið auka plús fyrir búninga og tónlist.

“Undirbúningurinn reynir alveg á en það er auðvitað ekki keppt jafn oft í þessari grein eins og öðrum. Við völdum saman pör sem gætu æft saman en það er misjafnt hvernig fólk raðar saman knöpum, sumir velja t.d.út frá hestakosti. Það endaði síðan þannig hjá okkur að þetta eru tveir alhliðahestar saman og tvö klárhross,” segir Hekla en það reynir oft mikið á að stilla saman æfingar og ná að para saman styrkleikum.. “Þú þarft að stilla prógramminu þannig að það sé góð samvinna hjá parinu en líka að hver og einn fái að njóta sín og sýna sína styrkleika. Tíminn er líka mjög knappur (3:45 sek.) miðað við eins og í gæðingalistinni þar sem hver knapi hefur fimm mínútur. Þarna ertu að vinna með öðrum knapa svo þetta er krefjandi en líka stutt, skemmtilegt og hnitmiðað.”

Liðið setur markið hátt og stefnir alla leið í deildinni. Það urðu töluverðar knapa breytingar á liðinu frá því í fyrra. Áhugamennirnir Gísli Guðjónsson og Hafþór Hreiðar Birgisson hættu í liðinu en Hafþór keppir nú í Meistaradeildinni. Í staðinn fyrir þá komu í liðið Maiju Varis og Auður Stefánsdóttir. Arnhildur Helgadóttir keppti í liðinu í fyrra sem atvinnumaður en hún tók sér smá barneignarleyfi frá deildinni í ár og kom Svanhildur Guðbrandsdóttir inn fyrir hana.

“Við stefnum auðvitað bara á eitt sæti en það kemur í ljós hvort við náum því.”

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar