Viðburðarríkur dagur framundan á laugardaginn

  • 20. mars 2025
  • Fréttir

Julio Borba vinnur í hendi með Álfgrím frá Syðri-Gegnishólum

Nútíma reiðlist- The clinic next level

Á laugardaginn næstkomandi, þann 22.mars, fer fram viðburður í HorseDay höllinni að Ingólfshvoli sem ber heitið Nútíma Reiðlist, The Clinic – Next Level.  Að sýningunni standa þau Julio Borba, Olil Amble, Bergur Jónsson og Nils Christian-Larsen. Þau ásamt fjölda annarra frábærra knapa munu koma þar fram á gæðingum sýnum. Dagurinn er tvískiptur en að deginum til fer fram kennslusýning og um kvöldið verður svo galasýning.

Fyrir fjórum árum síðan var haldinn sambærilegur dagur sem stýrt var af sama hópi fólks sem hlaut mikið lof og fjallaði Eiðfaxi meðal annars ýtarlega um þá sýningu í tímariti sýnu það ár. Í þeirri grein segir. „Allur dagurinn var frábær skemmtun, fróðlegur og þeim sem að honum stóðu til mikils sóma. Julio Borba er auðmjúkur gagnvart íslenska hestinum og þær aðferðir sem hann hefur fram að bjóða eru hugsaðir með hagsmuni hestsins í forgrunni. Dagurinn undirstrikaði gæði íslenska hestsins sem virðist geta leyst öll þau hlutverk sem honum eru boðin“.

Kennslusýning

Á kennslusýningunni, sem hefst klukkan 11:00 og er áætlað að ljúki klukkan 15:00, verður farið yfir ýmsa þætti er lúta að þjálfun hrossa. Verður þar sérstök áhersla lögð á stökk þjálfun og uppbyggingu ungra hrossa með yfirlínu og jafnvægi í forgrunni, hvernig nota má stökkþjálfun bæði í taumhringvinnu og úr sæti með það að markmiði  að bæta allar gangtegundir hestsins. Í hádegishléi verður dýralæknirinn Susanne Braun svo með merkilegan fyrirlestur.

Dagskrá kennslusýningar

  • Ungir hestar – yfirlína, jafnvægi og hernig nálgast á stökk í taumhringsvinnu.
  • Yfirlína, jafnvægi, þróun stökksins og stökkvinnu.
  • Æfingar sem við kennum ungu hestunum – fyrsta stökkæfingin í reið.
  • Halda áfram vinnu undir knapa – fyrsta stökkæfingin í reið.
  • Upphaf fljúgandi stökkskipta
  • Notkun annarra gangtegunda til að bæta stökkið.
  • Notkun stökks til að bæta aðrar gangtegundir.
  • Framhaldsstökkvinna.

Galasýning

Á galasýningunni. sem hefst klukkan 19:30 um kvöldið verður svo engu til sparað en þar mega áhorfendur búast við miklu. Þjóðsagan um skúlaskeið verður þar sett á svið byggð á mögnuðu ljóði Gríms Thomsen. Í þjóðsögunni segir frá manni sem Skúli hét og var hann dæmdur til lífláts á Alþingi. Var hann eltur en svo góðan hest átti hann að hann varð langt á undan þeim öllum. Hann hleypti klár sínum á flugaferð á hinn illgrýttasta óveg sem verið hefur á landinu og þorði enginn að fara á eftir honum af því dregur vegurinn nafnið Skúlaskeið. Spennandi verður að sjá hvaða knapi og hestur setja sig í hlutverk Skúla. En auk þess atriðis verða mörg þaulæfð atriði líkt og munsturreið og fá gæðingar að njóta sín undir leiðsögn sinna frábæru knapa. Þá koma fram og verða heiðraðir heimsmeistarar í fullorðinsflokki. Öllu þessu verður svo skeytt saman við magnaða tónlistarupplifun því hljómsveitin Ylja mun flytja lifandi tónlist.

Íslenski hesturinn, þjálfun hans og gæði verða þó ekki það eina sem í boði verður því allir sýningargestir fá glaðning í formi gjafapoka frá PAVO. Happadrætti verður úr öllum seldum miðum þar sem m.a. hnakkur verður í vinnig ásamt ýmsum öðrum varningi. Tískusýning með reiðfatnaði frá TopReiter, Líflandi og Kidka fer fram og við inngöngu á galasýninguna verður boðið upp á kampavín á rauðum dregli í boði Top Reiter.

Steikarhlaðborð og gnægð veitinga

Sýningargesti mun ekki skorta neitt því glæsileg veitingasala verður í HorseDay höllinni allan daginn bæði í föstu og fljótandi formi. Húsið opnar klukkan 10:00 og verður opið fram á nótt.
Á steikarhlaðborðinu, sem framreitt verður fyrir galasýningun,a verður hægt að velja um lambalæri, purusteik eða fyllta kalkúnabringu, með því verður svo hið ýmsa gómsæta meðlæti.  Það er því ekkert til fyrirstöðu að eyða öllum deginum á staðnum og þar mun engan skorta neitt.

 

Miðasölu má nálgast á midix.is og með því að smella hér. Frekari upplýsingar um viðburðinn má nálgast með því að smella hér.

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar