Landsamband hestamanna Vonast eftir aukaúthlutun

  • 5. janúar 2025
  • Fréttir

Frá heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín 2019. Mynd: Louisa Hackl

Forsvarsmenn Landssambandsins ósátt með úthlutunina úr afrekssjóði ÍSÍ.

Fyrr í vikunni var greint frá því á vef Eiðfaxa að Landssamband hestamannafélaga hafi fengið 11.260.761 kr. styrk úthlutað úr Afrekssjóð ÍSÍ. Samanborið við árið 2023, síðasta heimsmeistaramóts árs, er styrkurinn rúmri milljón krónum lægri. Forsvarsmenn Landssambandsins eru ósátt með úthlutunina en vonast eftir því að fá aukaúthlutun í ársbyrjun úr sjóðnum.

„LH er að sjálfsögðu langt frá því að vera ánægð með að styrkur til hestaíþróttarinnar lækki milli ára en vonum að aukaúthlutunin í ársbyrjun rétti hlut hestaíþróttarinnar. LH hefur unnið ötullega seinustu mánuði með nýjum afreksstjóra ÍSÍ að útskýra íþróttina og tryggja okkar góðu íþrótt það vægi sem hún á skilið í nýju afreksumhverfi sem er verið að koma á laggirnar innan ÍSÍ, en með auknu fjármagni til afreksmála þá berum við vonir til að úthlutun til sérsambandanna verði meiri en verið hefur undanfarin ár,“ segir Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH.

Sjálfkrafa styrkur fyrir þátttöku á heimsmeistaramóti tekin út

Reglum um úthlutun afrekssjóðs var breytt í nóvember 2023 og er í annað sinn unnið eftir þeirri reglugerð.

„Ástæðan fyrir því að styrkur til LH fyrir árið 2025 er lægri en hann var á sambærilegu ári 2023 er aðallega vegna þess að í nýju reglunum er ekki lengur sjálfkrafa styrkur fyrir að taka þátt í heimsmeistaramóti eins og var 2023, en það ár fékk LH 1.500.000 vegna HM. Að auki þá var potturinn til úthlutunar minni núna en fyrir árið 2023 en þá var talsvert fjármagn uppsafnað í sjóðnum vegna Covid áranna,“

Heimsmeistaramót íslenska hestsins ekki stórmót á alþjóðavísu

Við ákvörðun á styrkupphæðum til sérsambanda horfir Afrekssjóðurinn til flokkunar þeirra í afreksflokka. Hljóta þau styrki vegna ákveðinna áhersluþátta eftir því hvaða flokki og þrepi þau tilheyra. Þannig hljóta sérsambönd styrk eftir fjölda stöðugilda í afreksstarfi, þátttöku og árangri fullorðinna og ungmenna í stórmótum, vegna hæfileikamótunar, heilbrigðisteymis og menntunar þjálfara og dómara. Að auki eru sérsamböndin styrkt vegna mögulegrar þátttöku á Ólympíuleikum og vegna framúrskarandi einstaklinga. Til viðbótar eru svo Afrekssérsambönd styrkt um hluta af ferðakostnaði þeirra í mót og keppnir þar sem styrkfjárhæð fer eftir stærð móta.

„Styrkur vegna stórmóta fer eftir stærð mótsins (fjölda þátttökuþjóða) og eftir því hvort þátttaka er áunnin eða sjálfgefin, þá er átt við hvort þjóðir vinna sér rétt til þátttöku í gegnum undankeppni og komist á topp 32 í heimi. Afrekssjóður telur HM íslenska hestsins ekki ná þeim kvarða að teljast stórmót á alþjóðavísu, skv. nýju úthlutunarreglunum, þar sem aðeins 22 þjóðir eiga möguleika á að taka þátt og enn færri gera það í raun, en á síðasta HM tóku 17 þjóðir þátt.“

Eftir að úthlutunin kom í ljós hafa þær Berglind og Linda B. Gunnlaugsdóttir, formaður LH, óskað eftir fundi með afreksstjóra ÍSÍ sem haldin verður nú á næstu dögum.

„Þar verður haldið áfram þeirri vinnu að þrýsta á ÍSÍ að gera hestaíþróttinni hærra undir höfði.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar