„Vont að þjálfa hross á tóman maga“

  • 23. apríl 2021
  • Fréttir

Mikilvægt er að þjálfa hross ekki á tóman maga til þess að forðast magasár

Hlaðvarpsþátturinn á Kaffistofunni hóf göngu sína í vetur en um er að ræða samstarfsverkefni Eiðfaxa, Hjörvars Ágústssonar og Arnars Bjarka Sigurðarsonar. Alls eru þættirnir orðnir tólf og von er á mörgum til viðbótar, en upptökur og vinnsla á næstu þáttum stendur nú yfir.

Þáttur númer tíu heitir Fóðrun og Tannheilbrigði en í honum fékk Hjörvar tvo sérfræðinga í spjall til þess að ræða um þau atriði sem þátturinn ber nafn sitt af.
Þetta voru þau Sonja Líndal, sem er menntaður reiðkennari og dýralæknir sem sérhæfir sig í hestatannlækningum og Einar Ásgeirsson, hestafræðingur með framhaldsmenntun í fóðurfræði.

Spjall þeirra var áhugavert og þar komu fram margir góðir punktar sem ættu að nýtast hestamönnum vel. Við skulum grípa niður í viðtalið þegar rætt er um magasár í hestum.

Ekki hreyfa hross á tóman maga

„Áhugafólk sem að kemur í hesthúsið eftir vinnu á daginn með það að markmiði að hreyfa sína brúkunarhesta og getur ekki verið að gefa þeim í hádeginu eða yfir miðjan daginn, eins og margir atvinnumenn gera. Þá er mjög gott trix, til þess að fyrirbyggja magasár, að þjálfa hesta ekki á tóman maga. Fyrir okkur hljómar þetta mjög órökrétt, því hver fer saddur út að hlaupa“.  Segir Sonja og heldur áfram

„Kerfið í maganum á hestum er gert til þess að hann geti verið án matar í einhvern tíma og þá safnast magasýrur upp neðst í maga hesta og þar er vörn á slímhúðinni gegn þessum magasýrum og slímhúðin mjög sterk, þar fyrir ofan ertu með mjög viðkvæma slímhúð sem ekki þolir magasýrur. Þegar þú svo þjálfar hestinn á tóman maga og hann hefur ekkert étið frá því um morguninn að þá sullast magasýrurnar um þennan viðkvæma hluta magans og þá ertu að stórauka líkur á magasári. Það er því góð regla fyrir áhugamenn sem koma í hesthúsið seint að degi að hára þeim örlítið og leyfa þeim að fá magafylli af heyi til þess að fyrirbyggja að þetta komi fyrir. Þetta eiga kannski ekki bara áhugamenn að hafa í huga heldur einnig atvinnumenn.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni og verða margsvísari með því að smella hér eða þá á Spotify.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar