Frakkland WR íþróttamót í Frakklandi

  • 7. júní 2024
  • Aðsend grein
WR íþróttamót á Øder Arena í Frakklandi

Þetta er fjórða árið í röð sem Pur Chevall heldur world ranking hestamót hér á Øder Arena í Frakklandi, en völlurinn var opnaður formlega með boðsmóti 2019. Síðan kom covid árið þegar allt lá niðri, en 2021 héldum við fyrsta opna mótið.

Mótið gekk mjög vel, þrátt fyrir óvenjulega kalt og blautt veður þessa helgi og reyndar vikurnar á undan. En jarðvegurinn nær ekki að drena sig þegar rignir svona stanslaust, og voru því túnin vatnsausa.  En þrátt fyrir erfiðar aðstæður voru mótsgestir einstaklega jákvæðir og þolinmóðir.  Sérstaklega þegar sögur af aflýstum mótum fóru að berast frá löndunum í kring, en þessa sömu helgi voru
stór mót haldin í Þýskalandi, Austurríki og Sviss og þar var hreinlega allt á floti og þurfti t.d. að aflýsa mótinu í þýskalandi. Við vorum því betur sett en margir aðrir og Øder Arenan sannaði sig ljómandi vel; engir pollar á brautinni.

Keppt var í 12 greinum; Tölti, (T1, T2, T3, T4, T7) fjórgangi (V1, V2, V5), fimmgangi (F1, F2) og tveimur skeiðgreinum (P2, PP1).  Það var gaman að sjá Petru Liggenstorfer á Leiru-Björk frá Naustum í gæðingaskeiðinu, en Benedikt Ólafsson og Leira-Björk voru heimsmeistarar í PP1 í ungmennaflokki á síðasta Heimsmeistaramóti.

 

 

Fyrir utan frönsku og íslensku keppendurna, þá voru hér mættir Hollendingar, Belgar og Svisslendingar.  Við fengum heldur færri erlenda keppendur í þetta skiptið, en stóru úrtökumótin fyrir Evrópu Meistarmótið sem haldin voru þessa sömu helgi eins og segir hér að ofan, tóku til sín marga af okkar bestu keppendum sem hafa komið til okkar frá upphafi. Hins vegar fengum nokkuð fleiri franska keppendur heldur en áður; unga og efnilega knapa sem ekki hafa keppt hér áður, en það skiptir öllu máli fyrir vöxt keppninnar að við náum að byggja upp góðan hóp keppenda sem koma frá heimalandinu.

Þó við séum á fjórða ári þá er mótið okkar enn lítið og krúttlegt og ýmsir af erlendu gestunum okkar koma einmitt þess vegna. Margir þáttakendur eru að taka út fríið sitt í þessum keppnisferðum og leita þar af leiðandi í fallegt umhverfi sem við höfum nóg af hér í Loire dalnum, en einnig gæðastundir og gleði, og við gerum okkar besta til að veita þeim það. Við leggjum áherslu á vingjarnlegt og afslappað andrúmsloft og okkur finnst mjög mikilvægt að öll umgjörðin sé snyrtileg og falleg. Stefna okkar varðandi verðlaun er að þau séu nothæf, umhverfisvæn og að sjálfsögðu falleg. Vorum afskalplega ánægð með sponsorana okkar í þetta skiptið og mig langar að nota tækifærið og þakka þeim 3 fyrirtækjum sem studdu okkur en það voru Hrímnir, danska fyrirtækið Eques og þýska fyrirtækið Hestakofi, allt frábærar vörur ! Í þetta skiptið sáum við einnig sjálf um allt catering og kokkurinn okkar; Magnús Byron stóð sig frábærlega vel, eldaði hollan og góðan mat fyrir allan mannskapinn.

Eins og fyrr þá vorum við með einvala lið í dómara hópnum; Þorgeir Guðlaugsson sem býr í Hollandi fór fyrir hópnum, Freija og Nikolai Thyje ásamt Högni Fróðasyni komu frá Þýskalandi, og Svanhvít Kristjánsdóttir og Logi Laxdal frá Íslandi.  Það var sérlega ánægjulegt að fá Svönu til okkar sem dómara, en hún og Einar Øder heitinn, voru okkur Ólafi til halds og trausts, þegar við stofnuðum Pur Cheval árið 2012.

En svona viðburður gerist ekki ef ekki væri fyrir okkar frábæra starfsfólk og sjálfboðaliða, sem leysa þetta vel af hendi undir styrkri stjórn Berglindar Ingu Árnadóttur og Elíasar Þórhallsonar, sem hafa verið hjá okkur síðan 2018. Þetta er gífurlegur undirbúningur og vinna sem á sér stað í aðdraganda og yfir sjálft mótið og það má ekki gleyma því að flestir í teyminu okkar eru einnig að keppa. En af hverju erum við að þessu? …Jú, fyrir utan hvað þetta er gaman og gefandi, þá er þetta afskaplega mikilvægt fyrir íslenska reiðmennsku í Frakkland…en Øder Arena er eini löglegi keppnisvöllurinn fyrir íslenska hestinn enn sem komið er….í þessu annars stóra landi !

Höfundur er Ingibjörg Kristjánsdóttir

Niðurstöður frá mótinu er hægt að sjá HÉR

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar