Ýmsar tillögur um breytingar á reglum verða teknar fyrir
Hefst þingið á föstudaginn með stjórnarfundi. Seinni partinn hittast allir fulltrúar þingsins og verður Horses of Iceland með kynningu. Á laugardeginum verður þingið síðan formlega sett og verður Mike Weishaupt með ávarp um áhrif keppnisjárninga á hreyfingu fóta og heilbrigði hófa á íslenskum hestum. Johannes Amplatz verður með kynningu um rannsókn sína um áhrif þyngdar knapans á íslenska hestinn. Munu síðan hefðbundin þingstörf hefjast og lýkur þeim á sunnudag.
Á þinginu eru teknar hinar ýmsu ákvarðanir er tengjast íslandshestamennskunni. Liggja nokkrar tillögur fyrir þinginu en hægt að sjá þær og dagskrá þingsins á heimasíðu FEIF.
Kosið í nefndir
Flestir formenn hinna ýmsu nefnda innan FEIF bjóða sig fram aftur. Silke Feuchthofen hættir sem formaður menntanefndar FEIF og Mark Timmerman býður sig fram í stað hennar. Atli Már Ingólfsson býður sig fram sem formann frístundareiðanefndarinnar (e. Leisure Riding committee.) og Gunnar Sturluson býður sig fram í agaráð FEIF en Ólafur Arinbjörn Sigurðsson gefur ekki áfram kosta á sér í það.
Farið yfir umsókn Rúmeníu
Eins og áður hefur komið fram á Eiðfaxa hefur Rúmenía sótt um aðild að FEIF og verður umsóknin tekin fyrir á þinginu.
Ýmsar tillögur um breytingar á reglum verða teknar fyrir
Nokkrar tillögur að breytingum á reglum FEIF verðar lagðar fram til kosningar og er hægt að sjá þær allar HÉR.
M.a. liggur fyrir tillaga um að gerð verði breyting á fyrirkomulagi á greiðslum aðildarlanda FEIF til WorldFengs.
Tillögur til reglubreytinga tengdar kynbótasýningum er nokkrar þ.á.m. að öll hross fædd árið 2024 eða síðar verða að vera með staðfest DNA sýni úr báðum foreldrum til að mega vera sýnd. Einnig er lagt til að reglu um járningar á kynbótahrossum sem mæta eingöngu til sköpulagsdóms verði breytt.
Ýmsar tillögur um breytingar á keppnisreglum liggja líka fyrir þingið þ.á.m reglan um að allar einkunnir dómara gildi í íþróttakeppni og breyting á því hvernig úrslit í slaktaumatölti T2 eru riðin en þar er m.a. verið að bæta inn að atriðið tölt á slökum taum verði sýnt upp á báðar hendur í úrslitum.
Eiðfaxi mun fjalla nánar um það sem fram fór á ársþingi FEIF að því loknu og flytja fréttir af því hvað þar fór fram.