“Gerum okkar besta til að ná góðum árangri”

  • 2. ágúst 2024
  • Fréttir

Landslið Íslands á NM2022

Viðtal við Heklu Katharinu landsliðsþjálfara U-21

Norðurlandamótið í Herning hefst fimmtudaginn næstkomandi, þann 8.ágúst, og lýkur sunnudaginn 11.ágúst.

Landsliðshópur Íslands hefur verið tilkynntur og munu alls 20 knapar keppa fyrir hönd Íslands. Keppt er bæði í gæðinga- og íþróttakeppni. Heimasíða mótsins, þar sem fylgjast má með dagskrá og öðru er við kemur mótinu, er aðgengileg með því að smella hér. 

Liðið samanstendur af reynslumiklum knöpum í bæði fullorðins- og ungmennaflokki, en alls eru 15 knapar af þeim 20 sem taka þátt fyrir hönd Íslands ungmenni.

Hekla Katharina Kristinsdóttir er landsliðsþjálfari U-21 árs liðsins. “Teymið í kringum liðið samanstendur af mér og Sigurbirni Bárðarsyni, landsliðsþjálfara, en auk þess verða aðstandendur knapa með okkur í liði um að halda vel utan um hópinn. Við höfum stofnað foreldraráð sem mun hjálpa okkur við það að allt gangi vel.” Segir Hekla Katharina er Eiðfaxi sló á þráðinn til hennar.

Enginn útflutningur var frá Íslandi frá miðjum júní og fyrsta flug er ekki áætlað fyrr en um miðjan þennan mánuð, þannig að langflestir knapar í ungmennaliðinu eru á lánshestum. “Þetta er töluvert frábrugðinn undirbúningur frá Heimsmeistaramótinu þar sem knapar eru með hesta sem þeir yfirleitt gjörþekkja. Einn knapi í ungmennahópnum flutti keppnishest út fyrr í sumar en það er Harpa Dögg á Sefju frá Kambi. Ferlið með lánshesta er á þann hátt að knaparnir tilkynntu til mín hvaða hesta þeir gætu fengið til afnota og ég valdi svo úr þeim umsóknum sem til mín bárust, byggt fyrst og fremst á keppnisárangri hestanna. Knaparnir hafa svo verið að fljúga út í þessari viku og eru nú að þjálfa sín hross og kynnast þeim.”

Hekla og Sigurbjörn fljúga út á mánudaginn og þann sama dag verða flestir knaparnir komnir með sín hross á mótsstaða, fyrsti formlegi æfingatíminn er svo áætlaður á þriðjudag. “Það reynir auðvitað á þessa ungu knapa að kynnast hestunum hratt og vel og mæta eins sterk til leiks og möguleiki er á. Þetta er heilmikil reynsla fyrir þessa knapa en ég treysti þeim öllum vel í verkefnið .”

Eins og gefur að skilja senda þær þjóðir sem ekki þurfa að flytja hross á milli landa sterk lið til leiks og því ærið verkefni framundan fyrir landslið Íslands.

“Mér lýst vel á mótið, það er mikill metnaður í skipuleggjendum og það hefur verið mjög gaman að vinna með þeim í undirbúningnum. Það er boðið upp á mikið af keppnisgreinum og það verður keppt á tveimur völlum þannig að dagskráin verður þétt. Ég er bjartsýn á góðan árangur en auðvitað rennur maður svolítið blint í sjóinn. Ég hlakka til samstarfsins við Sigurbjörn, knapanna og aðstandenda þeirra og við munum reyna að gera okkar besta til að ná góðum árangri.”

Eiðfaxi mun flytja fréttir af Norðurlandamótinu og fylgja því eftir sem þar fer fram. Áfram Ísland!

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar