Hrifinn af Vatnsleysu og Orrablöndu

  • 16. desember 2022
  • Fréttir
Viðtal við ræktendur í Hrímnisholt

Á bakvið ræktunarbúið Hrímnisholt eru þau Rúnar Þór Guðbrandsson og Hulda Sóllilja Aradóttir en þau eru jafnframt eigendur Hrímnis, hestavöru framleiðandans. Rúnar og Hulda eru með hesthús í Mosfellsbæ þar sem þau ríða út en eins og er eru þau með sjö hross á húsi. Á útigangi er slatti af hrossum eins og Rúnar orðar það og eru þau síðan með fimm hross í þjálfun annars staðar.

Ræktunin hófst árið 1995 og eru þau eru að fá tvö til fimm folöld á ári en aðal ræktunarhryssur þeirra eru þær Lyfting frá Miðkoti, Drottning frá Enni og Lena frá Vatnsleysu (en hún lést í fyrra). “Í sumar héldum við fimm hryssum og fóru þær undir Lord frá Vatnsleysu, Þráinn frá Flagbjarnarholti, Spuna frá Vesturkoti, Hulinn frá Breiðstöðum og Dofra frá Sauðárkróki,” en Rúnar hefur alltaf verið mikill aðdáandi Vatnsleysu hrossanna. “Við fengum tvö folöld í sumar, mjög fallega jarpa hryssu undan Lyftingu frá Miðkoti og Lennon frá Vatnsleysu (undan Hágangi og Lydíu) og svo mjög myndarlega skjótta hryssu undan Drottningu frá Enni og Þránni frá Flagbjarnarholti.

Hestagullið Elding

Elding frá Hrímnisholti vakti mikla athygli á Landsmótinu í sumar fyrir vaska framgöngu. Þau Rúnar og Hulda binda miklar vonir við hryssuna og eru spennt að sjá hvernig hún mun þróast. Hryssan er í þjálfun hjá Benjamín Sandi Ingólfssyni sem sýndi hana á Landsmótinu en hann stefnir á að keppa á henni næsta sumar. “Hápunktur ársins fyrir okkur var án efa dómur Eldingar á Landsmótinu og þegar brekkan klappaði fyrir Benjamín og henni eftir nánast hverja ferð. Þegar kom svo í ljós að hún hefði fengið 3 x 9,5 fyrir hæfileika, þá var samglaðst með frábærum knapa,” segir Rúnar en hann var ánægður með Landsmótið þrátt fyrir veður. “Landsmótið var frábært í alla staði. Það sem við ráðum aldrei við er veðráttan, en staðið var vel að mótinu og á föstudagskvöldið þegar sólin skein og brekkan var troðfull var ekki hægt að kvarta yfir neinu.”

Elding frá Hrímnisholti hlaut í aðaleinkunn 8,26, fyrir sköpulag 8,10 og fyrir hæfileika 8,34. Hún hlaut 9,5 fyrir hægt tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið. Knapi er Benjamín Sandur Ingólfsson

Elding á tvö alsystkini, Byl og Hátíð, og telur Rúnar þau vera hin efnilegustu trippi. “Bylur er þriggja vetra og er líklega efnilegasta trippið í vetur, en Hátíð fjögurra vetra alsystir þeirra er líka mjög spennandi ung hryssa. Við veljum yfirleitt að gera hrossin bara rétt reiðfær þriggja vetra og gefa þeim svo pásu. Hátíð er því bara rétt lítið gerð en lofar góðu.”

Heilt yfir telur Rúnar kynbótastarfið ganga ágætlega og ræktunarstarfið í heild sinni vera á réttri leið en Rúnar myndi vilja sjá fleiri vera óhræddari við að sækja í ræktunarlínur sem heilla þá. “Eftir að hafa kynnst hrossum af Vatnsleysukyni, þá ákváðum við að fá okkur góða hryssu undan Orra frá Þúfu og rækta á móti hestum frá Vatnsleysu. Það var okkar gæfuspor og Elding er fyrsta afkvæmið úr þeirri blöndu. Hvað varðar kynbótastarfið í ár þá gekk það nokkuð vel. Ekki voru allir sáttir, en heilt yfir held ég að þetta hafi gengið nokkuð vel. Þessar upptökur á Alendis eru auðvitað frábærar og vonandi er þetta komið til að vera því þetta er ómetanleg heimild fyrir ræktendur að styðjast við,” bætir hann við.

Jólin heima með fjölskyldunni

Líkt og aðrir er Rúnar og fjölskylda á fullu í jólaundirbúningi. Áður en hann fór sjálfur að framleiða hestavörur þá fannst Rúnari alltaf skemmtilegast að fá hestavörur í jólagjöf. “Eftirminnilegast var að fá góða kuldaúlpu og kuldabuxur frá Mountain Horse í jólagjöf og fara í fyrsta sinn á hestbak í brakandi kulda yfir hátíðarnar og vera hlýtt.”

Rúnar eyðir jólunum með sínum nánustu heima í Leirvogstungunni en á boðstólnum er humarsúpa, hamborgarhryggur og heimagerður ís. Um áramótin fær hann svo til sín stórfjölskylduna og nýtur útsýnisins sem hann hefur yfir Mosfellsbæ og Reykjavík.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar