Áfram heldur ruglið í boði LH
Ég hef birt hér áður tvær greinar sú fyrri birtist þann 2.febrúar og sú seinni birtist 4.febrúar þar sem að ég geri alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu stjórnar og keppnisnefndar LH á WR mótum á Hólum og Selfossi þar sem hlaupagæslumenn á báðum þessum mótum hafa ekki til þess réttindi að flagga kappreiðar samkvæmt reglum FEIF og LH. Einnig dæmir dómari allar hringvallagreinar á mótinu á Hólum án þess að hafa tilskilin réttindi af hálfu LH.
Berglind Karlsdóttir framkvæmdarstjóri svarar grein minni fyrir hönd stjórn LH þann 3.febrúar og í megindráttum samþykkir mínar athugasemdir sem að snéru m.a. að því að opnuð er skýrsla löngu eftir að móti lýkur á Hólum og færðir inn aðilar sem að ekki hafa réttindi til að lyfta flaggi við kappreiðar. Einnig heldur hún því fram að það sé algilt að yfirdómarar hafi vald til þess að velja það fólk sem að þeim þykir hæft til starfsins. Berglind svarar því jafnframt að það sé engin menntun/þjálfun til hjá LH sértaklega fyrir hlaupagæslumenn, en standi til bóta nú í mars 2024.
Athugasemdir mínar hafa alltaf snúist um vinnubrögð stjórnar og keppnisnefndar LH og hafa verið þess eðlis að ekki sé verið að gæta jafnræðis við umfjöllun og afgreiðslu við þau mál sem að ég hef reifað í þessum greinum.
Sviðstjóri afreks og mótamála fer fram á ritvöllinn
Á facebook síðu sinn deilir sviðsstjóri afreks- og mótamála LH svari Berglindar og í löngum pistli fer hann yfir starf sitt innan samtakanna og skrifar þar að í bréfi Berglindar sé verið að svara ósannindum og dylgjum af minni hálfu, það er nefninlega svo gott að hjóla í manninn en ekki málefnin, það er oft það síðasta sem að fólk grípur í þegar allt er komið í þrot, en í þessu tilfelli er hjólað bara fyrst í það. Formaður LH og framkvæmdastjóri LH fundu sig knúin til þess að deila þessum pistli honum til stuðnings.
Við skulum fara aðeins yfir það sem að hefur verið sagt í þessu öllu saman. Í áður innsendri grein hef ég vísað í svar sviðsstjórans á fundi 4.jan. sl.(Samtal knapa og dómara) þar sem að hann segir blákalt upp í pontu að ekki þurfi hlaupagæslumenn nein sérstök réttindi við störf. Nefndarmaður í keppnisnefnd LH 2023 og núverandi formaður keppnisnefndar LH mundi ekki eftir, á sama fundi, umræðu um mótin sem áður ræðir í fyrri greinum mínum, skrýtið þar sem að hann tók fullan þátt í þeim umræðum keppnisnefndar og þau samskipti eru öll til.
Ég hef gert athugasemdir við aðkomu tengdra aðila að málum sem eru í umfjöllun stjórnar og keppnisnefndar. Tveir aðilar hafa aldrei vikið sæti í umfjöllun um mótin sem hafa verið gerð athugasemd við þó þeir sé annað hvort mótstjórar eða yfirdómarar á tilteknum mótum. Báðir aðilar eru í keppnisnefnd LH og annar einnig í stjórn LH. Þessir aðilar taka fullann þátt í að ógilda mót, sem að vissulega og ekki verður deilt um að eru ólögleg eins og ég hef áður sagt, en á sama tíma sitja þau með mót sem að eru alveg á sama hátt ólögleg, þ.e.a.s. of fáir dómarar eru að störfum á mótunum. Stjórn hefur fjallað um þessi mót þann 7.júní, sbr. fundargerð stjórnar LH, og lagt sína blessun yfir allt saman og á þeim fundi sat áðurnefndur aðili og fjallaði um sjálfan sig og sitt mót.
Fyrir hvern er unnið og eftir hverju er farið?
Eftirfarandi er grein úr almennun reglum um keppni þar sem fjallar um ábyrgð samtaka:
A1.5 Siðareglur: Heiðarleg keppni og hestaíþróttir
“Ábyrgð ráðandi samtaka (innlendra sem alþjóðlegra samtaka) Ráðandi samtök hestaíþrótta setja ekki einungis reglur heldur mennta einnig og útskrifa starfsmenn, samþykkja dagsetningar og dagskrár stærri móta og eru oft efsta dómstig í þeim kærumálum sem upp koma. Þau þurfa að sinna því verkefni sínu af kostgæfni, sjá til þess að reglur séu réttlátar, raunhæfar og að farið sé nákvæmlega eftir þeim af hæfu og rétt menntuðu starfsfólki. Þau þurfa einnig að gera allt sem mögulegt er til að bæta og efla gæði keppisgreina og stuðla að því að þær séu aðlaðandi fyrir bæði áhorfendur og keppendur og nota til þess það vald sem þau hafa. Að lokum skulu þau að hafa í huga að vanræksla eða lítilsvirðing við hugmyndir um sanngjarna keppni hefur áhrif bæði á íþróttina sem slíka sem og samtökin sem ábyrgð bera á framkvæmd hennar.”
Landssamband Hestamannafélaga telur um 12.000 félagsmenn og stjórn og skrifstofa ber ábyrgð á starfi samtakanna. Verða keppendur, dómarar og hinn almenni félagsmaður ekki að geta treyst því að þar starfi fólk að heilindum íþróttinni og því umhverfi til heilla? Ég efast um að staðan sé þannig í dag og því til stuðnings ætla ég að vitna hér í samskipti stjórnarmanns LH, fulltrúa stjórnar LH í keppnisnefnd og mótsstjóra á WR móti á Hólum sem að ég hef undir höndum við ónefndan dómara sem að ekki var einu sinni staddur á mótinu á Hólum og kom hvergi nálægt því. Þessi samskipti eru frá 1.júní en eins og ég hef áður komið inná þá var Hólaskýrslan opnuð þann dag líklega af framkvæmdastjóra LH til breytinga.
“Hæ! Ég er í smá klípu með Hólamótið því samkvæmt nýjum reglum LH þarf að skrá hlaupagæslumenn með dómararéttindi ( íþrótta,gæðinga eða kynbóta) í básaskeið – Mig vantar fjóra dómara á blað ( þar sem að við notuðum bara vana menn í þetta eins og hefur verið).. Er einhver möguleiki að fá að setja þitt nafn á blað sem hlaupagæslumaður í þessum tveimur greinum? “
Það sem er merkilegt þarna, fyrir utan skjalafalsið, eru réttindin sem að viðkomandi telur upp sem að LH krefjist að sé á skýrslunni þ.e.a.s. hún þarf dómara svo að mótið geti talist löglegt. En bíðum nú við, tókst ekki að fylla skýrsluna af fólki með réttindi? 7.júní þá standa réttindalausir aðilar við hlaupagæslu á skýrslu frá Hólum og stjórn samþykkir allt saman. Hvar kom þessi reglubreyting fram og hvar var hún búin til á þessum sex dögum sem að líða? Hvar hvarf krafan um dómaramenntun hlaupagæslumanna? Það skal tekið skýrt fram að sá dómari sem að viðkomandi biðlar til kemur ekki fram í skýrslunni á Hólum.
Hvar liggja ósannindin?
Liggja þau í mínum athugasemdum og er ekkert athugavert við vinnubrögð forystunnar og starfsfólk skrifstofu?
Ég get allavega fullyrt það að ég hef ekki misst svefn út af erfiðum málum í vinnu eins og starfsmaður skrifstofu hefur sagt frá í pistli sinum á fb.síðu sinni, af hverju gerist það þegar að allt starf er svo faglegt og vel unnið ? Nú held ég að hver og einn félagsmaður LH geti myndað sér skoðun á þessum málum, fólkið inná skrifstofu er ráðið til vinnu og fær greitt fyrir það laun og við eigum að geta treyst því að rétt sé staðið að málum í þágu fjöldans.
Formaður LH er orðið launað starf í einhverju hlutfalli á verktakasamningi við LH. Allavega er orðið erfitt fyrir fólk að tala um sjálfboðaliðastarf og einhver yfirsjón hafi orðið, en ekki ég veit hvort að sjóðum sambandsins sé vel varið þarna innandyra í launagreiðslur fyrir slík vinnubrögð.
Ég bíð spenntur eftir knapafundi LH 12.febrúar þar sem að sviðsstjóri afreks og mótamála og formaður keppnisnefndar
LH verða stjörnurnar og ætla að túlka keppnisreglur ofan í óbreyttan lýðinn.
Slagorðið á merki LH ætti kannski að vera
Ég á þetta og ég má þetta!
Aðsend grein en höfundur er Jón Þorberg Steindórsson, dómari og fyrrum fulltrúi í keppnisnefnd LH.