„Dómurum mun ekki líða vel með að geta ekki gefið 9,0 fyrir tölt“

  • 28. maí 2020
  • Fréttir

Möttull frá Túnsbergi og Tryggvi Björnsson mynd: Mette Lund Lindberg

Kynbótasýning fór fram á Margreterhof í Svíþjóð í þessari viku en henni lauk með yfirlitssýningu í gær. Alls voru 64 hross sýnd í kynbótadómi og þar af 47 í fullnaðardómi. Af þeim knöpum sem voru með hross í dómi sýndi Tryggvi Björnsson flest eða alls 14 og 13 þeirra í fullnaðardómi. Meðalaldur þeirra hrossa sem Tryggvi sýndi eru 6,07 ár.

Hann sýndi fjögur efstu hrossinn á sýningunni en sá hæst dæmdi var stóðhesturinn Möttull frá Túnsbergi sem er 9 vetra gamall undan Mjölni frá Hlemmiskeiði 3 og Særós frá Túnsbergi. Hlaut hann fyrir sköpulag 8,57, fyrir hæfileika 8,52 og í aðaleinkunn 8,54. Svo má einnig einnig nefna fjögurra vetra gamlan hest, Óskar frá Flekkudal, sem hlaut 1.verðlaun og sex vetra gamlan hest Svan frá Kringeland sem hlaut í aðaleinkunn 8,53.

„Þetta gekk nú bara vel, verð ég að segja, það voru fjöldatakmarkanir þannig að þetta var að mestu knapar, aðstoðarmenn og starfsfólk sem var á staðnum þannig að það vantaði aðeins upp á stemninguna en það er mjög gott að koma á Margreterhof og sýna hesta og þar er vel tekið á móti öllum.“ Segir Tryggvi þegar hann er spurður að því hvernig andrúmsloftið hafi verið.

En hvernig upplifði Tryggvi breytingar í kynbótadómum sem knapi?

„Varðandi þessar breytingar á kynbótadómum að þá sýndi ég hestana bara á sama hátt og ég hef gert undanfarin ár að undanskildu því að maður þarf að losa um taum til þess að hljóta 9,0 fyrir tölt. Ég er ekki hrifinn af þeirri breytingu og finnst að dómaranir eigi að geta séð hvort hestar séu sjálfberandi án þess að þetta atriði komi til. Ég er ekkert endilega viss um að dómurunum sjálfum líði svo vel með þetta þegar þeir þurfa að skilja hesta eftir með 8,5 fyrir tölt sem sannarlega eiga 9,0 skilið og trúi því að það verði bakkað með þessa breytingu á endanum. Þá held ég einnig að það ætti að vera sama krafa á fimm vetra gömlu hrossin og þau fjögurra vetra hvað hægt tölt varðar og að það mætti muna heilum á milli hæga töltsins og einkunnar fyrir tölt. Mörg hross sérstaklega í evrópu eru lítið eða ekkert tamin á fjórða vetri og því ekki kominn langt í þjálfunarferlinu þegar þau mæta fimm vetra. En þetta á eftir að þróast eitthvað og slípa af þessu hornin. Ég er hins vegar sammála ýmsu eins og auknu vægi á bak og lend og því að gefa þeim hestum hátt sem búa yfir burðarmiklu og framháu baki og mér fannst byggingardómarnir á Margreterhof vera réttir.“

Eins og Eiðfaxi fjallaði um í vetur að þá er Tryggvi nú á heimleið. Hann ásamt fjölskyldu sinni ætlar að koma sér fyrir á Akureyri og mun Tryggvi verða með starfsemi á Björgum í Hörgárdal. „Ég reikna ekki með því að sýna fleiri hross í ár hér erlendis, en maður veit þó aldrei. Ég stefni að því að vera kominn heim til Íslands 29.júni og stefni að því að sýna hross á Íslandi á miðsumars- og síðsumarssýningum.

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar