,,Ég var einstaklega heppin með samstarfsfólk“

  • 4. nóvember 2020
  • Fréttir

Ingibjörg ásamt þeim Jakobi Svavari og Áslaugu Örnu að loknu fyrsta keppniskvöldi ársins 2020

Ný stjórn Meistaradeildarinnar var skipuð nú í haust. Ingibjörg Guðmundsdóttir sem verið hafði formaður síðastliðin þrjú keppnistímabil við góðan orðstír hætti sem formaður og Sigurbjörn Eiríksson tók við. Við þessi tímamót ákvað blaðamaður Eiðfaxa að hafa samband við Ingibjörgu og spyrja hana út í starfið í Meistaradeildinni síðustu þrjú árin.

,,Ég var formaður í 3 tímabil en upphaflega ætlaði ég inn sem stjórnarmaður en rétt fyrir aukaaðalfundinn sem haldinn var á hótel Örk í janúar 2018 þá bað þáverandi formaður deildarinnar lausnar og ég beðin um að taka mér formennskuna sem var ekkert á dagskránni í upphafi, enda nóg á minni könnu á þeim tíma.  Ég sé ekki eftir því enda mjög skemmtilegur tími að baki með frábæru fólki.“ Segir Ingibjörg og hedur áfram. ,,Ég ákvað að stíga núna til hliðar en mér finnst í raun 3 ár alveg nægur tími fyrir stjórnarformennsku í deild sem þessari sem krefst mikils vinnuframlags.  Ég trúi einnig að endurnýjun þurfi að eiga sér stað í félagastjórnum svo uppskeran sé alltaf sú besta á hverjum tíma. Ef menn staldra við of lengi er hætta á að eldmóðurinn minnki og hagsmunapólitíkin fari að krauma.“

Að sjálfsögðu starfaði Ingibjörg ekki ein í þessi þrjú ár heldur kom mikið af góðu fólki við sögu í stjórn. ,,Ég var einstaklega heppin með stjórnarmenn á þessum þremur árum og er þeim mikið þakklát fyrir framlag þeirra í þágu deildarinnar.  Stjórnarmenn á tímabilinu voru Logi Laxdal, Örvar Kærnested, Ólafur Árnason, Þorvarður Friðbjörnsson, Hrefna Karlsdóttir, Helga Gísladóttir, Hulda Finnsdóttir, Sigríður Pjetursdóttir, Karl Áki Sigurðarson, Guðmundur Björgvinsson og Sigurður Sigurðarson.“ Segir Ingibjörg sem greinilega var stolt af þessu samstarfsfólki sínu.

Hátt í þrjátíu þúsund manns horfðu á skeiðgreinar

En af hverju er Ingibjörg stoltust frá þessum tíma? „Það eru nokkur aðtriði sem ég er ánægð með þegar ég horfi til baka. Fyrst og fremst er ég stoltust af öllu því frábæra fólki sem lagði fram vinnu og þekkingu til deildarinnar þessi 3 ár. Listinn er mjög langur og of langur að telja upp hér en ég áætla að um 30 manns unnu að deildinni á hverju kvöldi í að skapa stemninguna og töfrana.Samningurinn við RÚV 2018 var mikil lyftistöng fyrir deildina og hestaíþróttina.  Allir landsmenn gátu horft á RÚV og RÚV2 og notið fremstu knapa og hesta í beinum útsendingum með sérfræðingum sem lýsa því sem fram fer. 

Við vorum mjög glöð í ár þegar áhorfið fór fram úr björtustu vonum. Er gaman að segja frá því að áhorfið á skeiðgreinarnar á RÚV mældist um 24.000 manns að ónefndum áhorfendum á svæðinu og á erlenda streyminu sem telur á  þúsundum. Rekstur deildarinnar tók mikinn viðsnúning á þessum þremur árum eins og krafan var. Með samstíga átaki þriggja síðustu stjórna var sett markmið að koma skútunni á réttan kjöl aftur sem tókst, og hefur deildin aldrei staðið betur.   Það er góð tilfinning að skila góðu búi til nýrrar stjórnar og með góða samninga fyrir næsta tímabil, 2021, meðal annars við RÚV og Lífland.“

Það verður að teljast magnað að svo margir hafi fylgst með skeiðgreinum í Meistaradeildinni en keppni sem slík er að vísu auðskilin fyrir hinn almenna áhorfenda, snýst eingöngu um hver er fljótastur fyrirfram ákveðnar vegalengdir á skeiði.

 Gaman að heyra ánægjuraddir

Það getur ekki verið að þetta hafi  alltaf verið dans á rósum, var eitthvað sem kom þér á óvart í starfinu? ,,Nei, í raun ekkert á óvart en það sem vakti ánægju hjá mér hversu mikill áhugi og væntumþykja er fyrir að deildinni.  Það má segja að fátt hafi borið hróður hestaíþróttarinnar jafnvel en Meistaradeildin. Í deildinni eru flestir fremstu hestaíþróttamenn landsins og keppa þeir á sínum bestu gæðingum sem minna vel á hestaíþróttina hjá almenningi í landinu. 

Það er gaman að heyra ánægjuraddir frá áhorfendum um allt land og að það sé áhugi hjá öðru íþróttafólki í öðrum íþróttagreinum. Sérstaklega hafði ég mjög gaman að því þegar einn af okkar fremstu íþróttamönnum sagði, “eitt er að koma sér í frábært líkamlegt form og hafa kollinn rétt stilltann, en það að vera með málleysingja með í för geri verkefnið enn flóknara og kröfuharðara.”

Það að vera í forsvari fyrir keppnisdeild sem þessa fylgja áskoranir hverjar voru þær helstu að mati Ingibjargar? ,,Helstu áskoranir voru strax í upphafi mjög skýrar frá liðseigendum og knöpum, – það var að koma rekstrinum í gott stand og að auka áhorfið á deildina í sal.

Fyrsta árið fór í að komast inn í reksturinn og auka áhugann á deildinni. Farið var strax í nýjungar m.a. með villiketti og uppboðssæti, lagt mikið í auglýsingar og samfélagsmiðla.  Áhorfið í sal tók við sér og var hátt í 700 manns að meðaltali í höllunum þann veturinn. Til samanburðar var meðalfjöldi áhorfenda sama ár 2018 á Íslandsmót karla í knattspyrnu um 860 manns. 

Við áætlum að amk 15.000 manns horfi á deildina að meðaltali í bæði sal og sjónvarpi. Við tókum þá ákvörðun 2019 vegna beinna sjónvarpsútsendinga innan lands og erlendis, að mótum yrði ekki frestað vegna veðurs nema þá í útiskeiðgreinum. Vissulega gæti það haft áhrif á áhorf í sal og reyndi það mest á nú í ár, 2020. Þrátt fyrir leiðinda veður náðist að halda nokkuð í fyrra meðaltal í áhorfendafjölda í sal nema í gæðingafiminni en hún stingur sig mest úr varðandi áhorfendafjölda í sal. Flestir kjósa að vera frekar heima í stofu og hlusta á sérfræðingana samhliða áhorfi.“

 

Hvernig sérð þú MD þróast til framtíðar?

,,Ég hvet framtíðar stjórnendur deildarinnar að vera lausnamiðuð og opin fyrir nýjungum.  Á þessum 3 árum hafa komið mjög margar góðar hugmyndir frá áhorfendum og knöpum, t.d. byrjuðum við með svokallaðan villikött og uppboðssæti sem hefur tekist mjög vel.“

,,Það heppnaðist mjög vel að halda lokamót deildarinnar utandyra, en lokamótið í ár var haldð um miðjan júni samhliða Íslandsmóti barna og unglinga á Brávöllum.  Það má segja að allir aðilar hafi verið ánægðir með þá samvinnu og  vel tekist til.  Aðstæður voru til fyrirmyndar hjá Sleipnisfélögum og Meistaradeildin ánægjuleg afþreying fyrir mótsgesti á laugardagskvöldinu.“

Einhver ráð til nýrrar stjórnar og formanns?

,,Já, þau eru fylgja alltaf eigin sannfæringu, halda vel tempói við undirbúninginn, sérstaklega fyrir áramót því janúar er fljótur að líða, og að lokum, brosa og njóta mótaraðarinnar þegar hún fer af stað.“

Hvað tekur nú við hjá Ingibjörgu?

,,Það er stór og góð spurning, ég er pínu á krossgötum hvað ég eigi að gera við þann lausa tíma sem er framundan en það liggur í augum uppi að lítið verður að gera hjá mér í ferðaþjónustunni næsta árið jafnvel 2 árin.  Ég man þó ekki eftir því að hafa setið aðgerðalaus lengi. Það er alltaf eitthvað sem dettur inn á borð hjá mér en mikilvægt er að mér þyki verkefnin skemmtileg og að gott fólk sé í kringum mig. „

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<