“Ég verð að minnsta kosti í brekkunni með sólarvörnina”

  • 31. maí 2022
  • Fréttir
Viðtal við Elvar Þormarsson

Eiðfaxi kíkti í heimsókn til Elvars Þormars en við hittum hann í tiltölulega nýju hesthúsi við Hvolsvöll sem hann reisti árið 2020. Húsið getur tekið 40 hross og er þar 12x12m. inniaðstaða. “Það var mjög gott að vera kominn í þetta hús í vetur og hafa þennan fóðurgang og þessa inniaðstöðu,” segir Elvar en vegna veðurs í vetur var mikið um inni vinnu. “Það er nú samt svo ótrúlegt með mann að miðað við hvað það var vont veður í vetur að þá þarf ekki annað en nokkra góða daga og maður fer að tala um hvað veðrið sé búið að vera frábært,” bætir hann við. Elvar og fjölskylda rækta hross kennd við Strandarhjáleigu og hafa þau selt mikið af hrossum út m.a. Ísöld og Byr frá Strandarhjáleigu sem eru í fremstu röð á keppnisbrautinni í Þýskalandi undir stjórn Lisu Drath. “Við erum að fá svona 8-10 folöld á ári en stundum fer þetta alveg upp í 12 – 13. Við höfum verið lánsöm að rækta góða hesta og þessi ræktun okkar hefur gert okkur kleift að byggja upp aðstöðuna sem við erum í núna. Ræktunin hefur byggst mikið upp á alhliða hrossum en ósjálfrátt hef ég notað þá meira. Fyrst og fremst erum við að leita eftir góðum hesti fyrir fjölskylduna enda erum við stór fjölskylda og það erum við sem eru að fara nota þessa hesta. Það er frábært fyrir okkur að eignast frábæra reiðhesta og hitt allt er bara plús; fótaburðurinn og flottheitin,” segir Elvar inntur eftir ræktuninni.

Elvar er liðsmaður liðs Hjarðartúns sem endaði í þriðja sæti í Meistaradeildinni í vetur en hvernig fannst Elvari deildin í vetur? “Deildin var erfið veðurfarslega séð og ég held að það þurfi að vera meira með hagsmuni hestsins til hliðsjónar í tengslum við það. Ég var kannski ekki að keppa sjálfur í þessum verstu veðrum en þegar fólk er að hita upp hesta sína úti í aðstæðum sem því myndi ekki detta í hug að vera ríða út í, verandi á besta hestinum sínum kannski og á leiðinni í beina útsendingu. Þetta má ekki vera svona, þetta getur jafnvel verið hættulegt, hitandi upp á ískrapi. Hesturinn á alltaf að njóta vafans,” svarar Elvar.

Nú eru kynbótasýningar hafnar og Elvar hefur nú þegar sýnt nokkur hross út í Noregi og stefnir á að sýna hér heima líka. “Ég stefni á að sýna slatta af hrossum í sumar sem mun dreifast yfir sumarið en þetta verða líklega 10 -12 hross á vorsýningum,” segir Elvar sem býst við að sýna sem mest á Hellu. Elvar stefnir með einhver hross í úrtöku fyrir Landsmót og nefnir þau Pensil frá Hvolsvelli og Framtíð frá Forsæti II. “Pensill er búinn að vera hjá mér í 2 mánuði en Ásmundur Þór Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir, eigendur hans, þjálfuðu hann í vetur og stefnum við á b flokkinn. Síðan er ég með unga hryssu frá Úlfari Albertssyni, Framtíð, Ómsdóttir og undan Hátíð frá Forsæti II en Hátíð var þriðja í b flokknum á Landsmótinu 2018. Framtíð er alhliða hryssa en ég stefni á að kynna okkur eitthvað í gæðingakeppninni,” segir Elvar. Elvar er ríkjandi Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á hryssunni Fjalladís frá Fornusöndum og útilokar ekki að mæta með Fjalladís í gæðingaskeiðið á Landsmótinu. “Ég er samt mikill gæðingakeppnismaður og er aðeins hræddur við þróunina þ.e.a.s. afhverju það er ekki keppt meira í gæðingakeppni þegar það er ekki Landsmótsár. Íþróttakeppnin er nú að koma inn á Landsmót og ég vona svo innilega að gæðingakeppnin komi þá líka inna á Íslandsmót. Við megum ekki tapa gæðingakeppninni. Hún er á uppleið erlendis en maður sér það í aukinni þátttöku þar. Við verðum að standa saman og vernda greinina. Það er mjög alvarlegt mál að missa út gæðingakeppnina en þá missum við út, sem dæmi, keppnisgreinina fyrir alvöru alhliða hesta, við missum út A flokkinn,” segir Elvar sem greinilegt er mikið í mun að efla gæðingakeppnina á Íslandi. “Með íþróttakeppnis hestinn er alltaf þessi rúsína í pylsuendanum á hverju ári, Íslandsmót, við verðum að gera það sama fyrir gæðingakeppnina.Við verðum að halda í gæðingakeppnina. Við bara verðum!,” bætir hann við. Elvar eins og fleiri hestamenn lítur björtum augum fram á sumarið. “Þetta verður ótrúlega skemmtilegt sumar. Öllum hlakkar til að fara á Landsmót, við fáum alveg svaðalega gott veður á Hellu. Dóttir mín er á fyrsta ári í unglingaflokki og var svo heppin að Elín Árnadóttir sem er að vinna hjá okkur bauð henni Blæ frá Prestsbakka svo hún stefnir með hann í úrtöku. Synir mínir stefna ekkert á keppni en sá eldri er nú bara í barnauppeldinu, en ég varð afi nú í byrjun árs, og sá yngri hefur meiri áhuga á hestaferðum. Ég veit ekki hvað ég verð með mikið af hrossum á mótinu en ég verð þá alla veganna í brekkunni með sólarvörn að horfa á góða hesta. Það verður bara geggjað, sama hvernig.” segir Elvar Þormarsson að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar