Eygló frá Þúfum hæsta 4 vetra hryssa ársins með 8,53

  • 23. júlí 2020
  • Fréttir

Eygló frá Þúfum mynd: Árni Hrólfsson/Árfilm

Í dag lauk dómum með yfirliti á miðsumarsýningu á Hólum í Hjaltadal. Til dóms komu 81 hross og bar þar hæst að hryssan Eygló frá Þúfum tyllti sér á toppinn yfir hæst dæmdu fjögurra vetra hryssur landsins þetta árið. Eygló, sem er undan Eld frá Torfunesi og Happadísi frá Stangarholti, hlaut fyrir sköpulag 8,63, fyrir hæfileika 8,47 og samtals 8,53, sem jafnframt var hæsta aðaleinkunn sýningarinnar. Afskaplega jafnvíg og falleg hryssa þar á ferð sem hlaut meðal annars 9,5 fyrir samstarfsvilja og það í sínum fyrsta dómi. Ræktandi, eigandi og knapi Eyglóar er Mette Mannseth.

Af öðrum álitlegum hrossum sem komu fram má nefna Sjóðsdótturina Dúfu frá Bergsstöðum. Dúfa, sem sýnd var af Bjarna Jónassyni, hlaut hæstu hæfileikaeinkunn á sýningunni 8,60 og í aðaleinkunn 8,47.

Af öðrum frábærum hrossum sem mættu til dóms á Hellu er vert að minnast á Kömmu frá Sauðárkróki sem hlaut í aðaleinkunn 8,45 fyrir hæfileika 8,32 fyrir sköpulag og í aðaleinkunn 8,41 þar sem hæst ber einkunnin 9,5 fyrir brokk. Kamma er nú fjórða hæst dæmda fimm vetra gramla hryssa ársins. Ræktandi er Sauðárkrókshestar ehf en eigendur eru Svala Guðmundsdóttir og Guðmundur Ólafsson. Knapi var Þórarinn Eymundsson.

Á morgun, föstudag, lýkur dómum á miðsumarsýningu á Gaddstaðaflötum við Hellu með yfirliti og í næstu viku hefst svo þriðja vika miðsumarsýninga þar.

Hrossaræktarbúið á Þúfum, þar sem þau Gísli Gíslason og Mette Mannseth ráða ríkjum, hefur náð glæsilegum árangri á kynbótabrautinni nú í ár.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar