Flott tilþrif í fimmgangskeppni Blue Lagoon mótaraðarinnar

Verðlaunahafar í unglingaflokki F2. Ljósmynd: Gunnhildur Ýrr
Í gærkvöldi fór fram fimmgangskeppni í Blue Lagoon mótaröðinni í Samskipahöllinni í Spretti. Líkt og á síðasta móti var þátttaka góð og greinilegt að mótaröð sem þessi er mikilvæg fyrir yngri iðkendur íþróttarinnar til að öðlast reynslu og fá einkunnir fyrir sig og hesta sína. Mótið var sýnt í beinni útsendingu á EiðfaxaTV.
Næsta keppniskvöld í mótaröðinni fer fram þann 27. mars þar sem keppt verður í gæðingakeppnisgreinum og slaktaumatölti.
Í keppni gærkvöldsins var keppt í tveimur fimmgangsgreinum í barna- og unglingaflokki í F3 í og barna-, unglinga- og ungmennaflokki í F2. Munurinn á þessum keppnisgreinum er sá að í F2 hefur bæði tölt og skeið tvöfalt vægi en í F3 hefur skeið eingöngu tvöfalt vægi.
Hjördís Antonía og Sigríður Fjóla sigurvegarar í F3
Í barnaflokki (F3) var það hún Hjördís Antonía Andradóttir á Auðnu frá Húsafelli 2 sem stóð uppi sem sigurvegari að loknum A-úrslitum með 5.31 í einkunn. Magnaður sigur þá sér í lagi í ljós þess að hún var í neðsta sæti eftir keppni. Í unglingaflokki (F3) vann Sigríður Fjóla Aradóttir á Kolfreyju frá Hvítárholti með 5.31 í einkunn að loknum úrslitum.
Gabríela Máney, Jóhanna Sigurlilja og Sara Dís sigurvegarar í F2
sigurvegari í barnaflokki í F2 var Gabríela Máney Gunnarsdóttir á Bjarti frá Hlemmiskeiði 3 með 5.86 í einkunn. Í sömu grein í unglingaflokki vann Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir með þó nokkrum yfirburðum í úrslitum með einkunnina 6,81 á Gusti frá Efri-Þverá. Í flokki ungmenna var það svo hún Sara Dís Snorradóttir og Taktur frá Hrísdal sem nældu sér í efsta sætið með 6.71 í einkunn í úrslitunum.
Allar niðurstöður mótsins eru aðgengilegar í HorseDay appinu.

Úrslitaknapar í ungmennaflokki. Ljósmynd: Gunnhildur Ýrr