Landsamband hestamanna Helga Björg og Maggi Ben hlutu gullmerki LH

  • 20. nóvember 2023
  • Fréttir
Á laugardaginn fór fram formannafundur hestamannafélaganna í Laugardalshöll.

Þar voru rædd ýmis málefni tengd starfsemi hestamannafélaganna. Skýrsla stjórnar var lögð fram og ársreikningur 2022.

Æskulýðsbikar LH var einnig afhentur og fór hann að þessu sinni til hestamannafélagsins Jökuls.

Magnús Benediktsson og Helga Björg Helgadóttir hlutu gullmerki LH en bæði hafa þau unnið ötulega fyrir hestamenn í landinu.

Í tilkynningu frá Landssambandinu kemur fram:

„Magnús Benediktsson er öllum hestamönnum kunnugur. Ekki nóg með að hann sé þrefaldur landsmótssigurvegari í stökki þá er hann einnig mikið félagsmálatröll og frumkvöðull. Magnús Benediktsson eða Maggi Ben eins og hann er yfirleitt kallaður hefur setið í ýmsum stjórnum tengdum hestamennsku og staðið fyrir mörgum stórum viðburðum. Maggi hefur meðal annars setið í stjórn íþróttadeildar Geysis, hestamannafélagsins Sindra, stjórn meistaradeildarinnar, varastjórn LH landsliðsnefnd LH og stjórn Rangárbakka þar sem hann gegnir stöðu varaformanns.

Eins og áður var sagt frá þá hefur Maggi er mikill frumkvöðull og staðið fyrir ófáum flottum viðburðum sem hafa náð að festa sig í sessi hjá okkur hestamönnum.

Maggi stóð fyrir fyrstu stóðhestaveislunni árið 2009 og hefur viðburðurinn verið haldin árlega síðan. Hann gaf út fyrstu stóðhestabókina, biblíu hvers hestamanns og stendur enn þétt við bakið á því verkefni. Maggi hefur staðið fyrir góðgerðargólfmótum fyrir hestamenn, hann stofnaði áhugamannadeild Spretts og setti á laggirnar Blue Lagoon mótaröðina. 

 Á árunum 2014 – 2020 gegndi Magnús stöðu framkvæmdarstjóra hestamannafélagsins Spretts og frá 2020 hefur hann gegnt stöðu sem framkvæmdarstjóri Eiðfaxa. Hann hefur verið framkvæmdarstjóri á ýmsum mótum og getið gott orð af sér sem slíkur. Hann hefur verið framkvæmdarstjóri landsmóts, Íslandsmóts og tveggja fjórðungsmóta, nú síðast síðastliðið sumar á Egilsstöðum sem hann leysti vel af hendi eins og svo oft áður. 

Magnús hefur auk þess verið ötull í góðgerðamálum og hafa safnast háar fjárhæðir á viðburðum sem hann hefur staðið fyrir. Fjármunir þessir hafa runnið til ýmissa góðgerðasamtaka eins og styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, fræðslunefnd fatlaðra í Herði, Grensás, Einhverfusamtakana og ótal annarra samtaka.

 Það er heiður LH að veita Magnúsi Benediktssyni Gullmerki LH

Helgu þarf vart að kynna. Helga Björg hefur til fjölda ára unnið óeigingjarnt starf í þágu æskulýðsmála og verið óþreytandi að halda mikilvægi öflugs æskulýðsstarfs á lofti.

Helga hefur verið í ýmsum stjórnum og tekið virkan þátt í starfi Fáks. Hún var í kvennadeild Fáks og gegndi stöðu formanns um tíma. Hún var í æskulýðsdeild þar sem hún einnig gegndi stöðu formanns. Á árunum 1997-2000 var Helga framkvæmdastjóri Fáks og gjaldkeri Fáks frá 2006-2013. Hún hefur verið í stjórn meistaradeildar æskunar og verið í undirbúningsnefnd æskan og hesturinn. Þá hefur Helga einnig látið til sín taka í æskuliðsmálum í Feif. Helga sat í stjórn æskuliðsnefndar Feif frá 2007 – 2022 og kom þar að skipulagi á Youth Cup á Hólum 2014, Youth Camp á Hestheimum 2019 og Feif youth seminar í Eldhestum 2019 ásamt því að fara sem farastjóri íslensku þátttakendanna í flest skiptin. Helga hefur einnig verið virk innan starfsins hjá Landsambandi hestamanna frá 2005. Þar hefur hún setið mörg ár í æskulýðsnefnd ásamt því að sitja í varastjórn og stjórn.

Það er ljóst að Helga brennur fyrir því sem hún tekur sér fyrir hendur og þá sérstaklega æskulýðsmálum.

Það er heiður LH að veita Helgu B Helgadóttur Gullmerki LH.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar