Hin hliðin – Hulda G. Geirsdóttir

  • 27. ágúst 2020
  • Fréttir

Fullt nafn: Hulda Guðfinna Geirsdóttir Newman

Gælunafn: Eiginmaður bestu vinkonu minnar kallar mig Huldu fuckin´ Guff.  Önnur gælunöfn haldast innan fjölskyldunnar!

Starf: Dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og RÚV, alþjóðadómari í hestaíþróttum og sitthvað fleira.

Aldur: 51 (ekki segja neinum! Það halda örugglega allir að ég sé yngri!).

Stjörnumerki: Tilfinninganæmur og ljúfur krabbi – en mjög stutt í kraftmikið og skapstórt ljónið.

Hjúskaparstaða: Gift í 22 ár!

Uppáhalds drykkur: Þeir frændur Jack og Jim af Bourbon ætt. Og Fresca! En það fæst ekki lengur á Íslandi.

Uppáhalds matur: Reyktur lundi með smjöri og nýjum kartöflum og amerísk eðal nautasteik þegar ég kemst í svoleiðis.

Uppáhalds matsölustaður: Grillmarkaðurinn og hin ýmsu amerísku steikhús.

Hvernig bíl áttu: Dodge Ram 3500 Limited fyrir hrossin og Hyundai i20 í innanbæjarsnattið.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Game of Thrones, The Crown og Line of duty. Andri á flandri og Með okkar augun. Ýmsir fleiri í uppáhaldi líka.

Uppáhalds tónlistarmaður: Sko, að ætla að spyrja tónlistargrúskara að þessu er alveg vonlaust. Á svo ótal marga uppáhalds listamenn og hlusta á tónlist alla daga. En þeir félagar Dave Grohl (Foo Fighters) og Eddie Vedder (Pearl Jam) eru í sérstöku uppáhaldi, sem og Nina Person úr Cardigans. Hér heima Valdimar, Vök og Dimma t.d.

Fyndnasti Íslendingurinn: Ari Eldjárn er óborganlegur og eldheitur KISS aðdáandi eins og ég.

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Færri kaloríur!

Þín fyrirmynd: Mamma mín heitin kenndi mér svo ótal margt er lítur að lífsviðhorfi, heimspeki og mannúð. Hún kenndi mér að vera sjálfstæð og fara mínar eigin leiðir. Hún og fleiri úr fjölskyldunni eru mínar helstu fyrirmyndir í lífinu. En í hestamennskunni er það Einar Öder Magnússon sem var minn helsti lærimeistari og fyrirmynd.

Mest óþolandi keppandi sem þú hefur mætt: Haha… nefni enginn nöfn, en það pirrar mig þegar fólk keppir niður fyrir sig.
Í ræktinni er það hins vegar Þórdís Anna Gylfadóttir, sem er með svo svaðalegt keppnisskap að allar æfingar verða helmingi erfiðari. Það er svo sem fínt líka – hún dregur gömlu konuna áfram! J

Sætasti sigurinn: Sætustu sigrarnir í lífinu eru þegar manni tekst að yfirstíga hindranir, tækla hausinn á sjálfum sér og gera það sem manni vex í augum. Var líka helv… ánægð með að verða Verslómeistari í körfu þarna einhvern tíma á 9. áratugnum. Hvað hestamennskuna varðar þá er það sennilega þegar ég uppgötvaði keppnisvöllinn á unglingsárunum og vann á fyrsta mótinu sem ég tók þátt í. Firmakeppni í Mána 1980 og eitthvað. Aldrei náð að toppa þá tilfinningu aftur J

Mestu vonbrigðin:   Kannski ekki vonbrigði beint, en mér fannst óskaplega sárt að missa 1vl. Þristsdótturina mína Bryndísi frá Hofi I, þótti ofboðslega vænt um hana.

Uppáhalds lið í íslenska boltanum: Aðeins flókið sko… Keflavík af því það er mitt uppeldisfélag – Víkingur af því það er hverfisklúbburinn minn og dóttir mín spilar fyrir Víking – ÍBV af því Eyjamaðurinn í mér er sterkur og ég fór alltaf á Hásteinsvöll með afa þegar ég var krakki í Eyjum á sumrin.

Uppáhalds lið í enska boltanum: Arsenal! Gunner ‘til I die!

Ef þú fengir að eiga einn hest, lífs eða liðinn, hvern myndir þú velja og af hverju: Kveik frá Stangarlæk, ótrúlega heillandi hestur á svo margan hátt og myndi sennilega líka létta á skuldastöðu heimilisins!

Efnilegasti hestamaður/kona landsins: Sem betur fer er fjölmargt efnilegt hestafólk í landinu og ekki endilega allt inni á keppnisvellinum. Ég gleðst yfir því þegar ég sé knapa sem láta hestinn njóta vafans, sýna honum virðingu og umhyggju. Það er oft það vandasamasta þegar út í keppnina er komið og verðlaunin freista.

Fallegasti hestamaður/kona á Íslandi: Mikið til af fallegu hestafólki á Íslandi, bæði að innan og utan. En þeir fóstbræður Elvar Þormarsson og Ævar Örn Guðjónsson eru mestu dúllurnar.

Besti knapi frá upphafi: Einar Öder Magnússon.

Besti hestur sem þú hefur prófað:  Get ekki gert upp á milli Þrists frá Feti, Andvara frá Ey eða Þrennu frá Strandarhjáleigu.

Uppáhalds staður á Íslandi: Heimaey, alltaf, allan daginn. Fyllist hlýju og öryggi þegar ég kem þangað og felli alltaf tár þegar ég þarf að fara.

Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Stilli þrjár vekjaraklukkur og hugsa með sjálfri mér hvað ég sé að pæla að vinna í Morgunútvarpi!

Fyrir utan hestamennsku, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já, alveg helling. Fer mikið á fótboltaleiki (þegar það má) og fylgist líka með körfubolta og ýmsum öðrum greinum.

Í hverju varstu lélegastur/lélegust í skóla: Aldrei verið mikill aðdáandi stærðfræði og bókfærsla fannst mér alveg mökkleiðinleg.

Í hverju varstu bestur/best í skóla: Bókmenntum, sögu, tungumálum, skapandi skrifum, tónmennt og íþróttum.

Vandræðalegasta augnablik: Haha, börnin mín hafa aðgang að internetinu. Áhugasamir verða að hitta á mig í góðu geimi til að fá svona sögur!

Hvaða þrjá hestamenn tækir þú með þér á eyðieyju: Guðbrand Stíg Ágústsson, Magnús Benediktsson og Snorra Kristjánsson. Það kæmi eitthvað skapandi út úr því!

Sturluð staðreynd um sjálfa(n) þig: Ég bjó í Bandaríkjunum þegar ég var lítil. Þegar við fluttum heim talaði ég bara ensku og steinþagði fyrstu vikurnar á leikskólanum. Ef einhver böggaði mig beit ég hann bara. Eftir að hafa verið látin bíta í stórt sápustykki hætti ég því og fór að tala íslensku fljótlega í kjölfarið.
Já svo kúgast ég alltaf þegar ég bursta tennurnar á morgnana – en ekki á kvöldin! Og ég er líka í saumaklúbbi með fimm strákum.

Hvaða hestamaður hefur komið þér mest á óvart eftir að þú kynntist honum/henni og af hverju: Hallveig Fróðadóttir vinkona mín. Undir hæglátu yfirborðinu leyndist húmoristi og hörkutól.

Ef þú fengir eina spurningu til að spyrja hvern sem er, hver yrði spurningin og hvern myndirðu spyrja:  Úff, það koma ótal atriði upp í hugann. En ætli ég myndi ekki bara spyrja Lenny Kravitz: Are you gonna go my way?

Ég ætla að senda boltann norður og skora á stuð- og orkuboltann Andreu Margréti Þorvaldsdóttur, félagsmálatröll og hestaferðadrottningu með meiru!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar