Í minningu Sveins Gauks Jónssonar

  • 18. mars 2021
  • Fréttir

Sveinn Gaukur Jónsson hestamaður er látinn 65 ára að aldri. Gaukur, eins og hann var jafnan kallaður, er hestamönnum vel kunnur enda hafði hann komið að flestum ef ekki öllum hliðum hestamennskunnar. Hann var fæddur og uppalinn í Reykjavík en fór vorið 1969 austur á hérað þar sem hann var í sveit á Ketilsstöðum á Völlum, en þangað bar hann sterkar taugar.

Hann var menntaður blikksmiður og nýttist sú menntun honum vel enda einstaklega handlaginn og útsjónarsamur verkmaður. Hann var virkur í félagsstörfum fyrir sitt hestamannafélag, Sprett í Kópavogi, og var ávallt boðinn og búinn til hjálpar þegar á þurfti.

Hann var sterkur persónuleiki og ófeiminn við að vera hann sjálfur. Hreinskiptinn, ósérhlífinn og duglegur en á sama tíma einstaklega hjartahlýr og á allan hátt annt um náungann.
Þrátt fyrir yfirvegaða og heldur alvarlega framkomu var mjög stutt í gamansemina og var hann fljótur að sjá spaugilegu hliðar málanna þegar svo bar við.

Gaukur var kvæntur Pálínu Margréti Jónsdóttur (Grétu Boða) og saman eiga þau þrjú börn þau Boða, Bylgju og Hrönn en fyrir átti Gaukur einn son, Vilhjálm Björn. Hrossarækt þeirra er kennd við Garðabæ og úr þeirra ræktun hafa komið mörg nafntoguð hross og nægir því til stuðnings að nefna hinar glæsilegu klárhryssur Hnotu og Grýtu.

Hestamenn kveðja nú fallinn félaga sem var okkur öllum fyrirmynd með dugnað og ósérhlífni að leiðarljósi, hans verður sárt saknað.

Starfsmenn Eiðfaxa votta fjölskyldu Sveins Gauks Jónssonar, vinum og ættingjum sína innilegustu samúð. Blessuð sé minning Gauks.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni þann 31.mars klukkan 15:00. Erfidrykkja verður í Samskipahöllinni í Spretti, streymt verður frá útförinni en slóð á útsendinguna verður kunngjörð þegar nær dregur.

 

Gaukur á Grýtu frá Garðabæ. Mynd úr einkasafni

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<