Íslenski hesturinn á besta tíma á BBC news

  • 6. desember 2021
  • Fréttir

Hestar að fara yfir hópið í hestaferð með Islandshestum á myndinni er einnig hægt að sjá Hauk Suska Garðarsson, í Hvammi 2, í Vatnsdalnum, einn af eigendum Islandshesta. Mynd: Louisa Lilja

Viðtal við Þórð Frey Gestsson framkvæmdarstjóra Íslandshesta

Nú í haust komu hingað til lands fréttamenn á vegum BBC Travel meðal annars í þeim tilgangi að fræðast um og kynnast íslenska hestinum, hestaferðum og stóðréttum. Eitt af markmiðunum var einnig að auglýsa ferðir á íslenska hestinum sem eina af mest spennandi afþreygingu í boði á heimsvísu fyrir ferðamenn sumarið 2022. Þeir settu sig í samband við Þórð Frey Gestsson, framkvæmdastjóra Íslandshesta og fengu hann í lið með sér til að fanga nokkur augnablik með íslenska hestinum. Haldið var norður í land þar sem Haukur Súska Garðason einn af eigendum Íslandshesta býr og fer geysivinsælar hestaferðir úr Vatnsdal. Fréttamenn BBC slógust í för með Hauki og fóru með honum yfir Hópið auk þess að taka þátt í Laufskálarétt. Úr varð frábær umfjöllun sem birtist á besta tíma á BBC news og hefur fengið mikla athygli.

Þátturinn sem birtist á BBC news – Cold Cowboys. Produced, Directed and Filmed by Samuel Supple

Þórður Freyr segir að töluvert hafi verið um svona verkefni hjá Íslandshestum og mikill áhugi bæði hjá erlendum blaðamönnum og kvikmyndagerðafólki að komast í ferðir til að fjalla um íslenska hestinn. „Hesturinn hefur gríðarlegt aðdráttarafl og við höfum verið heppin að fá marga góða aðila sem hafa breitt út boðskapinn og koma því á framfæri við heimsbyggðina hversu einstakur Íslenski hesturinn er og íslensk náttúra en þetta saman er auðvitað ómótstæðilegt. Auk BBC fengum við til okkar í sumar Alyssu Mathews, sem heldur úti vinsælli YouTube rás sem kallast „Discover the Horse“ þar sem hún hefur einsett sér að prófa sem flest hestakyn. Við settum okkur í samband við hana og buðum henni að kynna sér íslenska hestinn í íslenskri náttúru og hún var ekki lengi að ákveða að koma með okkur í sex daga hestaferð. Þetta var allt tekið upp og úr varð einskonar heimildarmynd (eða ferðamynd) sem nú hefur unnið til verðlauna á kvikmyndahátið í Bandaríkjunum í flokknum International Travel Category in the 2021 Equus Film Festival, og var hún valin besta ferðamyndin. Frábær viðurkenning sem eykur enn á hróður íslenska hestsins.“ segir Þórður. Það sem kemur fram í mynd Alyssa er hversu einstakt henni fannst að geta farið svona ferð með íslenskum bónda sem ræktar og temur sína hesta sjálfur, verða hluti af fjölskyldunni og upplifa hestana í sínu náttúrulega umhverfi. „Þetta eru allt atriði sem við höfum lagt mikla áherslu á í okkar ferðum. Einnig fá gestir okkar að ríða með laust stóð en það er mjög mikilvægur þáttur í upplifuninni. Allt þetta og meira til gerir það eftirsóknarvert að koma í hestaferð til Íslands og flestir okkar viðskiptavina koma aftur og aftur,“ bætir Þórður við.

Myndin hennar Alyssu Mathews sem hlaut í kjölfarið verðlaun á kvikmyndahátíð sem besta International Travel Documentary Category

Aðspurður að því hvernig ferðirnar hafi gengið í því ástandi sem heimurinn er nú í vegna faraldursins segir Þórður Freyr þetta hafa verið erfiða tíma en ríkið hafi veitt mikilvægan stuðning. „Það hafa auðvitað verið erfiðir tímar undanfarið og snúið að láta hlutina ganga upp en sá stuðningur sem ríkið hefur veitt hefur verið gríðarlega mikilvægur. Það er þó líka mjög mikilvægt að halda þeim stuðningi áfram þar til við sjáum betur til lands. Við erum heppin með að okkar viðskiptavinir eru ákveðnir í að fara með okkur í ferðir ef mögulegt er. Því hafa þeir sem hafa getað, komið þrátt fyrir aðstæður sem leiddi til þess að júlí og ágúst voru ágætlega bókaðir og haustferðir almennt verið vel bókaðar. Það eru þó töluverðar sveiflur í þessu og allar neikvæðar fréttir af faraldrinum eru fljótar að hafa áhrif á bókanir,“ segir Þórður Freyr.

Þórður Freyr segir það því hafa verið kærkomið að fá að vinna að markaðsverkefnum og fá til þeirra áhugasama aðila eins og BBC. „Þetta fyllir mann eldmóði og minnir mann á hvað það er einstakt að fá að vinna með íslenska hestinum. Íslandshestar er hluti af mjög áhugaverðu verkefni sem verið er að koma á laggirnar, sem er þolreið á Íslandi. Aníta Margrét Aradóttir, sem fyrir nokkrum árum tók þátt í Mongólíu þolreiðinni, gríðarlega krefjandi keppni, hefur gengið með það í maganum síðan að koma á slíkri keppni á Íslandi. Nú í sumar, fyrir tilstillan Guðna Halldórssonar formanns  LH og undir forystu Anítu var fyrsta skrefið tekið í átt að því að halda slíka keppni. Haldin var tilraunakeppni þar sem Íslandshestar tóku þátt ásamt þremur öðrum liðum og tókst sú keppni mjög vel í alla staði. Því er verið að leggja drög að fyrstu alvöru þolreiðar keppni íslands næsta ár, sem ber nafnið Survive Iceland. Islandshestar hafa líka verið þátttakendur í markaðsverkefni á vegum Íslandsstofu sem ber heitið Horses of Iceland, sem Jelena Ohm hefur leitt af mikilli röggsemi, en það verkefni sameinar allar hliðar hestamennskunnar með það að markmiði að auka vegferð Íslenska hestsins,“ segir Þórður Freyr

„Það er gott til þess að vita að fljölmargir góðir aðilar eru að vinna á hverjum degi í því að kynna og koma á framfæri íslenska hestinum sem er svo frábær fulltrúi okkar Íslendinga. Íslenski hesturinn er bara svo magnaður, við höfum treyst á hann svo öldum skiptir og hann er alltaf traustsins verður“ segir Þórður Freyr að lokum um leið og hann „töltir‘‘ glaður út í daginn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar