„Kynbótadómur er mikið geðslagspróf“ viðtal við Erling Erlingsson

  • 27. maí 2020
  • Fréttir

Hrynjandi frá Horni hlaut 8,37 fyrir sköpulag

Erlingur Erlingsson er búsettur í Svíþjóð þar sem hann stundar tamningar, þjálfun og reiðkennslu á búgarðinum Segersgarden ásamt konu sinni Antoniu Hardwick. Hann hefur um áratugaskeið sýnt kynbótahross og samkvæmt Worldfeng eru þau rúmlega þúsund sem hann hefur sýnt í fullnaðardómi.

Hann sýndi alls 12 hross í kynbótadómi á sýningu í Romme sem fór fram um síðustu helgi. Hvernig var málum háttað á sýningunni vegna Covid-19? „Samgangur okkar knapa var ekki eins mikill og venjulega en það voru engar sérstakar ráðstafanir með grímur eða annað. Það var hins vegar mjög gott andrúmsloft á sýningunni og mikill vinnufriður vegna þess að engir áhorfendur fengu að vera á svæðinu.“  Segir Erlingur og hlær.

En hvernig hefur ástandið almennt verið þessa síðustu vikur og mánuði? „Ég sjálfur hef ekki verið mikið á ferðinni í kennslu eins og vanalega og í raun var lítil reiðkennsla en einstaka nemandi fékk að koma til okkar á búgarðinn í kennslu. Annars fórum við fljótt í það að selja nokkra hesta og tókum svo inn fleiri og riðum meira út en vanalega, annars vorum við bara heima að mestu. Ég verð því að viðurkenna að það var aðeins notalegt að koma á kynbótasýninguna í Romme.“

Á sýningunni í Romme sýndi Erlingur hæst dæmda hestinn en það var Hrynjandi frá Horni I. Hrynjandi er átta vetra gamall stóðhestur undan Hrímni frá Ósi og Flautu frá Horni I. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,37, fyrir hæfileika 8,35 og í aðaleinkunn 8,36. En hvernig lýsir Erlingur Hrynjanda? „Ég þekki hans forsögu lítið á Íslandi en hann kom hingað til okkar í vetur því eigandi hans er að vinna hér hjá mér. Þetta er að mínu mati mjög góður hestur sem á töluvert inni enn þá. Við höfum þjálfað hann í vetur með það að markmiði að styrkja yfirlínuna í honum og auka með því burð. Ég trúi því að þessi hestur eigi eftir að bæta sig töluvert á næstu árum því hann býr yfir mjög góðum gangtegundum og með auknum styrk nær hann að sýna sig enn þá betur.“

Erlingur sýndi einnig hæst dæmdu hryssuna en það er Líf från Lilla Sträckås sem er undan Tígul frá Kleiva og Ljósadís fran Musö. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,26, fyrir hæfileika 8,39 og í aðaleinkunn 8.35. þegar að hæfileikar án skeiðs eru skoðaðir hlaut hún í einkunn 9,01 og er því fyrsta hrossið sem hlýtur 9,0 eða hærra fyrir hæfileika án skeiðs. „Líf er mikil fótaburðarhryssa með frábært geðslag lúxus vandamálið er að passa að hún lyfti ekki of mikið og missi þá burð og slitni í sundur. Það hefur tekið töluverðan tíma fyrir hana að ná fullum styrk og geta höndlað þær hreyfingar sem hún býr yfir. Ég tel reyndar að ef sýningin hefði heppnast alveg sem skildi þá hefði ég hæglega getað riðið í 9,5 fyrir tölt.“

 En hvernig lýst Erlingi á þær breytingar sem orðið hafa í kynbótadómum nú þegar hann hefur kynnst þeim á sýningunni í Romme? „Maður ríður í sjálfu sér ekkert öðruvísi en maður gerði áður, nema að því leyti að maður þarf að losa um taum á tölti til þess að hljóta 9 eða hærra. Ég er ekkert alveg sannfærður um að það sé eitthvað sem hjálpi okkur svo mikið. Þetta er svo sem ekki mikið mál á stórkostlegum gæðinum en þetta er ef til vill ekki sanngjarnt fyrir yngri hrossin sem þurfa oft á tíðum á öllum stuðningi knapa að halda í nýjum aðstæðum. Ég persónulega myndi lesa leikinn öðruvísi og snúa þessu upp í það að meta það hversu fallega hesturinn er við taum og hvernig hann skilar sér fram á milli ábendinga knapans. Svo held ég að kerfið eins og það var hafi verið mikið geðslagspróf fyrir hrossin og að mörgu leyti vanmetið. Það er erfitt að ríða hrossum upp og niður á beinni braut og þau þurfa að vera fús, þjál og viljug svo það takist vel. Það er t.d. mun meira próf í mínum huga fyrir hestinn að ríða á beinni braut en inn á hringvelli þar sem maður nær alltaf að halda þeim í floti, ef svo má segja. Svo er einnig mikið geðslagspróf að koma með yngri hrossin á nýja staði til sýninga í Romme er t.d. hraðbraut ekki ýkja langt frá endanum á brautinni þar sem bílar taka fram úr hvorum öðrum á fullri ferð og flauta jafnvel. Tíminn á eftir að leiða í ljós hverju þessar breytingar skila en ég tel að góðir hlutir hafi verið að gerast undanfarinn ár við mat á gangtegundum og geðslagi. Þá er ég svo gamaldags að ég er lítið að spá í aðaleinkunn eða aðaleinkunn án skeiðs, ég horfi miklu frekar í hvern eiginleika fyrir sig og hvað það er sem er úrval í hestinum og hvað þarf að bæta.“

„Þá vil ég nefna mér finnst skeiðið vera á undanhaldi og við þurfum að passa okkur á því. Við erum svo mikið að einblína á fótaburð og rými á tölti og brokki að það bitnar orðið á skeiðinu. Við verðum því að halda í íslenska gæðinginn en ekki standa uppi með fjóra og hálfgangara eins og við köllum það.“ Segir Erlingur og er greinilega annt um hinn íslenska gæðing. En er hann ekkert á heimleið til Íslands? „Nei ég er ekki á leiðinni heim til Íslands, mér líður vel hérna í Svíþjóð við eigum ofsalega fallega jörð hér í litlum dal sem er paradís á jörðu. Það búa hérna til viðbótar við okkur nokkur gömul hjón og hér er mikil kyrrð og frábærar útreiðaleiðir“.

Eiðfaxi þakkar Erlingi fyrir að gefa sér tíma í spjall en undirbúningur er í fullum gangi hjá honum fyrir þær kynbótasýningar sem framundan eru í sumar.

Líf og Erlingur mynd: Mirjam Horn

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar