Mesta kuldakast í 7 ár – hugum að útigangi

  • 2. desember 2020
  • Fréttir

Næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast sem geisað hefur á suðvesturhorni landsins síðan árið 2013 en spáð er allt að 18 stiga frosti um helgina inn til landsins.
Þá mun verða hvasst um allt land í kvöld og á morgun. Við hjá Eiðfaxa hvetjum því fólk til að huga vel að útigangi.

í athugunum veðurfræðings segir m.a.

Á morgun er ekkert nema norðan stormur í kortunum og enn hvassara í vindstrengjum sunnan undir fjöllum og þá einkum á suðaustanverðu landinu. Það verður snjókoma eða él norðan- og austanlands. Áfram líkur á dálitlum éljum sunnantil á landinu. Það herðir á frostinu þegar ískalt heimskautaloft streymir yfir okkur úr norðri.

Í dag, á morgun og fram á föstudag er semsagt útlit fyrir fyrsta alvöru norðanáhlaup vetrarins. Á Norður- og Austurlandi verður vindstyrkur og snjókomumagn væntanlega nægilegt til að tala megi um stórhríð, að minnsta kosti á einhverjum köflum í tíma.

Við minnum á grein frá MAST er fjallar um velferð hrossa á útigangi og má nálgast með því að smella hér.

Leiðbeiningar um útigang hrossa og undirbúning fyrir stórviðri vetrarins:

  • Flokka hross eftir fóðurþörfum tímanlega að hausti og tryggja öllum hópum hentuga beit og/eða fóðrun. Mikilvægt að útgangshross séu í ríflegum reiðhestholdum (3,5) að hausti og vetrarfóðrun skal taka mið af holdafari.
  • Halda útigangshross á rúmgóðu beitilandi með breytilegu landslagi og/eða manngerðu skjóli.
  • Ormahreinsa viðkvæma hópa eða alla hjörðina eftir aðstæðum og í samráði við dýralækni.
  • Draga úr slysahættum.
  • Auka eftirlit með útigangshrossum í aðdraganda óveðurs og á eftir.
  • Huga sérstaklega að einstaklingum sem standa höllum fæti í aðdraganda óveðurs. Þetta á sérstaklega við um eldri hross sem farin eru að ganga á vöðva og/eða hafa þróað með sér efnaskiptasjúkdóma.
  • Gefa hrossum, sem þá þegar eru komin á gjöf, með góðum fyrirvara fyrir yfirvofandi stórviðri. Gefa á opnu svæði. Meta þörfina/áhættuna fyrir aðra hópa eftir aðstæðum.
  • Vitja hrossa strax og færi gefst eftir óveður, fóðra og vatna eftir þörfum.
  • Leita til dýralækna vegna veikra hrossa og laskaðra.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar