Ómur leggur land undir fót

  • 14. september 2021
  • Fréttir

Ómur frá Kvistum er á leið úr landi þann 20.september. Heimildir Eiðfaxa herma að hann sé á leið til Þýskalands, til eiganda síns Gunther Weber. Hann er því ekki að skipta um eiganda en Gunther er eigandi Kvista. Það eiga eflaust einhverjir eftir að sjá eftir þessum gæðing. Ómur var taminn og þjálfaður lengst af af Kristjóni L. Kristjánssyni.

Óm þarf vart að kynna en hann er m.a. tvöfaldur landsmótssigurvegari. Hann stóð efstur í flokki 5 vetra stóðhesta á Landsmóti á Hellu 2008 með knapa sínum Þórði Þorgeirssyni. Þremur árum síðar, 2011, vann hann A flokk gæðinga á Landsmóti á Vindheimamelum, knapi var Hinrik Bragason.

Ómur hefur verið farsæll kynbótahestur og naut hann mikilla vinsælda í sumar en hann var til notkunar í Húnavatnssýslunni. Hann hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi árið 2014 og heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2018. Frægasta afkvæmi Óms er án efa Konsert frá Hofi (8.72 í aðaleinkunn) en hann ætlar að feta í fótspor föður síns sem kynbótahestur og hefur nú þegar náð fjölda sýndra afkvæma til að uppfylla skilyrði til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi. Hæst dæmda afkvæmi Óms er hryssan Fold frá Flagbjarnarholti en hún hlaut í aðaleinkunn 8,73, fyrir hæfileika 8,93 og sköpulag 8,36.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar