„Segir stjórnarmenn hafa vitað af dómnum frá 1994“

  • 2. nóvember 2021
  • Fréttir

Jóhann Rúnar Skúlason var rekinn úr landsliði hestamanna síðast liðinn sunnudag en Jóhann hefur keppt fyrir hönd Íslands í hestaíþróttum um árabil.

Brottrekstur Jóhanns úr landsliðinu kemur í kjölfarið af fréttum Mannlífs um tvo dóma sem Jóhann hlaut annars vegar árið 1993 fyrir að stunda kynmök, án samfara, með stúlku undir lögaldri og hins vegar vegna ofbeldisbrot í Danmörku árið 2016.

Á sunnudaginn sendi stjórn Landssambands hestamannafélaga út yfirlýsingu þar sem hún tilkynnir brottrekstur knapa úr landsliðinu og þar kemur einnig fram að hún hafi nýlega fengið vitneskju um málið. Í samtali við Morgunblaðið segir Guðni Halldórsson, að sambandið hafi viljað bregðast hratt við þegar stjórnin hafi fengið vitneskju um brot Jóhanns.

Jóhann sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna fréttaflutnings Mannlífs þar sem hann gerir athugasemdir við efni fréttanna. Mannlíf fari með rangt mál en Jóhann var ekki dæmdur fyrir nauðgun eins og Mannlíf setti fram og hann hafi aldrei verið með ökklaband. Jóhann segir jafnframt að hann geti ekki breytt því liðna og hann iðrist gjörða sinna og biður brotaþola afsökunar.

RÚV birti í kvöld frétt þar sem Jóhann staðfestir að ákveðinn hópur innan stjórnar LH og forsvarsmenn landsliðsins hafi vitað af dómnum í mörg ár. Jóhann segist einnig undrast orð Guðna við Morgunblaðið vegna þess að dómurinn sé löngu fallinn. Í þessari sömu frétt kemur fram að Sigurbjörn Bárðarson, landsliðseinvaldur, hafi vitað óljóst af þessu máli þegar það kom upp en tíðarandinn hafi verið allt annar en nú og málið lítið rætt. Í samtali Eiðfaxa staðfestir Jóhann að hafa átt samtal við Sigurbjörn núna í haust um að Sigurbjörn hefði ráðfært sig við lögfræðinga áður enn hann valdi Jóhann í landsliðið 2019.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar