Landsamband hestamanna Sigrún Sig. hlaut heiðursverðlaun LH

  • 20. nóvember 2023
  • Fréttir
"Sigrún Sigurðardóttir hefur á æviskeiði sínu unnið þrekvirki þegar kemur að nýliðunar- og útbreiðslumálum hestamanna ásamt því að vera óþreytandi við að aðstoða hrætt hestafólk við að komast aftur í hnakkinn."

Á Uppskeruhátíð Landssambands hestamannafélaga á laugardagskvöldið s.l. var Sigrúnu Sigurðardóttir veitt heiðursverðlaun LH fyrir áralanga aðkomu hennar að nýliðunar- og útbreiðslumálum hestamanna en hún hefur einnig verið óþreytandi við að aðstoða hrætt hestafólk við að komast aftur í hnakkinn.

Í tilkynningu frá Landssambandinu kemur fram:

„Sigrún Sigurðardóttir er borgarbarn fædd með hestadellu. 

Foreldrar hennar áttu hesta í Neðri-Fák og var hún mjög ung þegar hún yfirtók hesta foreldranna. Hún naut góðrar aðstoðar Gunnars Tryggva og Sigga hirðis í hestastússinnu, reið mikið út og tók þátt í félagsskap unga fólksins á svæðinu. Sigrún keppti fyrst á kappreiðum árið  1967 og vann þá á hestinum Geysi frá Garðsauka og var knapi á kappreiðum í allmörg næstu ár.

Hún giftist  Erlingi A. Jónssyni og gerðist félagi í Hestamannafélaginu Gusti.  Hún var  þar mjög virk í öllum félagsmálum,  sat  í stjórn félagsins á tímabili, í fræðslunefnd, æskulýðsnefnd og fleiri nefndum. Einnig sá hún um æskulýðsmál félagsins í mörg ár. Hún var fyrsti formaður kvennadeildar Gusts og var kosinn félagsmálamaður Gusts.

Sigrún sat Landsþing  sem fulltrúi  Gusts í mörg og var  virkust þar í keppnisnefnd.  Sigrún hefur nú á seinni árum setið LH þing sem fulltrúi Fáks.

Hún átti sæti í  varastjórn LH um tíma og sat einnig í milliþinganefndum, einnig sat hún í stjórn Hestaíþróttasambandsins á meðan það var og hét, og hún var í ritstjórn tímaritsins Hestsins Okkar á tímabili.

Sigrún vann á skrifstofu LH í kring um 1996 og fór meðal annars til Austurríkis á heimsmeistararmót.  Þar sá hún um pappírsmál fyrir liðið og var í tímatökuliði mótsins fyrir Íslands hönd.

Sigrún tók gæðingadómarpróf í kringum 1971 og landsdómarapróf í framhaldi af því og var virkur dómari í mörg ár. Hún sat í stjórn dómarafélags LH um árabil og hefur einnig setið í fræðslunefnd gæðingadómarafélagsins.  Sigrún hefur verið þulur á flestum Lands- og fjórðungsmótum frá 1971 auk fjölda annarra félagsmóta og mótaraða.

Sigrún var í nokkur ár formaður nefndar um  Kvennatölt á skautasvellinu í Rvk. til styrktar landsliðinu í hestaíþróttum.

Sigrún var ein af upphafsmönnum sýningarinnar Æskan og hesturinn  og tók þátt í þeim sýningum í mörg ár, bæði sem þulur og sem þjálfari sýnenda.

Sigrún hefur unnið með flestum Æskulýðsnefndum  hestamannafélaga á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Hún sá um ásamt  fleirum að skipuleggja og koma á fót  Æskulýðsmóti á Þingvöllum. Farið var ríðandi með hóp unglinga til Þingvalla, þar sem fjölbreytt námskeið og reiðtúrar voru í boði og gist var tvær nætur.

Síðast enn ekki síst hefur Sigrún starfað við reiðkennslu í yfir 50 ár, bæði hér heima og erlendis og vandfundinn sá knapi sem stundar hestamennsku í dag á aldrinum 10-50 ára sem ekki hefur farið í kennslu til hennar.

Hún hefur verið virkur þátttakandi í uppbyggingu knapamerkja frá upphafi, bæði sem kennari og dómari. Hefur einnig haldið námskeið fyrir verðandi þuli. Reiðámskeiðin hafa verið fjölbreytt m.a. barna- og unglinganámskeið auk námskeiða fyrir óörugga sem nefnd hafa verið „hræðslupúkanámskeið“ auka annarra almennra reiðnámskeiða.

Hún fór til Bretlands og lærði þar þjálfun/kennslu fatlaðra, starfaði svo í samstarfi við sjúkraþjálfara á Fákssvæðinu.

Sigrún Sigurðardóttir hefur á æviskeiði sínu unnið þrekvirki þegar kemur að nýliðunar- og útbreiðslumálum hestamanna ásamt því að vera óþreytandi við að aðstoða hrætt hestafólk við að komast aftur í hnakkinn.

Hún hlaut gullmerki LH 2014 á Selfossi“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar