Snúum vörn í sókn!

  • 14. september 2020
  • Fréttir

Guðni Halldórsson ásamt konu sinni Kristjönu Þórarinsdóttur

Pistill eftir Guðna Halldórsson

Frá því að ég tilkynnti framboð mitt til formanns LH hef ég rætt við fjölda málsmetandi manna og kvenna og hlustað eftir áherslum þeirra og skoðunum, sem eru margar og mismunandi. Margir hafa spurt mig hverju ég telji mikilvægast að koma til leiðar, verði ég kjörinn formaður.

Ragnheiði Ylja 6 ára dóttir Guðna,sem býr svo vel að hafa aðgengi að hestum.

Í mínum huga er svarið einfalt. Ef það er eitthvað eitt sem er virkilega aðkallandi að ný stjórn og nýr formaður setji á oddinn og leggi megin áherslu á, þá eru það mál sem snúa að nýliðun í hestamennsku. Við horfum upp á mikla fjölgunsprengingu í þeim greinum sem við berum okkur jafnan saman við. Á síðustu árum hefur þeim sem stunda golf fjölgað um c.a. 1.000 á ári á meðan að fjöldi iðkenda í hestamennsku er nánast sá sami árið 2018 og hann var árið 2009 (11.499 iðkendur 2009 á móti 11.793 árið 2018 skv. tölfræðisíðu ÍSÍ).

Það er ljóst að aðgengi að hestamennsku er mjög erfitt fyrir nýja iðkendur og með framtíð hestamennskunnar að leiðarljósi VERÐUM við að snúa vörn í sókn og gera allt til að auka möguleika fólks á öllum aldri til að koma inn í hestamennskuna.

Það þarf vitanlega ekki að ræða margfeldisáhrif af hverjum nýjum iðkanda fyrir greinina í heild. Hestamennskan er fjölskyldusport og líklegt er að hvert nýtt ungmenni sem byrjar í hestum taki með sér einn eða fleiri fjölskyldumeðlimi. Hver fjölskylda kaupir hest/hesta, hnakka, reiðtigi, járningar, hey, reiðtíma, hesthús, hestakerrur osfrv. Þannig að fjárfesting í hverjum nýjum iðkanda er gríðarlega verðmæt fyrir þá sem starfa í greininni, auk þess sem það er ekkert annað en jákvætt að fá nýtt fólk til liðs við okkur og gefa fleirum kost á að kynnast þessu stórkostlega sporti.

Í dag er staðan sú að það er mjög erfitt fyrir fólk sem vill byrja í hestamennsku að vita hvert það á að snúa sér. Börn og unglingar sem vilja kjósa hestamennsku fram yfir fótbolta eða aðrar íþróttagreinar eiga afar fáa möguleika á að láta þann draum rætast ef ekki er einhver þeim nákominn þegar í hestamennsku.

Nokkur félög hafa upp á sitt einsdæmi náð að gera ótrúlega flotta hluti í þessum efnum, en að mínu mati þurfa landssamtökin að taka algera forystu í þessu máli.  Það þarf að búa til pakka sem hestamannafélögin geta gengið að sem nokkurs konar fyrirmynd fyrir barna- og unglingastarf. Það þarf að búa svo um hnútana að börn og unglingar geti nýtt frístundastyrki sína í hestamennsku kjósi þau það, hvar sem þau búa á landinu. Það þarf að tryggja almenningssamgöngur að hesthúsahverfum. Það þarf að sækja fé í verkefnið, til einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera og sækja í alla þá styrki sem eru í boði. Það þarf að útbúa tryggingapakka sem félögin geta gengið inn í og svo framvegis og framvegis. Það er ekki hægt að leggja það á hvert félag fyrir sig að standa í þessu hvert í sínu horni auk þess sem ég lít svo á að móralskur og þekkingalegur stuðningur frá landssamtökunum muni skipta gríðarlegu máli.

Hestamenn! Þetta er það mál sem skiptir okkur mestu máli. Snúum bökum saman í þessu máli, við þurfum fleira fólk inn í hestamennskuna.

Guðni Halldórsson

Skrauthólum 2 á Kjalarnesi

14.9.2020

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar