Sylvía nýr formaður Félags tamningamanna

  • 19. apríl 2022
  • Fréttir
Fréttir frá Félagi Tamningamanna

Á síðasta aðalfundi Félags Tamningamanna, sem haldinn var í lok árs 2021, var kjörinn nýr formaður og annar stjórnarmaður. Sylvía Sigurbjörnsdóttir var kjörin sem nýr formaður Félags Tamningamanna og tók við af Súsönnu Sand Ólafsdóttur. Þórarinn Eymundsson var jafnframt kjörinn stjórnarmaður en meðlimir stjórnar eru kjörnir til tveggja ára í senn og héldu því aðrir stjórnarmenn sínum stöðum.

Stjórn Félags Tamningamanna árið 2022 er því eftirfarandi:

Formaður: Sylvía Sigurbjörnsdóttir
Varaformaður: Þórarinn Eymundsson
Gjaldkeri: Guðmundur Björgvinsson
Ritari: Johannes Amplatz
Meðstjórnandi: Mette C. M. Mannseth
Formaður FT Norður: Fanney Dögg Indriðadóttir
Formaður FT Suður: Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir

Við þessi tímamót er við hæfi að þakka fyrir þau góðu störf sem fráfarandi formaður, Súsanna Sand Ólafsdóttir og varaformaður, Siguroddur Pétursson hafa lagt af mörkum til félagsins. Félag Tamningamanna vill færa Súsönnu sérstakar þakkir fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu félagsins og allt það góða sem hún hefur lagt til í sinni formanns tíð.

Súsanna hefur verið formaður Félags Tamningamanna síðastliðin átta ár, frá 2013 fram til ársins 2021. Súsanna, sem býr yfir einstaklega jákvæðu viðhorfi, hefur brennandi áhuga á íslenska hestinum og öllu því sem honum viðkemur. Hún er einstaklega dugleg að bæta við sína þekkingu og miðla til annarra í gegnum kennslu og einnig sem dómari. Súsanna hefur reynslu á mörgum sviðum hestamennskunnar og hefur það nýst henni í áherslum hennar innan félagsins.

Meðal áhersluatriða Súsönnu var til að mynda FT fjöðrin, sem veitt er fyrir fallega reiðmennsku, léttleika og sjálfberandi hest með einstakri mýkt og útgeislun. Hún lagði einnig áherslu á góð samskipti og setti á laggirnar málþing sem kallaðist “samtal dómara og knapa” þar sem farið var yfir keppnistímabilið ár hvert. Súsanna hefur í sinni formannstíð talað fyrir aukinni menntun og þekkingu á fortamningum og frumtamningum, sem og að staðið verði fyrir reglulegri endurmenntun félagsmanna. Þessar góðu áherslur hennar eru komnar til að vera áfram innan Félags Tamningamanna um ókomin ár.

Ný stjórn Félags Tamningamanna hlakkar til komandi tíma og hvetur þá sem áhuga hafa á málefnum tamningamanna og reiðkennara og vilja starfa í þágu félagsins að setja sig í samband við stjórnina.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar