“Teljast því ekki lögleg mót til skráningar á árangri”
Á vef Hestamannafélagsins Sörla er að finna yfirlýsingu stjórnar félagsins í kjölfar bréfaskrifta Jón Þorbergs Steindórssonar, fyrrum fulltrúa í keppnisnefnd LH. Í bréfum sínum gagnrýndi hann vinnubrögð keppnisnefndar og stjórn LH. Berglind Karlsdóttir, framkvæmdarstjóri LH, svaraði Jóni Þorbergi skömmu síðar.
Upphaf málsins má rekja til þess að tími í 100 metra skeiði sem settur var á félagsmóti Sörla var birtur á stöðulistum en seinna tekinn aftur út af þeim vegna ólögmæti mótsins. Í ljósi þess lýsti Jón Þorberg þeirri skoðun sinni að skýrslur hefðu verið rangfærðar á öðrum mótum þar sem tímar voru metnir löglegir.
Í yfirlýsingu Sörla segir m.a. annars :
Síðustu daga hefur verið fjallað opinberlega um skráningu árangurs í 100 metra skeiði á félagsmóti hjá Sörla í mars 2023. Um var að ræða þriðja og síðasta mótið í vetrarmótaröð Sörla (Sjóvámótaröðinni). Mótin fara fram á beinni braut og eru hugsuð sem áhorfendavæn fjáröflunarmót þar sem félagsmenn geta komið saman og sýnt hesta sína, fyrst og fremst sér og öðrum til skemmtunar. Á fyrstu tveimur vetrarmótunum er aðeins einn dómari en á því þriðja eru þrír dómarar. Á mótunum eru ekki fótaskoðunarmenn eða annar búnaður skoðaður og ekki fer fram nein áverkaskoðun. Mótin á vetrarmótaröðinni/Sjóvámótaröðinni uppfylla ekki skilyrði laga LH eða FEIF um keppnir og teljast því ekki lögleg mót til skráningar á árangri í tímagreinum, ólíkt öðrum og stærri mótum. Þetta hefur legið ljóst fyrir frá upphafi.
Nokkrum dögum eftir að mótinu lauk óskaði þátttakandi í 100m skeiði eftir því við mótanefnd Sörla að árangur í greininni yrði skráður í Sportfeng og var brugðist vel við því af sjálfboðaliða hjá félaginu. Viðkomandi áttaði sig ekki á því á þeim tíma að mótið taldist ekki löglegt. Af þeirri ástæðu telur stjórn Sörla að það hafi samrýmst hlutverki framkvæmdarstjóra og starfsfólks LH að leiðrétta skráninguna. Mistök höfðu verið gerð sem okkur þykir afar leitt og viljum við benda á að ekki sé við neinn að sakast enda allir að gera sitt allra besta.
Í skrifum Jón Þorbergs gagnrýndi hann Hinrik Sigurðsson, sviðsstjóra afreks- og mótamála LH en hann gegnir einnig starfi yfirþjálfara Sörla.: „Þar sem efni umræddra greina snýr bæði að tilteknu móti hjá Sörla og að yfirþjálfara félagsins telur stjórn Sörla rétt að koma því á framfæri að félagið ber fullt traust til Hinriks. Hann hefur starfað sem yfirþjálfari Sörla frá haustinu 2020 við góðan orðstír. Frá upphafi hefur Hinrik sinnt starfi sínu með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Stjórn Sörla hefur lagt áherslu á að vera leiðandi og til fyrirmyndar í hestaíþróttastarfi og hefur aðkoma Hinriks að starfseminni vegið mjög þungt í þeim árangri sem náðst hefur.„
Þá segir í niðurlagi yfirlýsingar stjórnar Sörla, sem lesa má í heild sinni með því að smella hér.
Sjórn Sörla hefur enga skoðun á skráningu árangurs eða fjölda dómara á öðrum mótum sem vitnað hefur verið til í skrifum undanfarna daga. Félagið treystir einfaldlega þeim aðilum sem um það sjá til þess að fjalla um þau mál.
Hvað varðar hestamannafélagið Sörla, starfsmann og sjálboðaliða þess er þessu máli að fullu lokið.