Toppur hlýtur 1.verðlaun fyrir afkvæmi

  • 27. nóvember 2019
  • Fréttir
Toppur frá Auðsholtshjáleigu hefur nú hlotið 1. verðlaun fyrir afkvæmi. En eigendur hans tóku við verðlaununum á uppskeruhátíð sem haldinn var í Svíþjóð um síðustu helgi.

 

Toppur er fæddur þeim Gunnari Arnarssyni og Kristbjörgu Eyvindsdóttur en núverandi eigandi er Jamila Berg í Svíþjóð. Toppur er fæddur árið 2007 og því á þrettánda vetri.

Toppur á 16 dæmd afkvæmi og er með 120 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins.

Að Toppi standa sterkar stoðir, en hann er undan heiðursverðlaunahestinum Álfasteini frá Selfossi. Álfasteinn er undan Keili frá Miðsitju og Álfadís frá Selfossi. Þá er móðir Topps heiðursverðlaunahryssan Trú frá Auðsholtshjáleigu en hún er undan Tign frá Enni og Orra frá Þúfu í Landeyjum.

Toppur kom til dóms strax fjögurra vetra gamall og vakti þá verðskuldaða athygli hlaut m.a. einkunnina 9,0 fyrir tölt strax í fyrstu sýningu sem og 9,0 fyrir höfuð og háls, herðar og bóga. Ákaflega fríður og fallega skapaður stóðhestur. Hlaut hann fyrir sköpulag 8,18, fyrir hæfileika 7,91 og í aðaleinkunn 8,02. Sýnandi hans var Þórdís Erla Gunnarsdóttir.

Árið 2013 sýndi Sigurður V. Matthíasson hann í sinn hæsta dóm í kynbótadómi. Hlaut hann þá fyrir sköpulag 8,48, fyrir hæfileika 8,50 og í aðaleinkunn 8,49.

Toppur hefur gert góða hluti á keppnisvellinum fyrst um sinn með Þórdísi Erlu sem knapa og nú síðustu ár með Mariu Berg á bakinu. En þau urðu Sænskir meistarar í tölti í ár með 8,50 í einkunn í úrslitum.

Eiðfaxi óskar ræktendum og eigendum Topps til hamingju með viðurkenninguna.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar