„Voru svo yndisleg að lána mér hann Flóka“

Sara og Flóki verðlaunum hlaðin
„Flóki er í miklu uppáhaldi, mikill karakter og vinur minn. Hann er einnig mörgum kostum gæddur gangtegundalega séð og þá gerir byggingin honum auðvelt fyrir. Það er einstaklega gaman að þjálfa hann.“ Segir Sara Sigurbjörnsdóttir sigurvegari í fimmgangskeppni Uppsveitadeildarinnar um hest sinn Flóka frá Oddhóli.
Sara var í 2.-3. sæti eftir forkeppni en vann sig upp í 1.sætið í úrslitum og það með nokkrum yfirburðum, en nánar má lesa um mótið með því að smella hér.
Hvernig leið þér eftir að sigrinum var náð? „Tilfinningin var mjög góð. Þetta er uppskera af mikilli vinnu og því mjög sætt. Þetta er í fyrsta skipti sem ég keppi í Uppsveitadeildinni en þar ríkir ákaflega skemmtilegt andrúmsloft og það er mjög gaman að taka þátt. Aðstæðurnar í höllinni eru krefjandi vegna þess að hún er frekar lítil. Það er lítið mál að ríða forkeppni en erfiðara að ríða úrslit með mörgun inná.“

Sara ásamt liðsfélögum sínum í Team Denni design. F.v. Helgi Þór Guðjónsson, Ragnhildur Haraldsdóttir, Sara og Ólöf Rún Guðmundsdóttir. Mynd: Aðsend
Gleymi mér stundum í smáatriðum
„Pabbi og mamma eiga Flóka en þau voru svo yndisleg að lána mér hann vorið 2019 og ég hef ekkert í hyggju að skila honum.“ Segir Sara en foreldrar hennar eru þau Sigurbjörn Bárðarson og Fríða Steinarsdóttir. „Pabbi sagði að ég þyrfti að fá keppnishest og byrja að keppa eitthvað aftur. Hann bauð mér að koma og prufa hann og ég ákvað að taka boðinu eftir það hefur hann verið hjá mér.“ Sara er enginn aukvissi þegar kemur að sýningu á hrossum hvort sem er í keppni eða kynbótasýningum en hefur kannski ekki verið mjög sýnileg á keppnisbrautinni síðustu ár, er einhver ástæða fyrir því?
„Það tekur svo mikinn tíma að koma sér upp samkeppnishæfum keppnishesti og ég hef ekki verið það heppin að ramba á marga slíka. það er einnig erfitt þegar maður á kannski ekki mikinn pening til þess að kaupa sér keppnishest. Ég hef verið mikið að temja og sýna ung hross í kynbótadómi, sem mér finnst mjög gaman, en þau fara svo oft í ræktun eða önnur hlutverk að því loknu. Svo þegar maður eignast góð hross sjálfur, eins og við í Koltursey höfum gert með margar hátt dæmdar hryssur, að þá finnst okkur þurfa að setja þær í ræktun og fá undan þeim folöld. Svo er ég kannski með smá fullkomnunaráráttu og vil ekki koma fram öðruvísi en vel undirbúinn, af þeim völdum gleymir maður sér kannski stundum í smáatriðunum. Sylvía systir mín hringdi til dæmis í mig fyrir Uppsveitadeildina og sagði mér að vanda mig minna og láta bara vaða.“ Sara býr í Koltursey í Austur-Landeyjum þar sem hún stundar tamningar og hrossarækt ásamt Þórhalli Péturssyni unnusta sínum.

Sara og Þórhallur í hesthúsi sínu í Koltursey
Framundan er lokamótið í Uppsveitadeildinni en þá verður keppt í tölti og skeiði. Ætlar Sara að vera með í því móti? „Það verður bara að koma í ljós. Liðið mitt, Team Denni Design, er með æfingu á þriðjudaginn og þá kemur í ljós hvernig hestakosturinn er.“
Eiðfaxi þakkar Söru fyrir spjallið og óskar henni til hamingju með sigurinn á föstudagskvöld.