Kallar eftir meiri virðingu fyrir dómurum og þeirra störfum
Nýjasti þátturinn af Kaffispjalli þeirra félaga í hlaðvarpsþáttunum Á Kaffistofunni er nú kominn í loftið. Í þættinum fara þeir Arnar Bjarki Sigurðarson, Gísli Guðjónsson og Hjörvar Ágústsson yfir málefni líðandi stundar í hestamennskunni.
Í þessum þætti ræða þeir m.a. keppni í fimmgang í Meistaradeildinni næstu keppnisgrein í henni, gæðingalist ásamt ýmsu fleiru.
Þeir hringdu m.a. í yfirdómara Meistaradeildarinnar og formann HÍDÍ, Halldór Gunnar Victorsson, sem hafði frá ýmsu áhugaverðu að segja og eitt af því er það viðmót og oft á tíðum ókurteisi sem það fólk sem tekur að sér dómgæslu i hestaíþróttum þarf að búa við, sérstaklega hér á landi.
„Ég er nýkominn frá því að dæma World Tölt í Danmörku. Þegar maður kemur á mót úti þá hittir maður fólk og það segir, nei blessaður og sæll, gaman að sjá þig, gaman að þú skyldir gefa þér tíma til að koma til okkar og gott að fá þig. Þetta er ekki alveg viðhorf sem maður fær hér heima, þeir eru nú margir snillingarnir búnir að vera með yfirlýsingar um dómstörf í þessum þáttum hvort sem það er Á Kaffistofunni eða á Alendis. Það var nú einn snillingurinn sem sagði að það ætti nú bara að reka menn ef einkunnir væru á milli 7 og 9, það var það fyrsta sem ég heyrði frá einum manni þegar ég kom austur á Meistaradeildina og var að taka út völlinn, það fyrsta sem honum datt í hug að segja og minnti mig á hvort það væri ekki öruggt að menn yrðu reknir ef það yrði mikið ósamræmi. Ég spurði hann að því hvernig væri þá með knapana ef það klikkaði skeið, brokk eða annað sem kom nú síðan í ljós að færustu menn geta klikkað á. Mér er mikið niðri fyrir um þessi mál eftir að hafa verið nú erlendis og verið við dómstörf í 20 ár og þetta þarf að breytast.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni og heyra frekari umræðu um störf dómara auk ýmislegs fleiri með því að smella HÉR.