Framboð til stjórnar Landssambands hestamannafélaga
Ég er uppalin í Skagafirði og hef stundað hestamennsku frá barnsaldri þó ekki sé hægt að ættbókarfæra mig innan hestamennskunnar því ég er sú eina úr minni fjölskyldu sem smitaðist af þeim áhuga. Til að byrja með var ég í Hestamannafélaginu Léttfeta, þar til það félag sameinaðist hestamannafélaginu Stíganda og Svaða og úr varð hestamannafélagið Skagfirðingur.
Ég er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og hef síðustu ár starfað við þjálfun hrossa auk reiðkennslu hjá Skagfirðingi bæði í æskulýðsstarfi og keppnisþjálfun, verið í mótanefnd félagsins frá árinu 2015, stjórn Meistaradeildar KS frá árinu 2017 og starfað í nefndum fyrir Íslandsmót og Landsmót. Einnig hef ég setið í stjórn hestamannafélagsins Skagfirðings frá árinu 2020 og er nú yfirreiðkennari hjá félaginu.
Nýliðun í hestamennsku og uppbygging yngri knapa eru mér mjög hugleikin. Framtíðin liggur í komandi kynslóð og því er mikilvægt að gefa áhugasömum ungum aðilum sem eru að stíga sín
fyrstu skref í hestamennskunni tækifæri á að kynnast þessu gefandi áhugamáli. Mikilvægi kennslu og þjálfunnar yngri knapa sem og þeirra sem lengra eru komnir er gríðarlega mikið.
Halda þarf vel utan um allt það starf á landsvísu til að viðhalda og auka áhuga og hæfni iðkenda á öllum stigum og aldri.
Á síðasta Landsþingi bauð ég mig fram til starfa í stjórn LH. Sem stjórnarmaður sit ég í keppnisnefnd og menntanefnd og hef þar fengið tækifæri til að leggja mitt að mörkum innan þeirra nefnda. Þar sem ég hef mikinn áhuga á allri menntun tengdri hestamennsku og keppnishaldi þá finnst mér þessi vettvangur spennandi, fróðlegur, skemmtilegur, hvetjandi og áhugaverður. Það er svo margt sem vel hefur verið gert og enn fleira sem má bæta við. Ótal áhugaverðir hlutir sem bíða eftir áframhaldandi vinnu. Það þarf áhugasama og kraftmikla einstaklinga til að vinna að þessum málum og er samtakamátturinn mikilvægur. Ég tel mikilvægt að þeir einstakingar komi úr ólíkum áttum hvort heldur sem er landfræðilega eða upprunalega og bíð mig því fram til áframhaldandi starfa fyrir stjórn LH. Mikilvægt er að stjórn
LH tengi saman aðildarfélögin, alla iðkendur þeirra og stjórnendur. Um allt land liggur verðmæti í mannskap sem tengja þarf saman því mikill kraftur liggur í fjöldanum. Með samheldni og samvinnu aukum við líkurnar á góðri uppbyggingu, framþróun og frábærum árangri.