Samdi lag um hamfaraveðrið sem gekk yfir Húnvetninga

  • 13. ágúst 2020
  • Fréttir
Viðtal við Magnús á Stóru-Ásgeirsá

Hestamenn hafa löngum verið söngelskir og hagmæltir. Það virðist vera svo að hestinum fylgi einhver innblástur til þess að tjá sig og er yrkisefnið þá oft hesturinn og náttúran. Magnús Ásgeir Elíasson, bóndi á Stóru-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu, er í þessu tilviki enginn undantekning, hann stundar hrossarækt, temur hross og er með hestaleigu auk þess að vera stemningsmaður og syngja og tralla við hin ýmsu tilefni.

Hann hefur nú gefið út plötu sem nálgast má á spotify en yrkisefnið er einmitt náttúran, hesturinn og ástin, eins og hann segir sjálfur frá. ,,Megnið af lögunum á disknum er náttúrutengt og samdi ég meðal annars lag um veðrið sem gekk hér yfir Húnvetninga og fleiri í vetur með þeim hörmulegu afleiðingum að búpeningur varð úti, eins og frægt er. Einar Georg samdi íslenska textann við lagið og Hrafnhildur Ýr enska textann. Mörg af þessum lögum á plötunni eru einnig um ástina og það er eitt lag sem Sigurður Sólmundsson samdi ljóð við en ég tel hann vera skólaðari en ég í þeim málum“. Segir Magnús og hlær en heldur svo áfram. ,,Þetta er nú fjandi góður diskur, þó ég segi sjálfur frá, og er ég bara montinn af honum. Ég hrósa mér nú ekki oft en þessi er helvíti flottur.“

Blaðamaður Eiðfaxa heimsótti Magnús í haust og tók út hjá honun aðstöðuna, en það má segja að það sé rúmlega ballfært í mjólkurhúsinu sem að er einskonar skemmtistaður Húnvetninga. ,,Ef að hægt verður að halda Víðidalstunguréttir með eðlilegum hætti verður að sjálfsögðu partí hjá mér í kringum þær. En svo stefni ég einnig að því að vera með útgáfutónleika í október þar sem allt bandið kemur saman og tekur lögin.“

Myndband við lagið Storm má horfa á hér fyrir neðan en platan sem heitir Senn kemur vor má finna á Spotify.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<