Tippari vikunnar Tippari vikunnar – Ágúst Sigurðsson

  • 30. október 2020
  • Fréttir
Sjöunda umferð ensku úrvaldsdeildarinnar hefst í kvöld.

Þá er komið að sjöundu umferð Tippara vikunnar í boði Sport og Grill Smáralind.

 

Í síðustu umferð var það Guðmundur Arnarsson eða Mummi í Ástund sem var með fimm rétta.

Í þessari viku er það engin annar en sjálfur sveitarstjórinn í Rangárþingi ytra Ágúst Sigurðsson sem tippar á leiki helgarinnar.

Ágúst er harður Everton maður og getur því glaðst yfir gengi sinna manna það sem af er tímabili.

 

Wolverhampton 2-1 Crystal Palace föstudag kl 20:00
Adama Traore hnyklar lærvöðvana og verður með fyrirgjafir af betri sortinni sem enda í markinu. Unnur lítur upp úr prjónunum rétt á meðan.

Sheffield United 0-2 Manchester City laugardag kl 12:30
De Bruyne snýr sér eldsnöggt á hæl, skýtur fram hökunni og smellhittir boltann í tvígang í vinkilinn – óverjandi í bæði skiptin.

Burnley 1-0 Chelsea laugardag kl 15:00
Burnley kemur á óvart og skilur Chelsea eftir lamaða af undrun

Liverpool 3-2 West Ham United laugardag kl 17:30
Jú ætli Poolarar hafi þetta ekki – sjálfstraustið er reyndar ekki fyllilega komið í samt lag eftir 7-2 tapið um daginn en Senegalinn verður með og það dugar nú yfirleitt þó eitthvað vanti af öðrum liðsmönnum.

Aston Villa 3-1 Southampton sunnudag kl 12:00
Villarnir eru á svaðalegri siglingu og þetta verður afgreiðsla þó svo að Southampton menn hafi verið að koma geysilega á óvart síðustu vikurnar – reyndar mest heppni.

Newcastle United 0-2 Everton sunnudag kl 14:00
Mínir menn rétt merja þetta enda er okkar duglegasti maður Lucas Digne fjarri góðu gamni og þetta verður aðeins basl. En þarna verður spilað á breiddinni og efsta sætið í deildinni áfram á sínum stað. DCL með skalla úr háloftunum og James tekur hann með vinstri út við stöngina neðst!

Manchester United 2-2 Arsenal sunnudag kl 16:30
Verður hörkuleikur, sá prýðispiltur Rashford verður með 2 en brennir af í uppbótartíma.

Tottenham 4-1 Brighton & Hove Albion sunnudag kl 19:15
Son verður með 2 og Kane (finnst hann alltaf líkur einhverjum sem ég þekki – kem ekki fyrir mig hver það er?) með önnur 2, Mourinho brosir lítillega undir lok leiksins.

Fulham 0-0 West Bromwich Albion mánudag kl 17:30
Drepleiðinlegur fótboltaleikur

Leeds United 4-5 Leicester City mánudag kl 20:00
Verður svakalegur leikur, stórsókn á báða bóga og enginn í vörn. Þjálfari Leedsara lítur aldrei upp – horfir beint niður allan tímann og situr sem fastast sama á hverju gengur. Vardy hefur ekki við að skora en Leedsarar svara strax fyrir, rétt sleppur fyrir Leicester.

 

Staðan:

Þórir Örn Grétarsson 6 réttir

Ingibjörg Guðmundsdóttir 6 réttir

Eiríkur Jónsson 6 réttir

Steindór Guðmundsson 5 réttir

Guðmundur Arnarsson 5 réttir

Flosi Ólafsson 4 réttir

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar