Tippari vikunnar Hlaðvarpsþátturinn Á kaffistofunni hefur göngu sína í haust

  • 14. september 2020
  • Fréttir

Þeir Hjörvar Ágústsson og Arnar Bjarki Sigurðarson í samstarfi við Eiðfaxa munu hefja upptöku á nýjum hlaðvarpsþætti á næstu dögum

Nú á haustdögum mun nýr hlaðvarpsþáttur hefja göngu sína en þættirnir eru samvinnuverkefni Eiðfaxa og þeirra Arnars Bjarka Sigurðarsonar og Hjörvars Ágústssonar. Þættirnir muna bera nafnið Á kaffistofunni og er með heitinu vísað til kaffistofu hestamanna þar sem oft verða heitar umræður um hin ýmsu málefni og þau krufin til mergjar.

Nú þegar eru þeir félagar í samstarfi við Gísla Guðjónsson, ritstjóra Eiðfaxa, búnir að koma sér upp öllum þeim græjum sem þarf til verksins og nýtt og vandað stúdíó er að verða fullklárað að Sunnuhvoli í Ölfusi. Þeir Hjörvar og Arnar Bjarki eru, þrátt fyrir ungan aldur, vel að sér í öllum málefnum hestamanna enda báðir með B.Sc. gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Þá starfa þeir báðir við tamningar, þjálfun og sölu á hestum auk þess að vera sýnilegir á keppnis- og kynbótabrautinni. Hjörvar er með starfsemi að Kirkjubæ á Rangárvöllum og Arnar Bjarki að Sunnuhvoli í Ölfusi.

Hjörvar Ágústsson mun verða aðal þáttarstjórnandi hlaðvarpsins og mun því leiða hestamenn landsins í skemmtilegu og fróðlegu spjalli. Markmiðið með þáttunum er að taka fólk tali sem hefur frá ýmsu skemmtilegu að segja og tengist íslenska hestinum á einn eða annan hátt. Þættirnir verða með ýmsu sniði allt frá því að verða tveggja manna tal til þess að fleiri sérfræðingar bætast við í þættina og ræða fyrirfram ákveðin afmörkuð málefni.

Þættirnir munu verða aðgengilegir á streymisveitunni Spotify og einnig munu allir þættir verða aðgengilegir í gegnum vef Eiðfaxa. Þetta samstarf er enn einn liðurinn í því að fjalla á ítarlegan hátt um hestaíþróttina, hestamennskuna, ræktunina, mannflóruna og allan þann fjölbreytileika sem þessi skemmtilegi menningarheimur býður uppá.

Fylgist því vel með á heimasíðu Eiðfaxa í haust þegar þessi skemmtilega viðbót bætist í fjölmiðlun hestamennskunnar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<