Munið hóffeitina!

  • 29. janúar 2020
  • Fréttir
„Frosnir reiðvegir geta í raun verið harðari en malbik og því mikið álag á hófa og fætur hestanna“ segir járningarmeistarinn Kristján Elvar Gíslason

Nú þegar frost er í jörðu og hestar oft með mjög þurra hófa er mikilvægt að bera hóffeiti á hófana enda fer fyrsta fjöðrunin fram í hófnum.

Frost og þurrt loft fer ekki vel með hófana, oft geta þeir orðið svo þurrir að þeir líkjast steypu. Þá er mikilvægt að eigendur beri reglulega hóffeiti á hófana.  Heilbrigður hófur er forsenda þess að hesturinn geti beitt sér við þær aðstæður sem nú eru á reiðvegunum.

„Frosnir reiðvegir geta í raun verið harðari en malbik og því mikið álag á hófa og fætur hestanna“ segir járningarmeistarinn Kristján Elvar Gíslason og mælir með því að eigendur útreiðahrossa passi vel upp á heilbrigði hófanna og rakastig þeirra.

Regluleg notkun hóffeiti og olíu hjálpi til að þess að halda réttum raka í hófum þegar hestar eru á húsi.  Jaframt bendir hann á að mikilvægt sé að feitin / olían innihaldi frekar dýrafitu en jurtaolíu þar sem dýrafitan fari inn í hófinn en jurtaolían liggi oft bara á yfirborðinu. Þá er gott að bera feitina á utanverðan hófinn upp í hófkvarnið, undir hófbotn og á hóftunguna.

Allir hesteigendur vita að hestur án heilbrigðra hófa fer ekkert!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar