Skyndihugmynd sem er að taka á sig mynd – Úr haga í hendur

  • 19. maí 2021
  • Fréttir

Skjáskot úr heimildarmyndinni Úr haga í hendur

„Ég fékk bara skyndilega hugmynd um það hversu gaman væri að gera kvikmynd um þjálfun á hesti frá því að hann kemur á hús þar til hann fer á völlinn og það er verkefnið sem ég vinn að núna.“ Segir Þurý Bára Birgisdóttir, kvikmyndargerðarkona, sem í rúmt ár hefur unnið að gerð myndarinnar Úr haga í hendur sem fjallar einmitt um það sem hún nefnir hér að ofan.

Auðvelt að hrífast með

Myndin segir frá ungum stóðhestum sem eru að koma til tamningar og eru viðmælendur þau Olil Amble, Bergur Jónsson, Brynja Amble Gísladóttir og Elin Holst og þeirra hross. „Eftir því sem hugmyndin þróaðist setti ég mér skilyrði um að tamningamaðurinn væri kona. Þetta þyrfti að vera einhver sem væri búinn að vera í bransanum lengi og því með mikla reynslu. Ég stikaði um gólf heima hjá mér og reyndi að láta mér detta einhverja í hug. Ég var sjálf í hestum sem unglingur og mundi eftir kanónum eins og Rúnu Einars og Huldu Gústafs. Með þetta í kollinum kveikti ég á fréttunum í sjónvarpi og viti menn þar sé ég viðtal við Olil Amble og hugsaði strax þarna er hún komin. Síðan þá hef ég fylgt þeim mikið eftir og er enn þá að. Það er rosalega skemmtilegt að vinna með Olil, Berg og þeirra fólki. Þau eru stútfull af fróðleik og brenna fyrir því sem þau eru að gera. Þegar fólk gerir það að þá er svo auðvelt að hrífast með. Eins og áður segir að þá var ég í hestum sem unglingur og hef því örlítinn grunn en það sem ég held að sé gott er það að ég skil ekki þetta tungumál hestamannsins og ósjálfrátt biður maður um nánari útskýringar og það held ég að sé líka ein af ástæðunum fyrir því að fólk sem er lítið eða ekkert í hestamennsku sem hefur horft á, hrífst með.“

Þurý Bára Birgisdóttir

 

En hvert er markmiðið með myndinni og hvar ertu stödd í verkinu?
„Þetta sem er komið út núna er í raun bara lítil hluti af miklu stærra verkefni og ég er enn þá að fylgja þessum ungu stóðhestum eftir sem við sjáum í myndinni. Ég á sennilega eftir að taka þetta allt í sundur og lokaútkoman verður önnur. Svona verkefni eru rosalega lifandi og geta breyst mjög hratt. Ég hef fengið frábærar viðtökur og þá ekki síður frá fóki sem er ekki í hestum en það sat dolfallið yfir myndinni og sagðist skilja hestinn mun betur eftir áhorfið. Ég ætla mér að gera meira með þetta verkefni og vona að útkoman verði hestamennskunni til heilla. Ef einhver þarna úti er áhugasamur um að fjármagna verkefnið á einhvern hátt að þá væri óskandi að fá ábendingar.“ Segir Þurý að lokum, Eiðfaxi óskar henni velgengni með  þetta skemmtilega og áhugaverða verkefni.

 

Hér fyrir neðan má sjá heimildarmynd sem sýnir hluta af því sem unnið hefur verið að nú þegar.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar