Dýrasti stóðhestur sögunnar

  • 1. apríl 2020
  • Fréttir

Fenrir er glæsilegur og fasmikill klárhestur

Fréttir bárust af því í gærkvöldi að stóðhesturinn Fenrir frá Feti væri seldur og að kaupandinn væri Rússneski auðjöfurinn Dimitri Rybolovlev sem er talinn á meðal tuttugu ríkustu manna Rússalands samkvæmt vefsíðunni Wikipedia. Hann dvaldi hér á landi í haust í stutta stund og féll fyrir íslenska hestinum.

Fenrir frá Feti sló í gegn á Landsmótinu í Reykjavík árið 2018 þar sem hann varð annar í flokki fjögurra vetra stóðhesta og hlaut m.a. hina fágætu einkunn 10,0 fyrir hægt stökk og þá hlaut hann einkunnin 9,5 fyrir fegurð í reið og vilja og geðslag.

Í samtali við Árna Björn Pálsson knapa hestsins kom fram að það standi til að hann sinni þjálfun Fenris áfram og sýni hann í kynbótadómi í vor og er stefnan sett á Landsmót. Ekki hefur verið ákveðið hvort hesturinn fari erlendis í haust eða hvort Dimitri hyggist eiga hann hér á landi.

Talið er að kaupverðið sé um ein milljón evra sem er á gengi dagsins í dag 156.650.000 íslenskar krónur.

Viðbót: Eins og langflestir gerðu sér grein fyrir að þá var hér um 1.apríl gabb að ræða. Ástæða þess að enginn var látin hlaupa neitt var sú að samkomubann er í gildi og fólk beðið um að vera sem mest heima. Eiðfaxi þakkar fyrir góðar viðtökur í þetta eina skiptið á árinu sem má setja falsfréttir á netið.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<