Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum “Efnilegir og duglegir strákar með góðann hestakost”

  • 1. október 2022
  • Fréttir
Viðtal við Pál Braga Hólmarsson og Kristófer Darra Sigurðsson, liðsmenn lið Austurkots/Storm Riders í Meistaradeildinni

Meistaradeildin í hestaíþróttum mun hefja göngu sína í lok janúar á næsta ári. Liðin eru farin að taka á sig mynd og heyrði blaðamaður í þeim Páli Braga Hólmarssyni og Kristófer Darra Sigurðssyni en báðir eru þeir liðsmenn í breyttu liði Skeiðvalla / Storm Rider sem heitir nú Austurkot / Storm Rider.

Liðsmenn voru þeir Davíð Jónsson, Sigursteinn Sumarliðason, Matthías Leó Matthíasson, Páll Bragi og Janus Halldór Eiríksson en þeir hafa allir ákveðið að hætta í deildinni fyrir utan Pál Braga sem fann sér fjóra nýja liðsmenn.

“Þetta kom þannig til að breytingar voru hjá strákunum sem voru í liðinu og þeir eftirlétu mér hvort ég vildi halda áfram og setja saman nýtt lið. Það eru nokkrir búnir að fara í gegnum skannan hjá mér,” segir Páll Bragi en nýir liðsmenn með eru þeir Jóhann Ragnarsson, Hafþór Hreiðar Birgisson, Kristófer Darri Sigurðsson og Matthías Kjartansson.

“Þetta eru allt efnilegir og duglegir strákar með góðann hestakost. Þeir eru búnir að keppa töluvert og eru sprækir. Aðrir sem ég leitaði til voru mistilbúnir þannig að þetta eru helstu ástæðurnar fyrir valinu. Þetta eru strákar sem ég þekki og hef kynnst þeim við aðrar aðstæður. Þeir eru líka búnir að vera standa sig vel í keppni undanfarið og eru hungrað í að gera vel,” bætir Páll Bragi við en segist vera spenntur fyrir vetrinum. “Það er gaman að gefa ungum knöpum tækifæri á að spreyta sig. Það getur oft verið pínu skjálfti fyrir nýja knapa að keppa þarna. Við Jói erum reynslu miklir og getum stutt við þá og eflaust lært eitthvað af þeim líka. Þetta verður mjög gaman.”

Þeir Hafþór Hreiðar, Matthías og Kristófer eru allir að stíga sín fyrstu skref í deildinni í vetur. Ungir að árum en þó með töluverða keppnisreynslu innanborðs. Hafþór varð m.a. Íslandsmeistari í fimmgangi ungmenna í fyrra, Matthías vann m.a. fjórganginn í Suðurlandsdeildinni í ár og Kristófer varð tvöfaldur Íslandsmeistari í sumar í 100 m. skeiði og samanlögðum fimmgangsgreinum í ungmennaflokki. Kristófer er jafnframt yngsti keppandi liðsins en hann verður á sínu síðasta ári í ungmennaflokk þegar hann keppir í deildinni næsta vetur.

“Nei ég myndi ekki segja að ég væri stressaður. Ég hef komið inn þarna sem upphitunarhestur. Þetta er nokkuð það sama, ríða hringina og gera sitt besta. Kannski á það eftir að breytast þegar maður ríður í brautina, ég veit það ekki. Ég er fyrst og fremst bara ógeðslega spenntur og finnst þetta mikill heiður að fá að koma fram á þessu stóra sviði og spreyta mig þar,” segir Kristófer en hann mun tefla fram sama hestakosti og hann hefur verið með síðustu ár þá Ás frá Kirkjubæ, Gnúp frá Dallandi og Ófeig frá Þingnesi en hann varð Íslandsmeistari á Gnúp í 100 m. skeiði og Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum á Ás.

“Mér líst vel á liðið en við Hafþór vorum að vinna í Pulu hjá Jóa 2015 svo ég þekki þá vel. Við Matti erum í sama hestamannafélagi (Spretti) og ég hef alltaf vitað hver Palli er þó ég kannski þekki hann minnst. Mér líst vel á liðið og ég held við getum alveg verið sterkir. Erum allir með sterka hesta í einhverjar greinar og held við getum staðið okkur ágætlega,” segir Kistófer að lokum.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar