Ellefu hross hlutu 9.5 fyrir hófa
Nú þegar kynbótasýningum árið 2022 er lokið þá er gaman að renna yfir níufimmur og tíur ársins í einstökum eiginleikum. Næsti eiginleiki sem við ætluðum að taka fyrir er réttleiki en þar sem ekkert hross hlaut 9,5 eða 10 fyrir eiginleikann á árinu þá förum við beint í eiginleikann hófa.
Til þess að fá glögga mynd af því eftir hverju er verið að leita þegar eiginleikinn er metin er gripið niður í stigunarkvarða einstaklingadóma og lýsing á einkunninni 9,5-10 í þeim eiginleikum sem teknir eru fyrir hverju sinni.
Hófar
Við mat á hófum er skoðuð lögun hófanna og útlit bæði að framan og frá hlið sem og hvernig þeir er að neðanverðu, þ.e. hvelfing hófbotns, þykkt hæla og lögun hóftungu. Til þess að sem réttust mynd fáist af upplagi hófa er mikilvægt að þeir séu eðlilegir að vexti og vel hirtir. Rétt lagaðir hófar eru samhverfir, jafnir að lögun frá hófhvarfi og niður að neðri brún hófs en þó er tekið tillit til eðlilegs fráviks á milli innri og ytri hluta hófsins þar sem innri hlið má vera lítið eitt brattari en sú ytri. U.þ.b. sami halli er á tá og hæl og bæði fram- og afturhófar víkka lítillega frá hófhvarfi og niður. Halli á tá og hæl skal endurspeglast af halla kjúku og æskileg lengd hæls er 30-50% af lengd táar. Aftasti hluti hæla skal vera því sem næst samsíða breiðasta hluta hóftungu.
9,5 – 10
Afar öflugir, rétt lagaðir og heilbrigðir hófar. Hófveggur er þykkur og burðarmikill, sléttur og jafn. Hófhvarfið er breitt og hófurinn breikkar hæfilega niður að neðstu brún. Hælar eru þykkir, burðarmiklir og hæfilega langir með traustum hælstoðum og halli þeirra er hæfilegur. Þófar eru jafnir og breiðir, hófbotn er þykkur, hvelfdur og samhverfur og hóftunga er jafnvaxin og heilbrigð.
Alls hlutu ellefu hross á árinu einkunnina 9,5 fyrir hófa en ekkert hross hlaut einkunnina 10,0 í ár og ekkert hross hefur hlotið 10 fyrir hófa síðan 2011.
Listi yfir þau hross sem hlutu 9,5 fyrir hófa
Nafn | Uppruni í þgf. | Sýnandi |
Dagsbrún | Skíðbakka III | Teitur Árnason |
Dama | Hæli | Jakob Svavar Sigurðsson |
Eldur | Kvíarhóli | Viðar Ingólfsson |
Fróði | Brautarholti | Hjörvar Ágústsson |
Hrollur | Bergi | Teitur Árnason |
Kórall | Hofi á Höfðaströnd | Þorsteinn Björn Einarsson |
Rómur | Auðsholtshjáleigu | Þórdís Erla Gunnarsdóttir |
Sóli | Þúfu í Landeyjum | Guðmundur Friðrik Björgvinsson |
Staka | Hólum | Mette Camilla Moe Mannseth |
Sýn | Hólum | Þorsteinn Björnsson |
Vigri | Bæ | Viðar Ingólfsson |
Hinir eiginleikarnir:
Hæfileikar
Tölt
Brokk
Skeið
Stökk
Samstarfsvilji
Fegurð í reið
Fet
Hægt tölt
Hægt stökk
Sköpulag
Höfuð
Háls / herðar og bógar
Bak og lend
Samræmi
Fótagerð
Réttleiki – ekkert hross hlaut 9,5 eða 10 á árinu fyrir þennan eiginleika.
Hófar
Prúðleiki