Gæðingafimi

  • 1. mars 2021
  • Fréttir
Opið bréf til Landssambands hestamannafélaga

Það er bráðskondið sem höfundur að gæðingafiminni að þurfa í gegnum
opinber skrif að leiða slappa hönd LH við hið þarfa verk að innleiða
keppnisgreinina í regluverk LH. Þetta er í raun óskiljanlegt ferðalag og
aðför að höfundarrétti, sem note bene hefur lagastoð. Furðulegt er þetta
í ljósi þess að nefndarmaður í reglunefnd LH sagði í opinberu viðtali í
sjónvarpi að reglur gæðingafiminnar séu heimatilbúnar. Ekki er hægt að
fá betra hrós eða betri staðfestingu á að regluverkið sé upprunalegt og
einstakt, sem er einmitt grundvöllur höfundarréttar. Af þessum orðum
nefndarmannsins má ljóst vera að LH og nefndarmenn brjóta meðvitað og
kinnroðalaust á höfundarrétti með störfum sínum. Að lágmarki þarf
nefndin að bera sínar hugmyndir undir höfund til samþykktar áður en þeim
er komið í umferð.
Nú er komin enn ein uppfærsla reglnanna í kjölfar gagnrýni eftir
prufumót LH sem nýlega var haldið. Í nýrri útgáfu hefur verið létt á
kvöðum um magn æfinga og betur hefur verið tryggt að afköst verði hluti
af sýningum þeirra sem keppa til sigurs. Eins sé ég að felld hefur verið
út skyldan til að sýna opinn sniðgang á tölti. Þetta er að byrja að
líkjast gæðingafimi.

En þótt hlutirnir séu að ganga í rétta átt stendur ófrumleg uppsuða
reglunefndarinnar úr freeslyle regluverki stórhestanna okkur enn fyrir
þrifum. Þessi uppsuða er enn beinagrind reglnanna og grunnur að
stigskiptingu keppninnar.
Eftir að nefndin tók tillit til þeirrar gagnrýni að ókvarðaðar æfingar
leiddu til flatneskju og áhættufælni er nú bæði stigskipting og ný
styrkkvörðun æfinga inni í regluverkinu. Hvorutveggja er auðvitað óþarfi
og eykur flækjustig.
Reglunefnd LH ákvað að styrkkvörðunin myndi einungis ná til efsta stigs
keppninnnar. Svo sem skiljanlegt er því ef styrkkvörðunin hefði verið
látin ná yfir öll stigin þrjú væri stigskipting keppninnar augljóslega
óþörf. Kvörðunin sæi til þess að erfiðari æfing fengi betra lokaskor
óháð getustigi knapa.

Þá bregður svo við, sem afleiðing flækjunnar, að keppandi á öðru stigi
sem sýnir tiltekna æfingu jafn vel og keppandi á þriðja stigi mun alltaf
fá aðra niðurstöðu, aðra lokaeinkunn. Þar sem kvörðunin á þriðja stigi
gengur frá 1 til 1,4, en engin kvörðun er á öðru stigi, mun keppandi á
þriðja stigi alltaf fá betra skor heldur en keppandi á öðru stigi fyrir
sömu æfingu jafn vel framkvæmda, t.d. krossgang og sniðgang á tölti eða
brokki. Hvers konar skilaboð eru þetta? Við vitum að lengi hefur loðað
við að knapaelítan fái einkunnir umfram það sem minni spámenn fá fyrir
sömu sýningu. Við vitum líka að knapi þarf að koma með hest oft fram til
að fá sína réttu einkunn. Það er eins og dómarar dæmi oft á tíðum ekki
eftir því sem fyrir augu ber heldur sé til staðar ákveðin ósýnileg
seigja. Einkunnir fari rólega upp og rólega niður. Hestar og knapar
stallist eftir því sem kaup gerast í umræðunni, innan dómaraelítunnar.
Þetta er mein og agnúi sem seint virðist vera hægt að skera út úr
hestaíþróttinni. En nú bregður svo við að þessi munur er skrifaður inn í
regluverk LH, hinar nýju reglur LH fyrir gæðingafimi. Regluverkið
skilgreinir hreinlega mun á einkunnum milli elítuknapans og þess sem er
neðar á stalli. Regluverkið fellur þannig á hlutlægnisprófinu. Það má
aldrei verða að stórkallaleg mismunun og brot á hlutlægni sé hluti af
regluverki keppnisgreinar LH.

Annað hvort verður kvörðunin að ná niður í annað stigið og jafnvel
fyrsta eða við verðum að fella stigskiptinguna niður, sem er mun betri
lausn að mínu mati. Stigskiptingin er eflaust ágæt fyrir skólastarfsemi,
en það er algerlega ofaukið að búa til þrjár keppnisgreinar
gæðingafiminnar. Er ætlast til að á Íslandsmóti verði keppt í öllum
þremur stigunum í yngri aldurshópum? Það yrði mikið skrímsli. Eða er
hugsunin sú að í unglingaflokki t.d. yrði einungis keppt í gæðingafimi,
öðru stigi? Unglingar fengju þar með ekki að sýna afköst í sýningum
sínum? Reglunefnd LH verður að gera sér grein fyrir að keppni í
gæðingafimi mun ekki fara fram með öðru sniði en keppni í öðrum greinum.
Börn og unglingar fá fulltamda hesta til umráða og áhugafólk keppir
sömuleiðis á fulltömdum hestum, sem eru færir um að sýna afköst.
Gæðingafimi er ekki tamningakeppni þar sem meistaraflokksknapar keppa á
fyrsta stigi á lítið tömdu, á öðru stigi á aðeins meira tömdu og á
þriðja stigi á fulltömdu. Gæðingafimi er keppnisgrein fyrir íslenska
reiðhestinn, íslenska gæðinginn. Skipting flokka eftir getu innan LH
liggur þegar fyrir, sbr. börn, unglingar, ungmenni, áhugamenn og opinn
flokkur.

Regluverkið er ónothægt eins og það liggur fyrir. Það hefur of hátt
flækjustig og fellur á hlutlægnisprófinu. Aðgengismöguleikar eru auk
þess heftir að óþörfu. Mun ég fjalla betur um það og fleira í öðru
innleggi.

Örn Karlsson

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar