Herjólfur, Hákon og Herkúles hafa sett viðmið í minni ræktun

  • 25. desember 2020
  • Fréttir

Helgi Jón Harðarson og unghryssan Helma frá Ragnheiðarstöðum, undan Boða frá Breiðholti og Hendingu frá Úlfsstöðum. Mynd: Eiðfaxi

Viðtal við Helga Jón Harðarson

Helgi Jón Harðarson og fjölskylda sem kenna hrossarækt sína við Ragnheiðarstaði, urðu í 2. sæti þeirra ræktunarbúa sem voru tilnefnd til ræktunarbús ársins árið 2020. Helgi í Hraunhamri eins og margir þekkja hann kom inn í hestamennskuna í Sörla í Hafnarfirði fyrir um tuttugu árum síðan. Helgi ástamt Freyja eiginkonu sinni og dætrum, stunda ræktun sem þau kenna við Ragnheiðarstaði í Flóa en þau festu kaup á þeirri jörð árið 2005.

Hestasjúkur unglingur
Þegar Helgi var unglingur var hann mikið í kringum frændfólk sitt þau Jón Hafdal og fjölskyldu sem voru með hesta og þar af nokkra kappreiðahesta í Hafnarfirði. Hann fékk að moka og hirða um hrossin og fara með á kappreiðar eins og á Skógarhólum og í Reykjavík.

„Þrettán ára gamall var ég orðinn smitaður af hestabakteríunni og fór í sveit hjá Ingimari á Jaðri og eftir það sumar ákvað ég að reyna að eignast hest. En þá um haustið fluttum við fjölskyldan í Norðurbæinn í Hafnarfirði sem er langt frá hesthúsahverfi Sörla, þannig að það varð aldrei neitt af þessum áformum mínum og á endanum valdi ég fótbolta og körfubolta í staðinn og hvarf úr hestamennskunni  í áratugi,“ segir Helgi.

Helgi var þó ekki af baki dottinn og kom aftur í hestamennskuna síðar, þá 37 ára gamall og leigði pláss hjá Inga tannlækni vini sínum í Hlíðarþúfum, eldra hesthúsahverfi þeirra Sörlamanna. Þar var hann með tvo hesta, gelding sem var hans aðalreiðhestur og fyrstu verðlauna meri, Dimmu frá Kollugerði sem hann seldi þó fljótlega. Þar kynntist hann þeim Hannesi Sigurjónssyni og Ingu Christinu Campos í Hamarsey, og eiga þessar tvær fjölskyldur ásamt Viðju Hrund Hreggviðsdóttur heiðursverðlaunahryssuna Þrumu frá Hólshúsum.

Ekki aftur snúið
Helgi keypti sitt fyrsta hesthús tveimur árum síðar í nýja hesthúsahverfinu í Sörla og fljótlega þurfti hann að skipta og stækka við sig. Ekki aðeins var hestabakterían komin til að vera heldur hafði ræktunarbakterían gert vart við sig.


Fanndís Helgadóttir ásamt stóðhestunum Arði frá Brautarholti og Herkúles frá Ragnheiðarstöðum. Mynd: Facebook/Ragnheiðarstaðir

„Við fjölskyldan keyptum Ragnheiðarstaði árið 2005 og þá var aðstaða okkar orðin frábær. Í dag erum við með 36 hesta hús í Hafnarfirði og rúmlega 200 ha fyrir austan. Ætli við eigum ekki um 50 hross í það heila. Fyrstu ræktunarhryssurnar í Ragnheiðarstaðaræktuninni voru þær Hending frá Úlfsstöðum og Sif frá Prestsbakka, síðan fljótlega þær Hátíð frá Úlfsstöðum og Þruma frá Hólshúsum. Fyrsta folaldið kom sumarið 2005 það var Hrund frá Ragnheiðarstöðum undan Hendingu og Orra frá Þúfu í Landeyjum,“ útskýrir Helgi og heldur áfram: „Ég mætti á LM2000 og sá þar Kolfinn frá Kjarnholtum I og Orra frá Þúfu sem að mínu mati báru af stóðhestum þar og mig langaði strax að eignast hryssur undan/út af þeim. Hending er undan Jarli frá Búðardal Kolfinssyni og Hátíð er svo undan Kolfinni. Síðan hef ég notað Orra á þessar hryssur og það hefur reynst mér vel.“

Vonarstjörnurnar
Í dag er Hending orðin fullorðin, Hátíð er fallin frá og Þruma gæti átt 2-3 ár eftir í folaldseign. Hvað hryssur munu taka við og halda uppi merkjum Ragnheiðarstaðaræktunarinnar?

„Dætur Hendingar og Þrumu taka við af mæðrum sínum í ræktuninni okkar, þær Helga-Ósk og Hrund frá Ragnheiðarstöðum. Hávör Hátíðar- og Hrannarsdóttir fer beint í ræktun, hún er fædd 2014 og er hæst dæmda afkvæmi móður sinnar með  8,46 í aðaleinkunn. Í sumar keyptum við hryssuna Dimmu frá Hjarðartúni, undan Spuna frá Vesturkoti og Dögg frá Breiðholti Gbæ. Hún vakti athygli mína á Landssýningunni í sumar og foreldrar hennar eru Landsmótssigurvegarar bæði og hafa vakið mikla athygli, svo þar sæki ég í gott blóð,“ segir Helgi augljóslega spenntur fyrir framhaldinu.


Þyrnirós frá Ragnheiðarstöðum, undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Þrumu frá Hólshúsum, knapi er Jakob Svavar Sigurðsson. Mynd: Facebook/Ragnheiðarstaðir

Á árinu sem er senn að ljúka voru sýndar fimm hryssur frá Ragnheiðarstöðum og fóru þær allar í 1. verðlaun og var meðaleinkunn þeirra á bilinu 8,30-8,40. Helga fæðast 3-5 folöld á ári. Í sumar voru þau þrjú; brún hrssa undan Helgu-Ósk og Hrannari frá Flugumýri II, hestur undan Ísak frá Þjórsárbakka og Heiðu Hendingardóttur og hestur undan Gleði frá Holtsmúla og Hrannari en Gleði á Helgi með Pálma Harðarsyni. Hending fór síðan undir Ský frá Skálakoti en kom tóm frá honum og undir lok sumars fór hún undir Hróð frá Refsstöðum en kom tóm þaðan einnig. Helga-Ósk fór undir Ljúf frá Torfunesi og Heiða undir Viðar frá Skör og er fengin.

„Yfirleitt ákveð ég ekki næsta stóðhest á hryssu fyrr en hún hefur kastað. Ég hef notað Hrannar frá Flugumýri II mikið enda hrifinn af honum, stór og fallegur með afburða gangtegundir og gangskil. Nú þegar Kveikur frá Stangarlæk er farinn af landi brott, sé ég mikið eftir að hafa ekki notað hann. Ég er einnig mjög hrifinn af Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum, hann kom mér skemmtilega á óvart, ég hef notað hann tvisvar og sé ekki eftir því, frábærleg ættaður gæðingur og ekki skaðar að hann er með tvöfaldan Kolfinn í blóðinu. Ég hlýt að fá vakran hest með því að nota hann.“

Glódís Helgadóttir á hryssunni Helgu-Ósk frá Ragnheiðarstöðum. Mynd: Jón Björnsson

Ræktunarmarkmið
Helga finnst mikilvægt að allt ferlið í uppvexti, tamningu og þjálfun unghrossa gangi upp til að hægt sé að vænast árangurs. „Já, það þarf allt að ganga upp hreinlega. Uppeldið, atlætið og tamningin, allt þarf þetta að vera fyrsta flokks og það hef ég tileinkað mér með mín hross.

Þrír stóðhestar með fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi hafa á þessum 14 árum komið úr ræktun Helga, það eru þeir Hákon (m. Hátíð), Herkúles og Herjólfur (m. Hending). Það er nokkuð afrek fyrir tiltölulega smáa ræktun á stuttum tíma. Ræktunarmarkmiðið hans Helga er fasmikill töltari með einstakt geðslag.


Hákon frá Ragnheiðarstöðum á LM 2018, knapi er Fanndís Helgadóttir. Mynd: Facebook/Ragnheiðarstaðir

„Hestar eins og Herjólfur, Hákon og Herkúles hafa sett viðmið í minni ræktun og það er dýrmætt. Þeir eiga sameiginlegt að vera klárhestar, mjúkir en gengir og eru verðmætir, ég er þekktur fyrir að rækta klárhesta og ég er sáttur á þeirri leið sem ég er í minni ræktun. Ég verð að segja að ég er mjög stoltur af þessum hestum, þeir eru merkisberar ræktunar okkar í dag. Í minni ræktun horfi ég mikið í töltið, það þarf að vera úrvals og er verðmætasta gangtegundin. Vilji, geðslag  og fegurð í reið skiptir miklu máli líka og ekki er verra ef mikill fótaburður fylgir með,“ segir Helgi.

Vonarstjörnur framtíðarinnar

Það eru tryppi sem bera af öðrum í flestum stóðum og Helgi ber vonir til að nokkur tryppi í hans stóði þróist vel á næstu árum. Hann nefnir tvö stóðhestsefni.

„Annar er Hendingarsonur undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og hinn er undan Loka frá Selfossi og Hátíð. Þeir eru áberandi fallegir og spennandi ef þeir þróast áfram vel. Svo erum við byrjuð á 3v hryssu undan Hendingu og Boða frá Breiðholti Gbæ, einnig Sjóðsdóttur undan Hrund, Hákonssyni undan Gleði frá Holtsmúla og Boðasyni á fjórða vetur undan Helgu-Ósk. Helga Una Björnsdóttir, Jakob Svavar Sigurðsson, Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir, Árni Björn Pálsson, Birgitta Bjarnadóttir og Viðja Hrund Hreggviðsdóttir hafa tamið og þjálfað fyrir mig síðustu ár en hér áður fyrr voru þau Viðja Hrund og Erlingur Erlingsson mitt helsta samstarfsfólk og það reyndist mér mikil gæfa að eiga þau að.“

Að lokum
Helgi segist vera sáttur við stöðu mála í ræktun íslenska hestsins í dag.


Hrönn frá Ragnheiðarstöðum, knapi er Jakob Svavar Sigurðsson. Mynd: Islandpferdemagazin.de

„Við eigum að rækta verðmæt hross með gott geðslag og góð gangskil. Hrossin eru fallegri og stærri og mér finnst góð gildi vera að skila sér í ræktun dagsins í dag. Hvað varðar umfjöllun um hestinn þá finnst mér við geta tekið okkur á þar. Við þurfum að stíga mikilvæg skref í þá átt að fjölga iðkendum og í því sambandi líst mér vel á nýkjörin formann LH og vona að honum takist það sem hann ætlar sér í þeim efnum. Það er mikilvægt markaðsatriði fyrir alla hestamenn, að fjölga þeim sem stunda hestamennsku og hestaíþróttir og nýliðun er nauðsynleg því með henni kemur framþróunin.“

Að lokum hvetur Helgi alla hestamenn til að vera jákvæða, halda áfram að stunda sína hestamennsku og sérstaklega í þessu ástandi, njóta þess að vera með hestunum, ríða út, rækta og hafa gaman

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<