Hestamennirnir í landinu – Arnar Ásbjörnsson

  • 27. mars 2020
  • Fréttir

Hestamennirnir í landinu er liður sem var áður í tímaritum Eiðfaxa en hefur nú verið færður á vefinn. Tilgangurinn með honum er að kynnast hluta af því fólki sem myndar heim hestamanna.

Allir fá sömu átta fyrirfram ákveðnu spurningarnar. Arnar Ásbjörnsson ætlar að ríða á vaðið.

 

Fullt nafn og hestamannafélag:

Arnar Ásbjörnsson – Borgfirðingur

Hvað er þitt eftirminnilegasta atvik tengt hestamennsku?

Það er nú ekkert eitt. Það er hins vegar ótrúleg tilfinning fyrir reiðklaufa að komast á bak góðum og vel þjálfuðum hesti. Ég hef verið svo heppinn að fá að prufa nokkra svoleiðis, þó ég hafi nú engum stórsigrum náð um tíðina öðrum en þeim að komast klakklaust á og af þessum gæðingum.

Af hverju stundar þú hestamennsku?

Í upphafi er eitthvað við þessa skepnu sem er magnað og laðar mann að henni. Maður á hesti er kóngur um stund og allt það. Margir virðast hins vegar búnir að gleyma þeim pakka og mæla ánægjuna af hestamennskunni í einhverju allt öðru, svo sem peningum, hvort svo sem það eru verðlaunapeningar eða skiptimynt. Þetta myndi ég segja að væri mesta ógnin sem steðjar að hestamennskunni í dag. Við virðumst flest fyrir löngu búin að gleyma því að þetta á að vera gaman.

Besti hestur sem þú hefur riðið?

Án alls vafa er það Hrynur frá Hrísdal.  Magnaður hestur á gangi sem ég var svo heppinn að fá að setjast nokkrum sinnum á.

Besti stóðhestur sem uppi hefur verið?

Hér væri mjög auðvelt að nefna Orra frá Þúfu og verja valið með bláköldum tölulegum staðreyndum en ég ætla þó að nefna tvöfaldan forfaðir hans Hrafn frá Holtsmúla. Tímamóta hestur.

Fimm ræktunarhryssur að eigin vali?

Hér væri fljótlegt að nefna Álfadísi frá Selfossi, Glettu frá Bakkakoti, Eldingu frá Lambanesi, Þernu frá Arnarhóli og Framkvæmd frá Ketilsstöðum en það væri óábyrgt af landlausum manni og ég nefni því bara Þögn mína frá Bjarnastöðum enda þýðir ekkert að girnast eigur annara.

Hvað skiptir máli í ræktun?

Byggingarlega er sterk yfirlína og framhæð eitthvað sem ég horfi mikið til. Eftir höfðinu dansa síðan limirnir og því algjör frumforsenda að höfuðið sé rétt skrúfað á. Mýkt er lykilatriði hvað ganglag varðar. Skörp gangskil og rými á gangi er sjálfsögð krafa og allt á þetta að geta verið hrossinu í blóð borið. Eðlisgóður íslenskur gæðingur. Fótaburður er síðan bragðgott krydd á þetta allt saman en fyrir mína parta er fátt ömurlegra en hágengir gangfatlaðir hestar.

Eftirminnilegasta landsmótið?

Ég er nú svo ungur að ég man varla fyrir húshorn. En kynbótahlutinn á Landsmóti á Vindheimamelum er ákaflega eftirminnilegur. Fjögurra vetra flokkur stóðhesta sérstaklega. Þar draup smjörið af hverju strái. Mögulega jafnsterkasti árgangur úr röðum stóðhesta hingað til. Góðærið holdi klætt í þessum góðhestum fæddum á því herrans ári 2007.

Arnar Ásbjörnsson

Arnar Ásbjörnsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar