„Hugmyndin kveiknaði hinum megin á hnettinum“ Fjarkennsla Rúnu

  • 26. apríl 2020
  • Sjónvarp Fréttir

Þann 21.apríl síðastliðinn litu hestamenn nýja fjarkennslusíðu Rúnu Einarsdóttur í fyrsta skipti. Margir reiðkennarar hafa nýtt tæknina við að koma á framfæri kennsluefni í Covid-19 ástandinu en hugmyndin á bak við fjarkennslusíðuna kveiknaði fyrst árið 2017 hjá Fanney Hrund Hilmarsdóttur og Steinþóri Runólfssyni þegar þau dvöldu í Nýja-Sjálandi.

Skortur á möguleikum til að fræðast víða um heim

Eiðfaxi hafði samaband við Fanney Hrund og spurði hana út í ýmislegt tengt þessari nýju fjarkennslusíðu. Hvernig kviknaði hugmyndin að því að miðla kennslu á þennan hátt?

„Hugmyndin kviknaði í raun hinum megin á hnettinum. Árið 2017 ferðaðist ég (Fanney) ásamt eiginmanni mínum um Nýja-Sjáland áður en við komum okkur fyrir í Ástralíu þar sem við bjuggum í ár. Í þessum heimshluta kynntumst við fjölmörgum Íslandshestaeigendum.

Það rann fljótt upp fyrir okkur að töluvert óöryggi ríkti í þjálfun þessa áhugasama fólks á sínum íslensku hestum. Það upplifði sig í ákveðnu „þekkingartómarúmi“. Þeir allra áhugasömustu höfðu tekið sig nokkrum sinnum saman og fengið reiðkennara frá meginlandi Evrópu. Vegna kostnaðar og tíma við að flytja reiðkennara til suðurhvels jarðar var þetta sjaldgæfur viðburður og það þekkingargat sem myndaðist á milli heimsókna reyndist mörgum þungbært.

Mér þótti synd að fólk – sem hafði svo mikla ástríðu fyrir íslenska hestinum okkar að það hafði lagt á sig að flytja hann frá Íslandi eða meginlandi Evrópu eða leitað einn af fáum þeirra uppi á suðurhveli jarðar – hefði ekki tækifæri til að þróa sig og sinn hest áfram.  Á svipuðum tíma var Rúna heima á Íslandi að sinna reiðkennslu bæði innan og utan landsteinanna. Það hafði tekist með okkur mikill vinskapur þar sem við hjónin unnum á búgarði hennar í Þýskalandi sumarið 2011. Ég vissi að hún var þreytt á ferðalögunum og þeytingnum sem fylgdi reiðkennslunni sem kom meðal annars til vegna verkja eftir að hún hálsbrotnaði sumarið 2012. Hún var farin að draga verulega úr kennslunni.  Ég hafði fengið að skyggnast í viskubrunn Rúnu á meðan við unnum fyrir hana og mér þótti það missir fyrir Íslandshestamennskuna ef þessi mikla reynsla hennar og úrræðasemi fengi ekki að nýtast. Að sama skapi langaði mig að halda utan um gullkornin sem flugu um loftið í vinnustundum með Rúnu og ekki síður allar sögurnar af þekktum hestum og hestamönnum sem Rúna hefur fengið að kynnast á sínum ferli. Fyrir sveitastelpu sem hafði alist upp úti í kynbótabrekku og yfir gömlum stóðhestablöðum voru kaffitímarnir á Forstwald eins og baksviðspartý með Bítlunum. En í stað Bítlanna voru það Dimma frá Gunnarsholti, Angi frá Laugarvatni, Orri frá Þúfu og fleiri sem voru aðalnúmerið. Svo, þegar við komum aftur heim, stakk ég upp á að skoða verkefni sem fæli í sér sameiginlega lausn á þessum ferðalögum hennar og vanda þeirra sem búa við hindrað aðgengi að reiðkennslu. Rúna bara brosti og sagði: „Flott, mér líst vel þetta!“ Svo hikaði hún og bætti við: „En bara ef við gerum þetta saman.“ Á því augnabliki sá hún eflaust fyrir sér hárreytingar yfir tölvunni. Rúnu gengur nefnilega mun betur að eiga við hesta en tæki, svo við orðum það pent. Úr varð samstarf reiðkennaraheila Rúnu og tölvuhanda Fanneyjar. Ég held við vegum hvora aðra ágætlega upp þar.“ Segir Fanney og er greinilega áhugasöm um þetta verkefni sem nú er orðið að veruleika.

 

Jafnir möguleikar óháð staðsetningu

En hvert er aðalmarkmiðið með síðunni. „Þessi hugmynd um að ná til hestafólks á suðurhveli jarðar og nemenda Rúnu á meginlandi Evrópu þróaðist fljótt yfir í þá hugmynd að byrja á að ná til hestafólks á Íslandi.  Við erum báðar aldar upp úti á landi og í brjóstum okkar bjó því löngun til að jafna stöðu hestafólks á Íslandi burt séð frá búsetu, sérstaklega þeirra yngri sem etja kappi við þá sem hafa óhindrað aðgengi að reiðkennslu allan ársins hring. Þrátt fyrir að við höfum séð gríðarlega framþróun síðustu ár í námskeiðahaldi og almennu aðgengi að fræðslu á sviði hestamennsku – þá er enn fullt af áhugasömu og öflugu hestafólki um allt land sem á erfiðara með að fá jafna og samfellda aðstoð. Hví skyldu þeir knapar ekki fá sömu tækifæri til að þróa sig og hest sinn – ef sá möguleiki er fyrir hendi? Grunnmarkmiðið er því að ná til hvers sem er, hvar sem er, hvenær sem er. Megináherslan felst í að kalla fram rétt hugarástand knapa og hests umfram ákveðinn stað, stund eða aðstæður til þjálfunar. Annað meginmarkmið okkar er að stuðla að umhverfisvænni reiðkennslu þar sem klipptur er út sá liður sem kallar á tímafrek, kostnaðarsöm og mengandi ferðalög á milli lands- eða heimshluta. Tækninni fleygir stöðugt fram og við teljum að reiðkennsla muni færast í síauknu mæli á hið stafræna form, meðal annars með tilkomu svokallaðra eltimyndavéla og annars tæknibúnaðar. Síðast en ekki síst er það meginmarkmið okkar að stuðla að betri samskiptum og samkvæmni í samskiptum knapa og hests. Af því leiddu tvær þjónustuleiðir. Annars vegar Reiðkennsluáskrift þar sem nemandinn fær einstaklingsmiðaða, samfellda reiðkennslu sem byggir á sendingu myndbanda, stöðumati, markmiðasetningu, sendingu reglulegra reiðtímaseðla, fyrirspurna og athugasemda. Hins vegar Fræðsluáskrift sem er ætlað að vera örvun og hugvekja fyrir þá sem langar að taka þátt í fræðasamfélagi um íslenska hestinn.  Með Fræðsluáskriftinni gátum við samtvinnað þetta markmið um bætt samskipti knapa og hests og markvisst utanumhald um gullkornin og sögurnar. Inni á Fræðsluvefnum getur því að líta hinar fyrstu færslur í hest-íslenskri orðabók, þar sem gerð er tilraun til að leggja grunn að sameiginlegu tungumáli knapa og hests með sanngirni og samkvæmni að leiðarljósi, greinar sem unnar eru af Rúnu og birtar reglulega, myndefni sem unnið er í samstarfi við Baltasar Breka kvikmyndatökumann og Söndru Steinþórsdóttur leikstjóra, gullkornasafn Rúnu og annarra reiðkennara um heim allan og sögustund. Í fyrstu færslu sögustundar birtum við til dæmis söguna af því þegar ungur foli, Orri frá Þúfu, lenti óvænt í þjálfunarhópi Rúnu á Stóðhestastöðinni og hvernig hinn (fyrst um sinn) gangtregi foli tók mjög svo óvænta stefnu.

Í heild sinni snýst verkefnið því í raun um reiðkennslu og fræðslu á þínum stað, á þinni stund, á þínum forsendum – en fyrst og fremst – á forsendum hestsins.“ En hvernig er best fyrir fólk að bera sig að vilji það fá fjarkennslu hjá Rúnu í gegnum vefinn.

„Við höfum nánast fyllt í öll pláss í Reiðkennsluáskrift. Við hvetjum þó fólk til að kynna sér áskriftina og skrá sig á lista hér:

https://www.fjarkennslarunu.is/reidkennsluaskrift/

 

Við tökum inn nemendur jafnt og þétt um leið og færi gefst.  Hins vegar getum við tekið á móti ótakmörkuðum fjölda í Fræðsluáskriftina. Við viljum því endilega hvetja fólk til að kynna sér hvað hún hefur upp á að bjóða og skrá sig hér:

https://www.fjarkennslarunu.is/fraedsluaskrift/

Til stendur að bjóða upp á áskrift á ensku í haust og mögulega á þýsku í framhaldinu.

Við erum þakklátar og auðmjúkar yfir þeim ótrúlega jákvæðu viðbrögðum sem Fjarkennsla Rúnu hefur fengið á þessum fyrstu dögum. Fyrst og fremst er ég (Fanney) glöð með að til hafi orðið vettvangur sem heldur utan um þá reynslu sem Rúna hefur öðlast á löngum ferli og að fólki um allan heim verði gert kleift að halda áfram, eða byrja, að nýta sér þá reynslu – þó það sé nú á örlítið breyttum forsendum.“ Eiðfaxi þakkar Fanney fyrir spjallið og óskar henni ásamt Rúnu Einarsdóttur og öllum sem að verkefninu koma til hamingju með nýja glæsilega fjarkennslusíðu. Hægt er að sjá kynningarmyndband á vefnum í spilaranum hér að ofan

Fanney Hrund Hilmarsdóttir og Rúna Einarsdóttir í léttri sveiflu

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar