Kosningar og allt að gerast

  • 24. september 2021
  • Fréttir
Föstudagspistill Hinna Sig

Það er bara eins og það sé alltaf föstudagur og ég missti meira að segja af þeim síðasta, sorrý Maggi Ben. Talandi um að vera Ben þá er maður sjálfsagt eitthvað alveg extra, Maggi okkar er náttúrulega geggjaður, svo er Bjarni örugglega flinkur og duglegur, en ég vill minnast á annan Ben og það er hann Gummi Ben.

Gummi Ben er snilldar týpa, og þannig var að við Beta vorum að keyra til dýralæknis með hest í morgun og heyrðum viðtal við Gumma Ben. Það er nefnilega þannig að þó það séu kosningar á morgun sem er mikilvægt og allt það að þá er líka síðasta umferðin í PepsiMax deild karla í knattspyrnu, og hún verður rosaleg. Gummi Ben var á Bylgjunni og það að hlusta á þennan mann tala um fótbolta er hrein unun, því ástríðan fyrir íþróttinni, hvernig hann getur gripið áheyrendur sína með lýsingum á því sem er að gerast er alveg magnað.

Þetta er það sem mig langar aðeins að tala um, það er einmitt ástríðan fyrir íþróttinni og hversu geggjaðir hlutir eru að gerast hjá okkur hestamönnum núna um þessar mundir. Það er svo létt að gleyma sér, og pæla ekki alveg hvað er í gangi því nú er haust og kannski smá pása hjá mörgum en þetta er einmitt tíminn sem allt er að lifna aftur líka. Nú eru námskeið að fara af stað út um allt, Reiðmaðurinn, knapamerki, alls kyns æfingar, frumtamningar og allt mögulegt. Salan er blómleg og von að vakna allsstaðar um efnileg tryppi, nýjar stjörnur á uppleið og svo fram eftir götum.

Við erum komin með heila sjónvarpsstöð, Alendis sem er farin í framleiðslu á þáttum auk þess að sýna frá mótum og sýningum með glæsibrag, Hjörvar okkar á Kirkjubæ er með hlaðvarp sem er snilld að hlusta á, Thelma Harðar með annað hlaðvarp,  Eiðfaxi er með umfjöllun og fréttaflutning alla daga og það virðist alltaf vera nóg um að vera.

Mér finnst létt að hrífast með þegar fólk talar um sportið sitt af mikilli innlifun, mér dauðlangaði til þess að vera geggjaður í fótbolta þegar ég heyrði í Gumma Ben í morgun, og mun fygljast með lokaumferðinni mjög spenntur þó ég haldi ekki einu sinni með Víkingi, en mikið óskaplega vona ég að þeir taki titilinn.

Ég var í brúðkaupi hjá flottu hestafólki fyrir nokkrum vikum síðan og hitta þar fyrir tvo heiðursmenn sem muna tímana tvenna í hestamennskunni. Annar þeirra sagði mér að hann væri ekki með nema um 20 hross á járnum núna og væri að róa sig aðeins í tamningunum því hann er að eldast. En ég átti skemmtilegt spjall við þessa snillinga sem eins og Gummi talar um íþróttina sína og lífsverkið af sömu ástríðu enn í dag, og eru á fullu í bransanum. Þetta er sjarminn við hestamennskuna, einu íþróttina sem ég þekki þar sem 20 ára knapar af hvaða kyni sem er keppa á jafningjagrundvelli við 70 ára knapa af hvaða kyni sem er án flokkaskiptingar. Myndin er af þessum heiðursmönnum sem ég hitti og ég lofa að ég hef sjaldan séð svona mikla reynslu á einni mynd.

Ég vona líka að kosningarnar fari vel, og veðrið verði ágætt og allt það en fyrst og fremst er ég hrikalega spenntur að sjá hvað allt er líflegt í hestamennskunni þó það sé bara lok september, sæll hvað veturinn framundan er þá spennandi….

Ég ætla að nota komandi pistla til þess að skrifa smá um reiðmennsku, taka fyrir nokkrar flottar æfingar sem eru gagnlegar og góðar og vonandi sá nokkrum gagnlegum fræjum inn í haustið hjá einhverjum knöpum.

Eigið geggjaða helgi, rock on,
Hinni

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar