Kristín Hermannsdóttir er í framboði fyrir Framsóknarflokkkinn

  • 24. september 2021
  • Fréttir
Hestamenn í framboði
Eins og flestir landsmenn vita þá eru kosningar framundan. Eiðfaxi hafði samband við nokkra hestamenn sem eru í framboði og fékk þá í smá spjall um stefnumál sín. Kristín Hermannsdóttir er næst en hún er í framboði fyrir Framsóknarflokkinn.

Hver ert þú og hver er þín saga í hestamennsku?
Ég heiti Kristín Hermannsdóttir og er 23 ára viðskiptafræðinemi við Háskóla Ísland. Ég hef stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini og var mjög ung þegar ég fékk að sitja í hnakkinum með mömmu og pabba í reiðtúrum. Ég er núna með hesta í Spretti, en ég er gamall Gustari sem sameinaðist síðan Andvara og myndaði hestamannafélagið Sprett.

Eins og ég sagði áður þá hefur fjölskyldan alltaf verið mikið í hestum. Ég eignaðist minn fyrsta hest, hann Mími frá Skeiðháholti sem afi minn ræktaði, þegar ég var ekki nema um 2 ára gömul og mynduðum við einstakt samband. Það mætti segja að þessi hestur hafi verið alhliða barnahestur og voru þó nokkuð margir sem tóku sín fyrstu skref í hestamennsku á honum.

Það má álykta út frá þessu að hestamennska sé mitt helsta áhugamál. Mér finnst mikilvægt í hestamennskunni að prófa allar hliðarnar á hestaíþróttinni. Í þeim skilningi á ég við að áhugasvið mitt í hestamennsku einskorðast t.d. ekki bara við keppni. Mér finnst ótrúlega gaman að keppa og var sérstaklega gaman þegar ég var að keppa á landsmótum og íslandsmótum, mér finnst líka fátt betra en að taka langa daga í leitum eða fara í góða hestaferð í fjölbreyttri náttúru Íslands með góðu fólki.

Nú ert þú í framboði til Alþingis. Hvernig kom það til?
Þetta byrjaði nú allt á því að ég tók sæti á lista Framsóknar í sveitarstjórnarkosningum árið 2018. Í kjölfarið var ég skipuð sem varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar í Kópavogi. Ég fór einnig að taka mikinn þátt í innra starfi Framsóknarflokksins þá helst í gegnum Samband Ungra Framsóknarmanna (SUF). Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími og alltaf heillast ég meira og meira af heimi stjórnmál.

Ég hef alltaf haft mjög ákveðnar skoðanir á hlutum og á einum tímapunkti stóð ég mig oft að því að vera skammast í hlutunum. Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á því að það gerist ekkert ef ég er bara heima að kvarta yfir hlutunum og það eigi frekar að gera hlutina öðruvísi. Ég ákvað því að gera eitthvað í þessu frekar. Þess vegna ákvað ég að bjóða mig fram. Mikilvægt er líka að ungt fólk taki virkan þátt í stjórnmálum því jú unga fólkið er framtíðin.

Hver er ástæðan fyrir því að þú valdir Framsóknarflokkinn?
Árið 2016 hlaut ég kosningarétt og voru þá einmitt Alþingiskosningar það árið, þá fór ég að kynna mér stefnur flokkanna sem voru í boði. Ég skráði mig í flokkinn árið 2016. Ég tengdi þá strax mest við Framsóknarflokkinn, það sem heillaði mig mest við Framsókn er að hann er miðjuflokkur, og er því ekki öfga flokkur til vinstri eða hægri. Mér fannst líka málefnin sem framsókn hefur verið að vinna með heilla mig mikið. Framsókn hefur líka sögulega séð verið sá flokkur sem hefur verið óhræddur við tefla fram ungu fólki og er duglegur í því að hvetja ungt fólk að láta heyra í sér.

Hvernig er ykkur búið að ganga í kosningabaráttunni?
Kosningabaráttan hefur gengið mjög vel þó ég segi sjálf frá. Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að kynnast fólki og fyrirtækjum í kjördæminu. Ég er búin að vera þræða kjördæmið með oddvitanum mínum honum Willum Þór sem hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Íþróttamál eru okkur Willum mjög hugleikin, eins og hann hefur oft komið inn á í sínum störfum. Í þessari kosningabaráttu höfum við lagt áherslu á að eiga samtal við íþróttahreyfingarinnar í kjördæminu. Við höfum einnig sótt marga íþróttaviðburði í baráttunni, þar sem ég hef dýpkað þekkingu Willums á hestaíþróttinni og Willum hefur á móti látið mig sitja undir frábærum leik greiningum á fótboltaleikjum, eins og þjálfaranum er einum lagið. Bakgrunnur Willums sem þjálfari hefur einnig heldur betur skilað sér inn í kosningabaráttuna, en hann hugsar sig ekki tvisvar um þegar það þarf að stappa stálinu í fólk og hvetja þau áfram. Það er því ómetanlegt að fá að starfa með honum í þessari baráttu.

Hvaða málefni eru það sem brenna mest hjá þér?
Það eru mörg málefni sem brenna hjá mér en eitt stórt mál hjá mér eru einmitt samgöngur. Þar sem ég og fjölskyldan mín höfum mikið verið að ferðast um landið og þá oftast með hestakerru með okkur hvort sem það er á leiðinni á keppnisvöllinn eða í hestaferð. Þá er mikilvægt að vegirnir og umferðaröryggið sé í lagi. Mikil uppbygging hefur verið núna síðustu ár í samgöngumálunum og er verið að byggja upp alls staðar. Mikið hefur áunnist núna á þessu kjörtímabili, en framkvæmda- og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið og það er hægt að gera enn meira. Öflugir og öruggir innviðir eru grunnurinn að betri lífsgæðum.
Við í Framsókn viljum bæta umferðaröryggi sem felur í sér meðal annars að fækka einbreiðum brúm á hringveginum svo þurfum við að halda áfram að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegaköflum landsins.
Núna eru líka framundan miklar umbreytingar í samgöngumálum meðal annars tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun vega á milli Hveragerðis og Selfoss, tvöföldun vegar um Kjalarnes.
Með öllum þessum breytingum getum við bæði aukið umferðaröryggið og létt á umferðinni á meðan við ferðumst um landið.
Matvælaöryggi skiptir mig miklu máli og nauðsynlegt er að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu sama í hverju hún felst. Einnig er mikilvægt er að fólk viti hvaðan maturinn þeirra kemur, og eigum við að styðja ennþá betur við íslenska matvælaframleiðslu. Stofnað verði nýtt landbúnaðar- og matvælaráðuneyti þar sem skógrækt og landgræðsla koma saman við eftirlitsstofnanir matvælaöryggis og landbúnaðar.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já. Núna er mikilvægt að allir nýti sér kosningarréttinn í komandi alþingiskosningum. Vil líka minna á að opið er fyrir kosningar utankjörfundar í Smáralind og Kringlunni til 22:00 og mæli ég með því að drífa sig sem fyrst á kjörstað en annars er það að kjósa 25. september. Ég er líka handviss um að framtíðin ræðst á miðjunni og þar verður Framsókn fremst í flokki.
Það er svo sannarlega best að kjósa Framsókn.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar