Miðsumarssýningum lokið – Frábær hross komu fram þessa viku!

  • 31. júlí 2020
  • Fréttir

Sólon frá Þúfum og Guðmundur Björgvinsson mynd: Nicki Pfau

Síðustu miðsumarssýningu ársins er nú lokið en hún fór fram á Gaddstaðaflötum við Hellu þessa vikuna og lauk með yfirlitssýningu í dag. 115 hross komu til dóms þessa vikuna og þar af 103 í fullnaðardómi.

Hæst dæmdi stóðhestur sýningarinnar var Sólon frá Þúfum en eins og Eiðfaxi sagði frá fyrr í vikunni hlaut hann hæsta hæfileikadóm ársins og næst hæstu aðaleinkunn ársins. Sólon er undan Trymbli frá Stóra-Ási og Kommu frá Hóli v/Dalvík en ræktendur eru Gísli Gíslason og Mette Mannseth en sýnandi var Guðmundur Björgvinsson. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,51, fyrir hæfileika 9,11 og í aðaleinkunn 8,90. 10,0 hlaut hann fyrir samstarfsvilja og 9,5 fyrir tölt. 9,0 hlaut Sólon fyrir háls,herðar og bóga, samræmi, brokk, skeið, greitt stökk, fegurð í reið og hægt tölt, stórglæsilegur alhliða gæðingur.

Hæst dæmda hryssa sýningarinnar er hin sjö vetra gamla Vör frá Vestri-Leirárgörðum. Eigandi og ræktandi hennar er Dóra Líndal Hjartardóttir. Þjálfari hennar er Karen Líndal Marteinsdóttir en Árni Björn Pálsson sýndi hryssuna. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,36, fyrir hæfileika 8,65 og í aðaleinkunn 8,55. 9,5 hlaut hún fyrir samstarfsvilja og 9,0 fyrir háls,herðar og bóga, tölt, brokk og fegurð í reið. Vör er undan Aðli frá Nýjabæ og Vár frá Vestri-Leirárgörðum.

Melódía frá Hjarðarholti hlaut hina sjaldgæfu einkunn 10,0 fyrir fet, sýnandi á henni var Elín Magnea Björnsdóttir hægt er að sjá myndband af sýningu hennar á feti með því að smella hér. Þá var Hylur frá Flagbjarnarholti sem hlotið hefur hæsta sköpulagsdóm frá upphafi sýndur á sýningunni og hlaut í aðaleinkunn 8,54. Hilmir frá Árbæjarhjáleigu II hlaut í aðaleinkunn 8,64, fimm vetra gamall, og er næst hæst dæmdi hestur ársins í þeim aldursflokki.

Þau hross sem hlutu 9,5 fyrir einstaka eiginleika á sýningunni, að þeim undanskildum sem búð er að nefna eru: Þoka frá Hamarsey hlaut 9,5 fyrir tölt og samstarfsvilja, Krafla frá Austurási hlaut 9,5 fyrir tölt, Drumbur frá Víðivöllum-fremri hlaut 9,5 bæði fyrir tölt og hægt tölt. Þá hlaut Lyfting frá Rauðlæk 9,5 fyrir bak og lend og hófa. Orkuhringur frá Hjarðartúni og Sif frá Stóra-Vatnsskarði hlutu 9,5 fyrir bak og lend og Hagur frá Helgatúni hlaut 9,5 fyrir hófa. Þá hlutu þau Óskabyr frá Húsavík, Hlekkur frá Flagbjarnarholti og Þróttur frá Syðri-Hofdölum 9,5 fyrir prúðleika.

Þann 17.-21. ágúst eru síðsumarssýningar áætlaðar á Hellu, Hólum og í Hafnarfirði en skráningu hrossa á þær lýkur þann 7.ágúst.

Sólon hlaut 9,5 fyrir tölt mynd: Nicki Pfau

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar