Mikilvæg málefni

  • 25. október 2020
  • Fréttir
Aðsend grein frá Ólafi Þórissyni

Nú bý ég að því að hafa starfað mjög mikið í félagskerfinu okkar. Í 10 ár verið formaður Geysis sem er eitt af þeim stóru hestamannafélögum innan LH og gjaldkeri Geysis í 2 ár þar á undan og varamaður í tvö ár samtals í 14 ár. Verið gjaldkeri stjórnar LH síðastliðin 6 ár og jafnframt gjaldkeri stjórnar LM ehf á sama tímabili, auk þess sem ég hef verið í keppnisnefnd LH í sex ár og þar af formaður keppnisnefndar LH síðastliðin 2 ár.  Ég hef því ágæta þekkingu á störfum landssambandsins og því víðtæka og góða starfi sem þar er unnið.

Hestasamfélagið okkar hér á Íslandi er gríðarlega fjölbreytt og mismunandi, allt frá stórum hesthúsahverfum í þéttbýli til dreifbýlisbyggðar útá landi. Allt þarf sinn hvata til að halda áfram og eflast, þróast og stækka. Hesturinn okkar þarf að gegna ýmsum störfum og henta til margra verkefna. Umhverfi okkar hestamanna er mjög mismunandi. Margir halda sína hesta í þéttbýli aðrir í dreifbýli. Það sem virkar í dreifbýli virkar kannski ekki í hesthúsahverfum þéttbýlisins og öfugt. Þrátt fyrir mismunandi verkefni og mismunandi aðstæður er snertiflöturinn alltaf hesturinn og ástríða fyrir honum. Hjá okkur í Landssambandi hestamannafélaga er pláss fyrir alla og allir verða að finna og vita að LH vinnur að málefnum hestamennskunnar á víðum grunni.

Ég ætla hér að fara yfir nokkur atriði sem ég tel að þurfi að leggja áherslu á. Þessi yfirferð er að sjálfsögðu ekki tæmandi fyrir okkar mál en gefa vonandi einhverja sýn á nokkur af þeim  verkefnum sem við þurfum að leggja áherslu á næstu árin.

Menntamál

Það sem hefur eflt hestamennskuna undanfarin ár er að víða er hestamennskan orðin valgrein bæði í grunn- og framhaldsskólum. Mjög mismunandi er hvernig nálgunin hefur verið og er það ekki endilega slæmt.  Við þurfum að búa til vettvang fyrir okkar lykilfólk í þessum skólum sem koma að hestabrautunum til að tala saman og efla hvort annað. Svo þarf að sjá til þess að samræmd sé viðurkenning á mati námsins til eininga sem teljast til stúdentsprófs líkt og er til dæmis með tónlistarnám og mat á þeim stigum sem nemendur í tónlistarnámi taka.

Ég vil sjá Landssamband Hestamannafélaga beita sér fyrir því að hestatengt nám  verði víðar í boði bæði í grunn- og framhaldsskólum.  Þetta nám verður að vera í boði fyrir reiðmenn á hinum ýmsu stigum reiðmennskunnar. Þetta væri frábært tækifæri fyrir ungt fólk sem vill kynnast hestamennskunni og fá alla sína hestamenntun metna þegar haldið er áfram á menntabrautinni.

Samgöngu og ferðamál

Einn angi hestamennskunnar er þar sem flestir geta fundið sig sem hluta af og það eru almennar útreiðar og hestaferðir. Held að það megi segja að nánast allir þeir sem stundað hafa hestamennsku hafi riðið út sér til ánægju og farið í eina hestaferð eða tvær. Sú fjárhæð sem Landssambandið fær frá ríkinu/vegagerðinni eru 75.000.000kr á árinu 2020 og dreyfast þær um landið allt til reiðvegamála. Reiðleiðir hér á Íslandi eru fjölmargar og eru mjög margar þeirra skráðar og hnitaðar inná kortasjá LH. Þar má finna lengd reiðleiðar, skála til að gista í og margt fleira. LH heldur utan um þessa þætti og með góðri og dyggri hjálp reiðveganefndar LH eru þessir hlutir í góðum málum. Reiðveganefndir víðsvegar um landið eru sífellt að vinna í reiðvegamálum hver á sínum stað og nýtir það fjármagn eins vel og kostur er. En það má ekki gleyma þessu þó vel gangi og áfram verður að herja á ríkið og vegagerðina að auka fjármagnið í þessa hluti því ekki veitir af. Í þessum hópi hestamennskunnar eru margir sem ekki eru í hestamannafélagi. Það er starf formanns LH og stjórnar LH að upplýsa mun betur þennan hóp um mikilvægi þess að vera í hestamannafélagi til að auka megi fjármagn til að halda reiðleiðum opnum og laga/viðhalda þeim reiðleiðum sem eru fjölfarnarstar. Einnig á þetta við alla reiðstíga á þéttbýliskjörnum víðsvegar um landið.

Kunnátta mín tengd reiðvegamálum í gegnum mitt hestamannafélag Geysir og einnig þar sem ég ferðast töluvert mikið um á hestum og fer nokkrar hestaferðir á hverju sumri, veit ég hvað það er mikilvægt að reiðleiðir séu auðveldar yfirferðar, áningarhólf þurfa að vera í góðu ásigkomulagi og reiðleiðir vel merktar, til að við hestamenn séum til fyrirmyndar hvar sem við komum og ferðumst um.  Einnig hvað þarf til að hlutir gangi vel og hvernig nýta megi það fjármagn sem best á hverjum stað.

Keppnismál

Annar angi hestamennskunnar er íþróttakeppnin og gæðingkeppnin. Þar er líka stór hluti hestamanna en það má segja að þessi hluti er allur innan Landssambands Hestamannafélaga því ekki er hægt að keppa nema vera félagsmaður í hestamannafélagi. Þau verkfæri sem LH hefur látið útbúa og þróa er sportfengur okkar keppniskerfi sem sífellt þarf umhyggju og fjármagn til að eflast og fylgja þeirri þróun sem þarf. LH-kappi er smáforrit og líka mikilvægt verkfæri fyrir alla keppendur og aðra áhugamenn um íþróttakeppni/gæðingakeppni til að fylgjast með gangi mála á þeim mótum sem eru í gangi hvar sem er á landinu. Einnig er sportfengur nú notaður í Svíþjóð og því auðvelt að fylgjast með niðurstöðum allra móta í Svíþjóð.  Það er starf formanns LH og stjórnar LH að passa uppá að þetta verkefni fái það fjármagn til að halda í við þá þróun sem nútíminn gerir kröfur til.

Reynsla mín tengd keppnismálum, bæði sem keppandi og þátttakandi í framkvæmd mótahalds, tel ég mig hafa kunnáttu til að vita hvað þarf til að þessi mikilvægi þáttur hestamennskunnar dafni og verði framúrskarandi í þeim nútíma sem við lifum í.

Tenging Landssambandsins og hestamannafélaga í landinu.

Samskipti á milli stjórnar LH og hestamannafélaganna hafa aukist mikið og upplýsingaflæði batnað. Hér vil ég koma á enn meiri samskiptum milli LH og hestamannafélaga á öllu landinu. Með meiri tengingu og samskiptum getum við eflt og staðið á bak við grasrótina í því sem vel er gert og hjálpað til á þeim stöðum þar sem þarf. Okkar helstu tækifæri til að tala saman eru landsþing LH og formannafundur. Sú breyting sem gerð var á formannafundi LH var að bjóða ásamt formanni hvers hestamannafélags, gjaldkera, fulltrúa æskulýðsnefnda og framkvæmdarstjóra hjá þeim hestamannafélögum sem hafa slíkan.  Þessi breyting varð til þess að töluvert meira upplýsingaflæði hefur orðið milli hestamannafélaga um allt mögulegt t.d. rekstur reiðhalla, æskulýðsmál og margt fleira. Ávallt má finna fleiri tækifæri til að efla og bæta þessi samskipti.

Tenging innan Landsambandsins

Mikið og gott starf er unnið innan nefnda sambandsins. Mis mikil virkni hefur verið í nefndum og mis mikil tengsl við stjórn.  Ég mun leggja áherslu á að virkja betur þær nefndir sem starfandi eru innan LH ekki síst þeirra sem hafa aðeins verið í lægð.  Okkar helstu tækifæri til að tala saman eru nefndardagarnir og mætti fjölga þeim tækifærum þar sem samtal stjórnar og nefnda fer fram. Þetta árið hefur verið mjög sérstakt eins og  við þekkjum og þurftum við að blása af nefndardaginn, ferð stjórnar um landið og Lands- og Íslandsmót svo eitthvað sé nefnt.  Allt okkar félagskerfi er haldið uppi af sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir að leggja hestamennskunni lið. Við þurfum að gera öllu þessu fólki enn hærra undir höfði en gert er. Allir verða að finna hversu dýrmæt þeirra vinna er og mun ég leggja mitt á vogaskálar til að svo verði.

Áframhaldandi gott samstarf milli Landssambandsins og samstarfsaðila hér innanlands sem og erlendis

Við sem höfum starfað lengi í þessum geira munum að það er ekki sjálfsagt að gott samstarf sé innan raða okkar hestamanna. Ég mun leggja áherslu á að varðveita það samstarf sem er við okkar samstarfsaðila bæði innanlands og erlendis. Við erum miklu sterkari ef við vinnum saman heldur en þegar við eyðum orkunni í deilur.

Að lokum

Það er mikilvægt að fólk með áhuga á félagsmálum hestamanna gefi kost á sér til starfa fyrir Landssamband Hestamannafélaga, þannig náum við að efla störf samtakanna í heild sinni og fáum sem flest sjónarmið uppá yfirborðið og getum tekið upplýstar ákvarðanir um framgang mála á hverjum tíma fyrir sig. Það er mikill fjöldi sjálfboðaliða sem halda félagskerfinu uppi. Ég ber mikla virðingu fyrir öllu þessu fólki og þekki þeirra störf. Við skulum vera þakklát fyrir hvernig greininni gengur þrátt fyrir ástandið. Það stefnir í að útflutningur hrossa verði upp undir 2000 hross á árinu sem er mikil aukning frá síðustu árum. Mikið er að gera hjá okkur tamningarmönnunum og víða er starfsemi í hesthúsum allt árið.

Það sem virðist oft gleymast í þessu öllu saman er afhverju við byrjuðum öll í hestum en það er félagsskapurinn, gleðin og skemmtunin sem fylgir því að vera í hestamennskunni. Þetta þarf að vera til staðar ef við ætlum að fjölga iðkendum í hestamennsku. Ég er ekki að tala um að það sé búið að vera leiðinlegt í hestamennskunni heldur erum við stundum orðin alltof alvarleg og erum að reyna að festa alla í sama forminu. Við eigum að gera þetta einfalt, fjölbreytilegt og frjálslegt en öruggt,  það er það sem gerir þetta skemmtilegt.  Ef við stöndum saman að því sem við öll erum að gera í hestamennskunni í dag mun okkur takast hægt og rólega að fjölga innan okkar raða. Fólk þarf að læra að umgangast hesta, fólk þarf að læra og finna hvað samveran við hesta getur gefið okkur mikið, fólk þarf að fræðast um hestinn og svo þarf fólk að fræðast um þá skuldbindingu sem er að eiga hest. Fólk sem hefur áhuga á að eignast sinn eigin hest mun kaupa hann á einhverjum tímapunkti, jafnvel hesthús og eitthvað fleira. En það þurfa ekki allir að kaupa hest, sumir myndu kannski bara vilja mæta í hesthúsið eins og mæta í ræktina.

Höfum þetta fjölbreytt, því það er ekki bara eitthvað eitt sem virkar.

Við erum algerlega á réttri leið. Höldum þannig áfram.

Ég býð fram mína reynslu og dugnað til að starfa fyrir hestamenn sem formaður Landssambands Hestamannafélaga næstu tvö árin. Ég mun leggja mig allan fram áfram sem hingað til.

Gjaldkeri Landssambands hestamannafélaga og formanns frambjóðandi.

Ólafur Þórisson Miðkoti

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar