„Stoltur og þakklátur“

  • 25. janúar 2022
  • Fréttir
Vital við nýjan aðstoðarþjálfara A-landsliðshóps LH, Ísólf Líndal

Ísólfur Líndal Þórisson er ný ráðinn aðstoðarþjálfari a-landsliðshóps Landssambands hestamannafélaga. Aðspurður segir hann sig vera spenntann og afar stoltann að hafa fengið þetta verkefni. “Fyrst og fremst er þetta mjög spennandi verkefni. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað um áður að gaman væri að komast í, svo ég er mjög ánægður með að vera boðið þetta tækifæri. Afskaplega stoltur og þakklátur og bíð spenntur eftir því að byrja vinna með Sigurbirni, landsliðsnefnd LH og ekki síst knöpunum í liðinu. Betur sjá augu en auga og það er alltaf gott að fá fleiri vinkla inn í umræðuna” segir Ísólfur sem er metnaðarfullur liðsmaður og vil sjá árangur, þó alltaf með hagsmuni hests og knapa að leiðarljósi.

Helstu verkefni aðstoðarþjálfara eru í grófum dráttum svipuð og þjálfarans en þau eru að sjá um allt utanumhald og skiplag í kringum landsliðshópinn en þegar kemur að lokaákvörðunum liggja þær hjá þjálfaranum, Sigurbirni Bárðasyni. Ísólfur hefur sjálfur verið knapi í landsliðinu en hann keppti fyrir Íslandshönd á Norðurlandamóti í Noregi árið 2016 en öll þau verkefnin sem fara fram á bakvið tjöldin eru honum ókunn. “Eina reynsla mín af störfum í kringum landsliðið er að hafa verið knapi í liðinu. Ég er mjög lítið inn í öðru málum og þeim verkefnum sem gerast á bakvið liðið en ég hlakka til að að takast á við öll þau krefjandi verkefni,” bætir Ísólfur við.

Ísólfur var ráðinn til starfa eftir að nýji landsliðshópurinn var myndaður en honum líst gríðarlega vel á hópinn enda frábærir knapar og hestamenn í honum. “Þetta eru fagmenn fram í fingurgóma með góða hesta. Ég á eftir að sjá hvaða hesta fólk er að stíla inn á en það er búið að selja mikið af gríðarlega góðum hestum úr landi og endurnýjun hjá mjög mörgum af okkar heitustu knöpum. Það eru líka knapar sem eru ekki í hópnum núna sem eru að fara af stað með lítt reynda hesta sem verða síðan kannski sjóðheitir á næsta ári og geta bæst í hópinn. Ég er því ekki einungis að fylgjast með knöpunum sem eru í hópnum, þó vissulega séu þeir undir smásjá, þá er ég líka að horfa á aðra,” segir Ísólfur og bætir við að það eigi eftir að koma í ljós hverjir styrkleikar og veikleikar liðsins séu og finna í góðan tíma þá sem passa vel inn í þau göt ef þau eru einhver. “Þegar líður á undirbúningstímabilið og við sjáum að það þarf að styrkja hópinn í einhverjum greinum þá gerum við það. Nú er keppnistímabilið að hefjast en allar deildirnar eru að fara í gang. Fyrsta mót í meistaradeildinni á fimmtudaginn svo maður verður límdur við skjáinn að fylgjast með,” segir nýji aðstoðarþjálfarinn að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar