Veðreiðar á Íslandi – frá orðum til athafna

  • 31. mars 2020
  • Fréttir

Kappreiðar njóta síaukinna vinsælda og er það mat margra að vegur þeirra myndi aukast mikið ef veðreiðar yrðu stundaðar að nýju hér á landi

Í síðustu viku birtist á vef Morgunblaðsins áhugaverð grein um það Svíar mali nú gull í íþróttabanni í gegnum veðreiðar.

Á Íslandi voru veðreiðar stundaðar um áratugaskeið og voru um tíma eitt helsta afþreyingarefni þjóðarinnar. Margir áhugamenn um veðreiðar hafa í gegnum tíðina talað fyrir því að koma á fót veðreiðum á nýjan leik. Í grein sem birtist í sjötta tölublaði ársins 2019 skrifar Kristinn Hugason hugleiðingar um að koma á fót veðreiða starfsemi hér á Íslandi og ber greinin heitið „Veðreiðar á Íslandi – frá orðum til athafna“.

Greinina í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.

 

Í þessari grein verður haldið áfram þar sem frá var horfið í greininni í síðasta tölublaði. Nú verður athyglinni beint að möguleikum þess að koma á veðreiðastarfsemi hér heima. Áður en lengra er haldið skal þó ítrekað að skrif mín hér í blaðinu eru alfarið á mína ábyrgð, skoðanir þær sem ég kem til með að setja fram byggjast á reynslu minni úr leik og starfi og á menntun minni en ég kem einnig til með að leyfa mér að setja fram skoðanir sem byggjast einfaldlega á því sem „mér finnst….“.

Íslensk reynsla

Í því sambandi mætti spyrja þriggja spurninga:

  1. Hvað hefur verið gert varðandi veðreiðar hér heima?
  2. Hvað má af því læra?
  3. Hverju breytir ný tækni, þ.e. veraldarvefurinn og netið?

Í fyrstu grein minni hér í blaðinu um þetta efni (4. tbl. 2019) segir frá veðreiðum hér heima í gamla daga. Öruggt má telja að þar hafi erlend áhrif haft mikið að segja hvoru tveggja þá í gegnum ferðalög manna út í heim og hvað þeir upplifðu þar, s.s. heimsóknir á veðreiðar en þó enn frekar hygg ég að heimsóknir erlendis frá hafi haft áhrif, ekki síst gesta af lystiskipum. Einnig fer sögum af því að stöku hestur af íslenskum stofni hafi tekið þátt í veðreiðum erlendis. Veðstarfsemi festi svo fyrst og fremst rætur hjá Fáki í Reykjavík og hjá Létti á Ákureyri bæði þessi félög höfðu opinbert leyfi til veðreiðahalds. Ekki var þó um að ræða nema stöku viðburði, einar kappreiðar á ári eða svo. Afskastageta við sölu veðmiða, útreikning veðstuðla o.þ.h. setti þessu öllu takmörk. Þegar sala og innlausn fór fram í veðstofu á mótssvæðinu og allir útreikningar voru unnir handvirkt. Svo takmörkuð sala í fámennu landi skapar aldrei mikla veltu og lítil velta gefur ekki möguleika á miklum hagnaði.

Veðreiðar voru svo til staðar á fyrstu landsmótunum eins og áður er komið fram og svo síðast í einhverjum mæli á veðreiðum Fáks á tíunda áratug síðustu aldar auk svo smávægilegrar tilraunar á vegum Hestamannafélagsins Andvara í Garðabæ rétt upp úr aldamótunum síðustu. Þar sem fengið var opinbert leyfi til veðreiðahalds og sett upp mótaröð. Þessari síðustu tilraun var hætt fljótt, m.a. vegna skorts á áhættufé.

Þetta er í stuttu máli samantekt á því sem hefur verið gert hér heima hingað til í þessu efni en hvað ítarlegri frásögn varðar er bent á fyrri greinar höfundar hér í síðustu tölublöðum Eiðfaxa eins og fyrr segir.

Mikið má af þessu læra. Ekki þá síst hversu mikilvægt er að hafa áhættufé til staðar við rekstur sem þennan. Gamla formið, að hestamannafélög reki og sé ábyrgt fyrir veðmálastarfseminni, gengur ekki upp lengur. Ný tækni skapar svo algerlega nýja möguleika í þessu sambandi; veraldarvefurinn, streymisveitur og snjalltæki hafa orsakað slíka byltingu að seint verður við jafnað. Að þessu verður og komið betur hér aftar í greininni.

Í heild má því segja að við séum í allt öðrum heimi hvað forsendur góðs reksturs í veðreiðahaldi varðar hér á landi, miðað við stöðu mála þegar þetta var síðast reynt. Fleiri hindrunum þarf þó að ryðja úr vegi.

Erlend reynsla og fyrirmyndir

Ekki ætla ég hér að endurtaka skrif mín frá síðustu grein um sögu og stöðu veðreiða erlendis en þó er fróðlegt að velta aðeins fyrir sér úr hvaða jarðvegi veðreiðarnar þar spruttu og bera það saman við Ísland.

Í þeim löndum þar sem veðreiðar náðu fótfestu voru nokkrar forsendur til staðar, þær helstu voru þessar, að í landinu væru til heppileg hrossakyn fyrir viðfangsefnið, samfara hestamennskuhefð, aðstæður í landinu gæfu tilefni til þessa svo og að þjóðin væri ekki almennt séð bláfátæk og peningar væru í umferð.

Allar aðstæður í þessa átt voru til staðar víða í Evrópulöndum, í Frakklandi og Þýskalandi, niður til Ítalíu, í Austurríki og austur um til Ungverjalands með sínum miklu sléttum og geysimiklu hestamennskuhefð og svo allt austur til Rússlands. Þarna voru hvoru tveggja stundaðar brokkveðreiðar á vögnum og stökkkappreiðar. Ekki má svo gleyma Englandi sem mest er þekkt fyrir stökkkappreiðarnar, s.s. hinar annáluðu Derby veðreiðar. Þessi menning fór svo vestur um haf með landnáminu þar. Í því stórkostlega landi tækifæranna, Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem allt óx og dafnaði, náði hestamennska og hrossarækt sér aldeilis á strik. Þar var hið mikla kyn Ameríska heitblóðsbrokkarans ræktað upp en það er í dag alþjóðlegt og keppt er á Amerískum heitblóðsbrokkurum í kerrubrokki á veðreiðum vítt og breytt um heiminn.

Þrátt fyrir allt þetta kvað ég þó upp úr með það í síðsata tölublaði Eiðfaxa að við Íslendingar þyrftum þó ekki að leita lengra en til Norðurlandanna hvað fyrirmyndir að veðreiðum varðar. Svíþjóð er einmitt í fremstu röð landa í heiminum í þessari íþrótt og atvinnugrein. Í Svíþjóð er afar rík hestamennskuhefð, hluti af skýringunni er að mikið af aðalsmönnum flutti til Svíþjóðar eftir Napoleonsstyrjaldirnar sem lauk 1815, með þeim festist enn ríkar í sessi Evrópsk hefð riddaraíþrótta sem rekja má allt til Rómaveldisins og þess vegna enn þá lengra aftur. Svíþjóð var jafnframt mikið herveldi (og er raunar enn í dag), hesturinn og riddarar gengdu lengi lykilhlutverki í hernaði. Skýringanna er þó víðar að leita en þar í landi hefur lengi, um aldir raunar, ríkt töluverð velsæld og þá er ekki einungis um að ræða sárafámenna yfirstétt, heldur umtalsverðan hóp velmegandi fólks. Margir höfðu því nokkur fjárráð og peningar voru í umferð. Landið var svo víða með náttúrulegt undanfæri sem sköpuðu sprettfærin svo ekki sé minnst á ísilögð vötnin. Rannsóknir benda svo til að í gamla sænska landbúnaðarþjóðfélaginu hafi sú hefð að efna til kappreiða orðið mun ríkari en bara það að ríða út. Menn kepptu í sleðaakstri og á vögnun á ísilögðum vötnum og bændur létu og spræka vinnuhesta spretta úr spori þar sem náttúruleg undanfæri voru og þar er einmitt að finna rætur Norðursænska brokkarans.

Þessu til viðbótar ríkti lengi í Svíþjóð mikill frjálsræðisandi, virðing fyrir eignarrétti, viðskiptum og frjálsu framtaki. Þetta var því frjó jörð til að byggja upp atvinnugrein eins og brokkið. Mjög snemma sköpuðust forsendur til atvinnumennsku í hestamennsku, í brokkinu og mikið víðar. Jafnframt virðingu fyrir mannlegu atferli og eðli, þ.m.t. að taka vissa áhættu, s.s. að veðja. Sú mannlega þrá að spila, s.s. veðspil, liggur djúpt í mannlegu eðli og þá er ég ekki bara að tala um veðmál í sambandi við hesta heldur svo ótalmargt. Allt frá því að veðja á vígahana til flókinna afleiðuviðskipta. Eðli málsins samkvæmt er leikurinn, já eða vinnan ef um atvinnumennsku er að ræða, skemmtilegri og kröfuharðari eftir því sem þekking og yfirsýn eykur líkurnar á að vel farnist. Þannig er varla til heiladauðari leikur en lottó-spil en í veðreiðaspilum eins og t.d. V65 í Svíþjóð aukast vinningslíkurnar með meiri þekkingu á mönnum, hestum, völlum o.sv.frv. – þó heppnin þurfi að koma til svo allt gangi upp sem allra best. Þetta í heild gerir leikinn enn skemmtilegri en ella.

Aðstæður á Íslandi – andleg og veraldleg mótstaða við veðreiðahald hér á landi

Íslendingar lifðu öldum saman í veraldri og andlegri einangrun við ysta haf. Hér gerðist ekkert um aldir að heita má sem til virkilegra framfara heyrði og var landbúnaðurinn til að mynda þannig kominn, að nú eru nýlátnir menn sem hefðu getað gengið til heyverka með Agli Skallagrímssyni, eða kannski Egill með þeim sé frásögnin höfð í réttri tímaröð, og þeir hefðu staðið jafnfætis að verkkunnáttu. Hér ríkti andi verslunareinokunar og afturhalds. Ráðandi öfl, s.s. innlend yfirstétt, vildi litlu breyta og lagðist mikið frekar á sveif með afturhaldinu. Í landinu ríkti sjálfsþurftarbúskapur og peningar sáust ekki hjá stærstum hluta þjóðarinnar.

Það var þó ekki allt svart, t.d. er talið að læsi hafi verið almennara hér á landi en víða annars staðar og hér var íslenski hesturinn sem varðveist hefur hreinræktaður allt frá landnámi. Mikil kyrrstaða ríkti þó hvað alla meðferð hans og ræktun varðaði um aldir. Á nítjándu öld má segja að landið hafi á ýmsan hátt leyst úr klakaböndum þó vissulega hafi frumherjar barist um á hæl og hnakka til endurreisnar Íslands fyrr en þá. Þeirra verka fór þó að sjá stað svo um munaði á nítjándu öldinni, þá fóru m.a. peningar að sjást að nýju hér á landi en eins og áður hefur verið bent á í þessum greinaflokki eru peningar afl þeirra hluta sem gera skal.

Sagnir eru til um útflutning hrossa í gegnum aldirnar en ekki var um eiginlegt útflutningsstarf að ræða fyrr en um miðja nítjándu öld. Útflutningurinn varð skjótt stór í sniðum og skipti umtalsverðu efnhagslegu máli, rétt eins og sauðasalan og nam útflutningur hrossa þúsundum sum árin; mestur var hann 1899 rúmlega 5500 hross. Aldamótaárið 1900 fóru rúm 3000 hross úr landi og fullveldisárið 1918 rúm 1000 hross en þá hafði fyrri heimstyrjöldin sín áhrif en strax árið eftir fór útflutningurinn yfir 3000 hross að nýju. Heimildir eru til um fjölþætta notkun þessara hrossa, sum voru reiðhross, önnur drógu léttivagna eða tóku þátt í veðreiðum, flest urðu þau þó vinnuhross; mörg í breskum kolanámum. Í síðustu þremur tölublöðum Eiðfaxa hefur verið endurbirtur stórmerkur greinaflokkur eftir Bjarna Bjarnason skólastjóra á Laugarvatni en greinar þessar birtust áður í Hestinum okkar árið 1960. Í þriðja hluta greinarinnar segir m.a. svo (sjá 5. tbl., bls. 31): „Eftir að hrossasala hófst til Englands, var hrossanna betur gætt, og smám saman varð það bændum metnaðarmál að eiga markaðshæf og sæmilega falleg hross. Gagnrýni markaðshaldara á hrossum varð því hvöt til bænda að bæta hrossastofninn, meðal annars með því að gelda lélegustu folana fyrr en áður var venja. Að vísu hafði þetta litla þýðingu, bæði var ríkjandi kæruleysi þá, eins og enn í dag, svo og skiptar skoðanir á byggingu og kyngæðum folanna.“ Hvað um það, hjólin voru altént byrjuð að snúast.

Á þessum tímum var jafnframt ríkjandi frjálsræðisandi í þjóðmálunum eins og víðast hvar í Norðurálfu. Vöruúrval í búðum var til að mynda svo mikið fram að fyrri heimstyrjöld að annað eins sást ekki fyrr en komið var fram á áttunda áratug 20. aldar og jafnvel síðar. Kaupgeta almennings var kannski ekki mikil en fór þó ört vaxandi fram að kreppunni miklu, enda gekk skútuöldin í garð og í framhaldi hennar komu vélknúin skip og bátar. Úr þessum jarðvegi spratt það veðreiðahald sem áður hefur verið greint frá.

Töluverð mótstaða varð þó við það allt. Hvað menningarlegan bakgrunn voru þó ýmsar forsendur til staðar. Hefð var þannig fyrir að menn reyndu með sér á hestum sínum og hestamennska á sér djúpar rætur sums staðar, þar sem jafnvel má segja að náttúruleg reiðfæri, hestakostur og eðli mannfólksins spiluðu saman. Einn þáttur eins konar veðleika eða „gambls“ átti þó öruggan sess hér á landi og það voru hestakaupin, þar sem menn bröskuðu sín á milli, stundum óséð og fengu eða gáfu á milli, stundum peninga en oftar kannski vöru til nytja eða til að koma í verð. Í samanburði við Svíþjóð t.d., þróuðust mál hestamennskunnar þó illa hér á landi, hér bötnuðu ekki eða að m.k. viðhéldust, tækifærin til atvinnumennsku með hesta, heldur þvert á móti, þau nánast hurfu. Hestamennskunni fór um leið stöðugt aftur allt til um 1970 þegar framfarasókn hófst sem staðið hefur yfir allar götur síðan þá. Atvinnumennska festi sig í sessi og fjölmargt annað ávannst.

Ýmsir farartálmar hafa þó orðið í veginum, einn er sá sem orsakast af þeim skilgreiningarvanda hver staða hestamennskunnar sé. Er hún atvinnuvegur, íþrótt eða dægradvöl? Auk þeirra vandkvæða sem af þessu hlýst er svo þessi inngróna andstaða í þjóðarsálinni við frelsi.

Þessi ótti brýst út í forsjárhyggju og opinberum afskiptum, alveg sérstök hræðsla er hjá þessum öflum við allt sem þau telja að geti skapað fíkn en þau sjálf eru í raun með þá fíkn að hafa vit fyrir öðrum. Þessi árátta hefur birst í ýmsum myndum, s.s. átakinu Fíkniefnalaust Ísland 2000, í það var eytt stórfé og nú nýverið nýjum ekki síður vitlausum átaksverkefnum í áþekkum dúr. Þetta er ekki sagt hér til að gera lítið úr vandamálunum síður en svo en við þau verður ekki ráðið með svona aðferðum. Grunnvandamálið er mannlegur breyskleiki sem hefur verið til staðar frá örófi alda. Grunnþátturinn sem allt snýst um er frjáls vilji, eftir því sem hann er ríkari er hættan á fíkn minni. Ég varð einmitt var við það, þegar ég beitti mér fyrir tilraun til veðreiðahalds á sínum tíma hjá Hestamannafélaginu Andvara, að yfirvöld hræddust spilin, leyfi til þeirra fékkst þó með framlagningu skynsamlegra raka. Annað ljón sem er í veginum eru svo þeir aðilar á Íslandi sem þegar hafa leyfi til peningaspila. Þeir vilja fá að sitja áfram að hitunni en deila ekki með fleirum sem er reginmisskilningur vegna þess að spilamarkaðurinn, hvað þá nú á tímum veraldarvefjarins er ótakmarkaður eða svo gott sem.

Veðreiðar Íslands ehf.

Tillaga mín er sú að við leitum fyrirmyndar hvað okkar veðreiðahald varðar til nágranna okkar og frændþjóða á Norðurlöndunum og þá ekki í gegnum samstarf okkar innan FEIF eða til Íslandshestafélaga í viðkomandi löndum heldur beint til þeirra félaga sem halda utan um veðreiðastarfsemina í viðkomandi löndum.

Samstarf okkar innan FEIF er mikilvægt en ekki fullnægjandi til allrar framtíðar, sem nánar skal skýrt hér á eftir. Samtökin voru stofnuð 1969 og voru og eru enn þá í grunninn áhugamannasamtök, eins og nafn samtakanna bendir til: Föderation Europäisher Islandpferde Freunde, á grunni þessa nafns byggist skammstöfunin en opinbert heiti samtakanna núna er International Federation of Icelandic Horse Associations. Stofnlöndin voru sex en hefur stórfjölgað, eru nú um 20 með um 60 þúsund félagsmenn. Rekstur FEIF byggir á félagsgjöldum, sjálfboðastarfi og tilfallandi fjárhagslegum stuðningi. FEIF er bakland fyrir heimsmeistaramót íslenska hestsins sem fram fara annað hvert ár.

Vissulega er 60 þúsund manns ekki lítil tala en hestamennskan á íslenskum hestum er þó á jaðrinum víða hvað hestamennskuna varðar í heild sinni í viðkomandi löndum og til mikils er að vinna með að auka veg kynsins sem víðast. Við megum þannig ekki lokast inni í heimi Íslandshestamennskunnar eingöngu heldur sækja fram á ný mið. Þetta var nefnd sem starfaði á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og gaf út skýrslu árið 2009 mjög hugleikið, sjá Markaðssetning íslenska hestsins erlendis (http://www.mast.is/Uploads/document/Skyrslur/Markadssetning_isl_hestsins_erlendis.pdf). Ein af tillögum nefndarinnar var að koma íslenska hestinum á Ólympíuleikanna. Á oddinn yrði sett að fá viðurkenningu á töltkeppni (T1) og gæðingaskeiði (PP1) sem hluta af reiðmennskukeppni leikanna, sjá bls. 18 í skýrslu nefndarinnar. Tillaga þessi var kynnt fyrir þáverandi formanni LH og forseta ÍSÍ, við góðar undirtektir en báðir hurfu af vettvangi ekki löngu síðar og málið virðist hafa fallið niður en þegar það var kynnt fyrir FEIF voru undirtektir engar.

Jafnframt því sem leitast yrði við að afla hestamennsku á íslenskum hestum víðari skýrskotunar erlendis, myndu félög innan hestamennskunnar þétta raðirnar. Greinin myndi sameinast félagslega í samræmi við fyrirliggjandi tillögur frá árinu 2016 sem gera félögum eins og Félagi hrossabænda og FT sem hafa atvinnugreinalega skýrskotum og LH með sína Ólympísku skýrskotun að vinna saman, sjá skýrsluna Hreyfing hestamanna – Könnun á möguleikum aukins formlegs samstarfs eða sameiningar (https://www.fhb.is/static/files/skjol/Ymislegt/hreyfing_hestamanna_skyrsla_kh.pdf)

Á bls. 34 til 35 í téðri skýrslu er einmitt lagt til að sameiginlegt rekstrarfélag greinarinnar myndi stofna félag um veðreiðahald, afla þekkingar og leita eftir samstarfi. Stórt og mikilvægt verkefni er að vinna tiltrú á að þarna sé um starfsemi að ræða sem eigi sér tilvistarrétt ekki síður en lottó-ið, spilasalir eða happdrætti landsins og sé ekki skaðvænlegri en sú starfsemi og hjálpi að auki til við að koma fótunum undir starfsemi sem eflir þjóðarhag, rétt eins og hin peningaspilin gera.

Vanda þarf mjög undirbúninginn, félagið sem ég vel vinnuheitið Veðreiðar Íslands ehf. þarf að vera afskaplega vel fjármagnað, það er því félagasamtökunum mikilvægt að fá með sér í lið trausta og fjársterka aðila. Rekstur þess þarf að undirbúa vel með hámarksnýtingu hvers konar tölvu- og snjalltækjatækni og streymisveitna. Því markaðssvæðið þarf nauðsynlega að ná út fyrir Ísland með veðmálum yfir netið. Stjórnvöld þurfum við svo að hafa í liði með okkur bæði upp á leyfisveitingar, mögulega þörf á lagabreytingum og síðast en ekki síst að afla starfseminni tiltrúar. Því svo háttar því miður til að hér á landi er mikil andstaða við veðspil.

Ekki ætla ég að kveða upp úr með það í hvaða greinum ætti að keppa, þ.e. hvort gera ætti tilraun með að taka stökk og brokk upp aftur eða halda sig einungis við skeiðgreinarnar, slíkt þyrfti að kanna m.t.t. áhuga, hestakosts og þeirra valla sem í boði eru. Vellina þarf svo að standsetja og endurhanna að einhverju marki m.t.t. þarfa veðreiðanna, sjá lýsingu á því í síðasta blaði. Síðast en ekki síst þurfum við að sameinast um einn þjóðarleikvang sem yrði okkar aðalvöllur þó að einstakar kappreiðar gætu farið fram mikið víðar. Það svæði yrði flóðlýst með mikilli og fjölþættri aðstöðu, svona við líkingu við Solvalla rétt við Stokkhólm í Svíþjóð. Þó vitaskuld yrði allt minna í sniðum hjá okkur, allavega í byrjun. En mjór er mikils vísir, segir máltækið.

Læt ég lokið hér umfjöllun um möguleika þess að stofna til veðreiðahalds hér á Íslandi, látum nú hendur standa fram úr ermum og efndir fylgja orðum!

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar